Guðjón Steinþórsson fæddist í Reykjavík 26. desember 1955. Hann lést á Gran Canaria 5. apríl 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Steinþór Þórðarson bóndi í Skuggahlíð, Norðfirði, f. 13.7. 1926, d. 7.4. 1995, og Herdís Valgerður Guðjónsdóttir húsfreyja og bóndi, f. 6.7. 1936. Systkini Guðjóns eru Sigursteinn (samfeðra), f. 1954, Steinunn, f. 1957 (látin), Jón Þorleifur, f. 1958, Valgerður, f. 1961, og Jóna Jóhanna, f. 1965.

Guðjón kvæntist 17. júlí 1982 Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, f. 1956, þau skildu. Synir þeirra eru Guðmundur Örn, f. 9. nóvember 1982, sambýliskona Astrid Daxböck, f. 30. júlí 1980, Steinþór, f. 31. desember 1985, og Magnús Haukur Ásgeirsson (sonur Önnu Guðnýjar), f. 13. nóvember 1975, kvæntur Margréti Ófeigsdóttur, f. 25. apríl 1980. Þeirra börn eru Arnaldur Máni, f. 3. október 2004, Eva Kamilla, f. 7. maí 2007, og Benjamín Bjarki, f. 2. ágúst 2013. Fyrrverandi sambýliskona Guðjóns og kær vinkona er Lena Bergmann, f. 1973.

Guðjón stundaði nám í gítarleik við Tónskólann í Neskaupstað og Tónskóla Sigursveins. Hann vann ýmis fjölbreytt störf auk þess að vera gítarleikari í ýmsum hljómsveitum. Þekktust þeirra var Amon Ra frá Neskaupstað en þar starfaði hann einnig um árabil sem tónmennta- og gítarkennari. Guðjón hafði yndi af trillusjómennsku og lauk prófi í stjórnun smáskipa frá Tækniskólanum. Hann starfaði lengi sem tæknimaður á Hótel Sögu og víðar. Síðustu ár starfaði Guðjón sem tónlistarkennari við Tónskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar allt fram að starfslokum í júní 2023.

Minnningargrein á www.mbl.is/andlat

Útför Guðjóns verður gerð frá Norðfjarðarkirkju í dag, 24. maí 2024, klukkan 14.

Elsku Guðjón.

Það er svo tómlegt án þín. Við vorum bestu vinir í sjö ár, saman í tíu ár og svo héldum við áfram að vera vinir eftir það. Við erum bæði einfarar og þess vegna gekk þetta svo vel upp. Ég hef aldrei á ævinni verið einmana fyrr en núna. Við töluðum saman á nánast hverjum einasta degi í 23 ár, en núna get ég ekki einu sinni hringt í þig.

Þetta byrjaði allt saman þegar ég kynntist vini þínum sem þú bjóst með nálægt Hótel Sögu þar sem þú vannst. Við náðum mjög góðu sambandi og eftir að ég fór aftur til Svíþjóðar ákvað ég að safna peningum fyrir þig til að koma í heimsókn og fara með mér á Hróarskeldu. Ég vann á bar og bæði kúnnar og vinnufélagar gáfu í sjóðinn sem ég kallaði The Icelandic refugee fund. Þú varðst himinlifandi enda var mjög langt síðan þú hafðir farið utan, hvað þá á Hróarskeldu. Þegar þú komst út héldum við partí fyrir alla sem höfðu tekið þátt í að borga. Ég gleymi því aldrei hvað þú varst ánægður í því partíi.

Svo tókum við lest sem fór eldsnemma frá Stokkhólmi og það var fyrsta skiptið sem þú fórst í lest! Það hafa margir kvartað yfir því hvað þú talaðir lítið, en í þeirri lestarferð talaðir þú stanslaust. Við fengum okkur sæti í klefa með sex sætum og svo ætluðu nokkrar nunnur inn í klefann með okkur en þú glenntir þig einhvern veginn svo þær snéru við og hurfu og við bara hlógum.

Við gistum hjá Bíbí ömmu í Danmörku en hún átti sjö ketti. Þú hafðir alltaf verið hræddur við ketti eftir að einhver prestur skildi eftir kettling í pössun í Skuggahlíð og kötturinn réðst á þig og læsti klónum í lærin á þér. Um nóttina var einn köttur að flækjast ofan á skáp hjá rúminu þínu og datt ofan á þig. Ég hef aldrei heyrt eins öskur og í þér þegar þetta gerðist.

Eftir að hafa gist hjá Bíbí hittum við Gurrý á Hróarskeldu. Eftir hátíðina ákvað hún að koma með okkur til Stokkhólms og við lögðum af stað í bílnum hennar. Hún keyrði á ofsahraða og tók fram úr flutningabílum á litlum vegum. Þú sast náfölur aftur í. Það endaði með því að ég plataði hana, sagði að mér leiddist og keyrði það sem eftir var til Stokkhólms.

