Snorri Friðriksson fæddist 10. desember 1933 á Hofsósi. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Landakotsspítala 16. maí 2024.
Snorri var fæddur og uppalinn í Bröttuhlíð á Hofsósi. Móðir hans hét Guðrún Helga Kristín Sigurðardóttir, fædd 17. október 1902. Hún var húsmóðir, síldarstúlka á Siglufirði og fiskvinnslukona. Hún lést 3. apríl 1992. Faðir hans hét Friðrik Jónsson, fæddur 23. október 1894. Hann var sjómaður og bóndi. Hann lést 16. maí 1978.
Snorri var yngstur fimm systkina. Þau hétu í aldursröð Sigurður Marteinn, Margrét Sigríður, Jón Friðrik og Hafsteinn Ásgímur. Þau eru öll látin.
Eftirlifandi eiginkona Snorra er Steinunn Húbertína Ársælsdóttir, hárgreiðslukona, fædd 29. janúar 1944 í Reykjavík. Móðir hennar hét Katharina Sibylla Magnússon Thelen, húsmóðir. Hún var fædd 30. október 1909, látin 20. október 1990. Faðir hennar hét Ársæll Magnússon steinsmiður fæddur 1. janúar 1907. Hann lést 26. janúar 1969.
Börn þeirra eru: 1) Katharina Sibylla Snorradóttir, fædd 1959. Eiginmaður hennar er Eggert Smári Eggertsson. Börn þeirra eru: a) Steinunn Húbertína, sambýlismaður Þorkell Þorkelsson. Börn hennar eru Konráð Oddgeir, Katharina Sibylla og Karolína Helga. b) Karolína Helga, sambýlismaður Stefán Hólmgeirsson. Barn hennar er Smári Karl. Stefán á fyrir dæturnar Evu og Freyju. c) Ása Hildur, eiginmaður Friðrik Einarsson. Börn þeirra eru Benjamín Arnar, Kristín Harpa og Patrekur Frosti. d) Arnar Snævar, sambýliskona Tinna Ýr Einisdóttir. Barn þeirra er Una Bjarklind.
2) Jón Friðrik Snorrason, fæddur 8. febrúar 1962. Hann lést 18. júlí 2022. Börn hans eru: a) Ólína Margrét, eiginmaður Bjarni Birgir Fáfnisson. Börn þeirra eru Alexandra Ester og Elísabet Ýr. b) Steinn Alex, sambýliskona Cezara Kiss. c) Hörður Snævar, eiginkona Sjöfn Ólafsdóttir. Börn þeirra eru Móeiður Alda, Marel og Mjöll. d) Arnar Már, sambýliskona hans er Ólöf Fríða Magnúsdóttir. Barn þeirra er Ísak Magnús. e) Unnur Sóley og f) Kolbrá.
3) Ársæll Snorrason, fæddur 28. janúar 1965. Hann lést 2. maí 2013.
4) Snorri Snorrason, fæddur 16. október 1973. Hann lést 8. júlí 2009.
Snorri gekk í barnaskólann á Hofsósi. Fjölskyldan flutti til Akureyrar um tíma og þar lauk hann gagnfræðapófið. Snorri fór ungur að árum til sjós. Hann fór í stýrimannaskólann og lauk prófi 1958. Hann var til sjós allan sinn starfsferil á hinum ýmsu togurum og seinast skipstjóri á togaranum Jóni Baldvinssyni sem hann sótti til Portúgal árið 1980.
Snorri var mjög ljúfur og elskaði að fá barnabörnin og barnabarnabörnin í heimsókn. Snorri gekk í Oddfellow 1973 og fór á alla fundi þegar hann var í landi. Snorri og Steina stunduðu golf saman og ferðustum víða bæði hér heima og erlendis. Snorri safnaði bæði mynt og frímerkjum og átti flott safn. Hann hafði mjög gaman af að horfa á íþróttir og þá sérstaklega fótbolta og var mikill Manchester United aðdáandi og missti ekki af leik. Sumarið 2023 fór að bera á heilsubresti sem endaði með sjúkrahúsvist sem varði meiri partinn af árinu. Hann komst heim í enda nóvember 2023 og hélt uppá 90 ára afmælið sitt í faðmi fjölskyldu og vina. Í febrúar 2024 lenti hann aftur á sjúkrahúsi og komst ekki heim eftir það. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala.
Útför Snorra fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 28. maí 2024, klukkan 11.
