Ragnar Ingólfur Sigvaldason fæddist á Hákonarstöðum, Jökuldal 6. mars 1926. Hann lést á Umdæmissjúkrahúsinu í Neskaupstað 8. maí 2024 eftir skammvinn veikindi.
Foreldrar Ragnars voru hjónin Jónína Rustikusdóttir húsfreyja, f. 26.10.1892 d. 7.1.1975, og Sigvaldi Torfason bóndi, f. 6.7.1884 d. 27.11.1955. Bræður hans voru Björgvin, f.15.3.1927 d. 29.7.1999, og Þórður, f.19.5.1929 d. 30.3.2005.
Ragnar kvæntist 8.8.1969 Birnu Stefaníu Jóhannsdóttur, f. 21.8.1944, frá Eiríksstöðum, dóttur hjónanna Karenar Petru Jónsdóttur Snædal, f. 26.8.1919 d. 14.6.2005, og Jóhanns Eiríks Björnssonar, f. 28.12.1921 d. 3.9.2000.
Synir þeirra eru:
1) Jóhann Örvar, starfsmaður HSA Egilsstöðum, f. 2.8.1964. Eiginkona hans er Árný Sigurðardóttir. Börn þeirra eru: a) Ingólfur, eiginkona Kolbrún Stella Gestsdóttir, börn þeirra eru Árný Tekla og Jökull Heiðar; b) Björgvin, sonur hans er Hafsteinn Ragnar, barnsmóðir Ólöf Ósk Einarsdóttir; c) Svanur Freyr, unnusta hans er Agnes Stefánsdóttir og d) Sigdís, unnusti hennar er Mikael Páll Davíðsson.
2) Sigvaldi Hreinn, bóndi Hákonarstöðum, f. 29.6.1968, eiginkona hans er Halla Eiríksdóttir. Börn Höllu og stjúpbörn Sigvalda eru: a) Eiríkur Brynjólfsson, eiginkona Marjulyn Barsaga, sonur þeirra er Amando. Sonur Eiríks með Ástu Rögnvaldsdóttur er Óttar; b) Rósey Kristjánsdóttir, unnusti Hannes Kristinn Kristinsson, börn þeirra eru Kristinn Rafn og Alía Lind.
Fyrir átti Ragnar soninn Guðgeir Þorvald, f. 9.1.1953, með Sólveigu Aðalheiði Hjarðar frá Hjarðarhaga, f.15.1.1923 d. 12.9.2018.
Guðgeir er bóndi á Hjarðargrund, Jökuldal og áður oddviti Hlíðarhrepps. Eiginkona hans er Svandís Sigurjónsdóttir. Börn þeirra: a) Sólveig Aðalheiður, eiginkona hennar er Rósa Dröfn Guðgeirsdóttir og dóttir Sólveigar með Viktori Guðbrandssyni er Natalía Rán. Stjúpbörn Sólveigar eru Sævar og Guðgeir; b) Margrét Dögg, eiginmaður Víðir Sigurðsson, börn þeirra eru Snævar Aron og Fanney Vaka og dóttir Margrétar með Hafþóri Val Guðjónssyni er Sigríður Svandís; c) Sigríður Auðna; d) Benedikt Þorvaldur, unnusta hans er Guðrún Hlíðkvist Kröyer, barn þeirra er Röskva María; e) Sigurjón Trausti, unnusta hans er Heiðrún Gunnarsdóttir.
Ragnar fæddist á Hákonarstöðum og bjó þar alla tíð að frátöldum fyrstu fjórum árunum þegar foreldrar hans bjuggu í Klausturseli. Þau Birna komu sér síðar upp öðru heimili á Egilsstöðum og hafa dvalið þar að mestu frá 2013.
Ragnar var í farskóla á Jökuldal en fór svo árin 1944-1946 í Héraðsskólann á Laugarvatni. Hann tók bílpróf í Reykjavík 1946 og stundaði akstur að atvinnu með bústörfum fram undir 1970. Þá vann hann á jarðýtum um tíma og var einn þeirra sem átti þátt í því að koma bæjum í Jökuldal í bílvegarsamband. Auk þess starfaði hann nokkur ár sem skólabílstjóri og sat eitt kjörtímabil í sveitarstjórn Jökuldalshrepps á sjötta áratugnum.
Sauðfjárbúskapur var alltaf aðalatvinna Ragnars, fyrst í félagi við foreldra og bræður en síðan sjálfstætt starfandi í búskap eftir 1960. Sigvaldi sonur hans kom inn í reksturinn um 1990 og tók fljótlega við búinu þótt Ragnar ynni að fullu við það fram undir 2013, þá orðinn 87 ára að aldri. Hann hélt áfram að taka þátt í verkum á álagstímum, svo sem um vor og haust, og fór í sína síðustu smalamennsku sl. haust, 97 ára að aldri.
Ragnar var elsti íbúi í sínu sveitarfélagi Múlaþingi og var við góða heilsu þar til þremur vikum fyrir andlát sitt. Minni hans var óbrigðult og var hann sjálfbjarga allt til æviloka.