Eftir þetta ævintýri vorum við alltaf í sambandi. Það endaði með því að ég flutti aftur til Íslands og endaði hjá þér á Barónsstígnum. Við fluttum síðan saman á Seljaveginn og enduðum hjá Tobba heitnum á Rauðarárstíg. Hann var alltaf að lofa að elda enda hafði hann unnið sem kokkur, en hann eldaði sjaldan. Hann var mjög sérstakur hvað varðaði mat, en einn daginn varstu orðinn svo svangur að þú keyptir tilbúna kjúklingabita, hljópst inn í herbergi og faldir þig undir sæng til að fá að borða þá í friði. Þú keyptir hræódýran bíl sem Tobbi skírði Þrístökk. Það var einmitt sá bíll sem kom okkur alla leið austur í Skuggahlíð þegar þú fékkst vinnu þar. Á leiðinni frá Eskifirði upp að göngunum var Þrístökk alveg að gefast upp svo við þurftum að stoppa og leyfa honum að hvíla sig. Hann komst samt upp og í gegnum göngin og við létum hann renna í hlað í Skuggahlíð. Þá var hann kominn í sveitina og settist í helgan stein. Hann fór aldrei aftur í gang. Þar kynntist ég Herdísi móður þinni, Steinunni og Önna. Með tímanum kynntist ég öllum öðrum fjölskyldumeðlimum. Við bjuggum í sama húsi og Dísa, hún á neðri hæðinni og við á efri. Við keyptum bjöllu handa henni svo hún gæti hringt henni ef hana vantaði aðstoð. Við gerðumst hálfgert sveitafólk, tíndum ber, bjuggum til sultu, vorum með hesta og reyktum kjöt. Það var virkilega skemmtilegt tímabil.

Eftir Skuggahlíð fluttum við til Reyðarfjarðar og við tók aðallega vinna hjá okkur báðum. Þar fannstu Bíbí kisu þegar þú vaknaðir um miðja nótt og kíktir út til veðurs. Þú lést eins og þér væri illa við hana og að þér væri illa við ketti, en ég veit að þér þótti mjög vænt um hana enda er hún búin að fylgja okkur síðan 2009.

Eftir að ég fékk krabbamein flutti ég til Svíþjóðar og þú komst þangað og bjóst hjá mér í eitt ár. Dísa kom meira að segja í heimsókn og við leigðum bílaleigubíl til að geta sýnt henni svæðið. Þú fékkst hins vegar enga vinnu og þurftir að flytja heim. Þú komst samt alltaf í heimsókn um jól, páska og á sumrin. Þú elskaðir að vera í sólbaði á svölunum.

Við höfum ferðast þó nokkuð saman, til Danmerkur, Ungverjalands, og tvisvar til Bandaríkjanna. Í Ungverjalandi vildi svo til að Jón bróðir þinn var þar á sama tíma að mixa. Hann ætlaði að fara í sund á hótelinu en við fórum með hann í ungverskt baðhús og það var ógleymanlegt. Í Bandaríkjunum villtist þú inn á brúðkaup þar sem þú varst eini hvíti maðurinn. Allir snéru sér við og horfðu á þig þar sem þú stóðst þarna í gallajakkanum þínum eins og illa gerður hlutur. Einn daginn var ég að hvíla mig á hótelinu og þú fannst lítinn bar sem þér leist vel á. Þegar við fórum þangað um kvöldið kom í ljós að þetta var mafíubar þar sem nánast allir hétu Louie eða Joey. Þar var líka lögga sem hékk með þeim og hann vildi endilega alltaf keyra okkur heim á hótel, alveg sama hvað hann hafði drukkið mikið.

Eftir að við kisa fluttum til Kanarí hélstu áfram að koma í heimsókn. Einu sinni varstu nýkominn og fórst beint upp á þak í sólbað án þess að taka með þér vatn. Sem betur fer fékk ég smá pásu í vinnunni og fór upp til að gá hvernig þér liði. Þar lást þú á sólbekk í svitabaði og ég fékk þig varla til að standa upp. Ég þurfti að leiða þig niður tröppurnar niður í íbúðina. Á leiðinni rákumst við á nágranna minn sem horfði áhyggjufull á þig. Ég útskýrði ástandið og þá fór hún að skellihlæja.

Svo fórstu loksins á eftirlaun og fluttir hingað út, nokkuð sem hafði verið draumur þinn í mörg ár. Við leigðum okkur fína íbúð og allt leit vel út. Hérna fórstu líka upp á þak í sólbað og naust þess vel, en þú fékkst því miður bara að vera hérna í sex mánuði. Ég sakna þín svo ofboðslega mikið. Það er svo ömurlegt að vera í þessari íbúð án þín.

Tómleikinn sem ég finn fyrir án þín er nánast óbærilegur. Þú varst bakhjarlinn í mínu lífi. Ég hef alltaf elskað þig og mun alltaf elska þig.

Ávallt þín,


Lena.