Nú ertu farinn í sumarlandið elsku hjartans pabbi minn, þar sem strákarnir ykkar mömmu, Jónsi, Ási og Snorri, hafa tekið þér fagnandi. Það sem kemur upp í hugann þegar sest er niður til að minnast pabba er endalaust þakklæti, þakklæti fyrir hvað við höfðum hann lengi hjá okkur, við fjölskyldan öll komum saman í Lækjasmáranum ásamt góðum hópi vina til að fagna 90 ára afmæli pabba hinn 10. desember sl. Þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem ég átti með honum í vetur þar sem ég sat hjá honum þegar mamma þurfti að fara af bæ, þá eldaði ég eitthvað gott handa okkur og auðvitað fékk hann að ráða hvað var í matinn og var það alltaf góður fiskur, þessar stundir voru unaðsstundir fyrir okkur bæði. Pabbi bar þungan bakpoka. Árið 1959 missti hann tvo bræður sína í sjóslysi, þá Jón og Hafstein, frá 2009 til 2022 misstu þau mamma og pabbi þrjá syni sína og ég bræður. Pabbi var prívat maður og talaði helst ekki um sína líðan þegar kom að sorginni. Þannig var pabbi.
Þakklætið fyrir þann dásamlega tíma sem við áttum saman í útlöndum, fyrsta ferðin sem ég og mamma fórum saman í, ég var 12 ára, þá flugum við til Skotlands og hittum pabba þar, hann var að landa aflanum, og sigldum svo yfir hafið með honum heim. Já pabbi var til sjós frá því ég man eftir mér. Hann sigldi mjög oft með aflann til erlendra hafna og þegar hann kom heim var mikill spenningur hjá okkur systkinum því alltaf leyndist eitthvað fallegt og skemmtilegt í töskunni sem hann færði okkur. Nokkrar ferðirnar voru farnar til Þýskaland í Rínardalinn fallega til að heimsækja fjölskylduna hennar ömmu Ínu þaðan sem hún var. Fyrir nokkrum árum skelltum við okkur fjölskyldan eða 20 manns og flugum til Þýskalands og áttum tíu dásamlega daga saman, þar sköpuðust góðar minningar sem enn er verið að fara yfir.
Pabba þótti endalaust vænt um litla fólkið í fjölskyldunni eins og hann kallaði það, en það voru langafabörnin. Hann naut þess þegar þau komu í heimsókn og kúrðu hjá honum, hann var mikil barnagæla, þó kom fyrir, þegar hann kom fram eftir að hafa verið að hvíla sig, að hárið var úfið og sumum stóð alls ekki á sama og vildu ekki koma nálaægt honum. Þá var hann með leynivopn uppi í erminni; náði sér í súkkulaðirúsínur, settist í stólinn sinn, tók upp munnhörpuna og spilaði Gamla Nóa, það nægði til að bræða litlu krílin.
Þakklæti fyrir dásamlegu stundirnar sem við áttum saman í Hofsós þar sem honum og mömmu leið svo vel á Kárastígnum enda voru þau dugleg að fara norður og njóta þar sem veðrið er hvergi betra en einmitt þar, eða eins og hann lýsti því þá er alltaf stafalogn í Skagafirði.
Já söknuður er mikill og tómarúm verður í lífi okkar allra þar sem það
var alltaf hægt að ganga að því vísu að fá góða hlýja fasta faðmlagið frá
þér elsku pabbi þegar komið var í heimsókn. Mamma hafði í nokkur ár stungið
upp á því að þau myndu flytja á Selfoss, en pabbi var alls ekki á því. Svo
var það í fyrrasumar þegar hann lá á Landspítalanum að hann bað mig að
grennslast fyrir um íbúð á Selfossi sem myndi henta þeim og setja
Lækjasmárann á sölu. Mamma var alveg grunlaus um þessar pælingar hjá honum.
Auðvitað stökk ég á hugmyndina. Allt gekk upp; Lækjasmárinn seldist og
daginn eftir að pabbi lést fengu þau lykil að nýrri íbúð á Selfossi, við
Hæðarland 10. Þessar húsapælingar hjá honum voru þær held ég að mamma væri
komin nær fjórum af tíu afabörnunum þeirra þar sem samgangur er mjög
mikill. Ég sagði við hann fyrir svona þremur vikum að nú færi að styttast í
að þau fengju lyklana að nýju íbúðinni og við fyrsta tækifæri ættum við að
skella okkur í bíltúr til að sjá herlegheitin. Hann leit á mig hugsi og
sagði svo neinei. Hann vissi sem var að hann færi ekki með mömmu, en var
mjög sáttur við að allt væri í höfn og hún væri komin á góðan stað nálægt
ástvinum og stutt fyrir þau sem búa í bænum eða á Dalvík að koma í
heimsókn. Pabbi var mikill skipstjóri bæði í starfi og í lífinu sjálfu og
vildi helst af öllu hafa síðasta orðið í öllum ákvörðunartökum. Þetta var
pabbi.
Elsku pabbi minn. Ég og við öll fjölskyldan munum sakna þín mikið en
minningarnar um þig lifa með okkur alla tíð. Hvíl í friði og takk fyrir
allt.
Þín dóttir,
Katharina Sibylla (Ína).