Það er ekki auðvelt að skrifa minningargrein um 98 ára gamlan höfðingja, sem er hægt að segja svo margt um. Ég kynntist Ragnari þegar hann var rúmlega sjötugur en hef aldrei upplifað hann sem gamlan mann. Hann var ótrúlega vel á sig kominn, hélt sér vel, borðaði gjarnan feitt og saltað kjöt, notaði hvítan sykur í kaffið en var lítið fyrir votbrauð, sem var orðtak hans yfir sætabrauð.
Tengdafaðir minn var Jökuldælingur með sanni, fæddur og alinn upp í Sólskinsdalnum, eins og hann kallaði dalinn sinn. Mér lærðist snemma að betra var að mótmæla ekki gæðum og kostum staðarins, það hafði lítið uppá sig. Hann Ragnar var nefnilega meinstríðinn, sem ég áttaði mig ekki á í fyrstu. Ég var í uppvaski, hann við matarborðið og við að ræða einhver þjóðþrifamál. Umræðan fór á flug, við ekki sammála, mér hitnaði í hamsi og óð á súðum eins og sagt er, sneri mér við til að fylgja málinu eftir en viti menn, hann var á bak og burt. Þetta lék hann oft og alltaf féll ég í sömu gildruna. En engir eftirmálar urðu af þessum samtölum og margt lærði ég af þessum mæta manni.
Ragnar heyrði ekki vel, notaði heyrnartæki, en mig grunar að hann hafi haft svokallaða valheyrn á stundum. Hann var alla tíð lipur, léttstígandi og hnarreistur, og ekki auðvelt að fylgja honum í verkum. Mér er minnisstætt þegar ég ætlaði að létta honum brynningar í sauðburði, þá slapp hann bara í næsta verk. Þarna hljóp ég alla daga, alltaf að reyna að ná því að vera á undan honum en allt kom fyrir ekki, hann fann sér alltaf eitthvert verk sem ég sá ekki fyrir. Sívinnandi var þessi maður, hummandi eða blístrandi við störf sín. Ófáa sokka og vettlinga hefur hann prjónað af mikilli vandvirkni, hannað fyrir vinnandi fólk með styrktum hæl og þæft til að endast betur. Alltaf voru naglar og snærisspottar í úlpuvösunum því girðingaviðhald var mjög mikilvægt og ég undraðist oft hvernig þessi granni maður gat mundað járnkarlinn eins og kraftajötunn. En hann brýndi alltaf fyrir mér að varast gaddavír, held að hann hafi ekki talið það kvenmannsverk að meðhöndla slíkt.
Heilbrigðiskerfið hefur lítið haft af Ragnari að segja, hann fékk reyndar gangráð fyrir tveimur árum því hjartað gekk orðið í verulegum hægagangi og var þetta fyrsta sjúkrahúsdvöl hans. Þetta var á Covidtímum og ég reyndi að hringja á þá staði sem hann þurfti að dvelja á til að ítreka fyrir þeim að horfa ekki á fæðingarár hans heldur að horfa á manninn. Til að lýsa honum sagði ég þeim að þessi maður keyrir bara upphækkaðan Toyota Hilux, veiðir silung í vöðlum, fer á rjúpnaveiði, fylgist með þjóðfélagsumræðunni en kann ekki að kvarta. Hann kvartaði aldrei um vanlíðan en ef ég sá að hann var með verki lagði ég verkjatöflu á borðið hjá honum, á milli okkar var þegjandi samkomulag og hann mótmælti því aldrei, við vissum bæði að það var ekki til neins.
Frá því að ég kom í þessa fjölskyldu hafa tengdaforeldrar mínir alltaf komið með okkur á þorrablót sveitarinnar og ekki verið þau fyrstu heim enda var Ragnar stemningsmaður á þessum samkomum. Hann var maðurinn sem var til í að smakka jólabjórana, framandi vín og ræða um kosti eða galla þeirra, hann var líka maðurinn sem var til í að prófa sýndarveruleikagleraugun með níutíu ára yngra barnabarni, hann var maðurinn sem fylgdi tímanum. Ragnar var einn þeirra sem tókst að miðla og kenna án þess að hafa mörg orð um hlutina, maður skildi bara mikilvægi þeirra á einhvern óskiljanlegan hátt. Það var gott að þegja með honum en það er bara hægt með fólki sem manni líður vel með. Um leið og ég mun sakna hans því hann var hluti af daglegu lífi, bæði heima og í vinnu, er ég þakklát fyrir að hafa þekkt hann og sátt við að hann fékk að kveðja nánast í fullu fjöri án þjáninga eða fjötra veikinda. Góða ferð, Ragnar minn.
Halla Eiríksdóttir.
Miðvikudagurinn 8. maí sl. verður mér örugglega minnisstæður framvegis en snemma morguns þess dags ákvað pabbi að halda út í vor hins eilífa lífs eftir skammvinn veikindi og þriggja vikna sjúkrahúsvist af fjórum á hans löngu ævi. Dagurinn á undan var honum góður, nú stefndi í heimferð og hugurinn var kominn í sauðburð heima á Hákonarstöðum og lífsþrótturinn endurheimtur. Í stað þess að sjá pabba koma akandi yfir Leitið utan við bæ á sínum upphækkaða Hilux með nýendurnýjað ökuskírteini skilaði almættið honum heim á sínum fararskjótum á þeim fallegasta morgni sem hafði komið þetta vorið.
Já, margs er að minnast en fyrir mér var pabbi svo margt annað en faðir minn, hann var ráðgjafi og fræðari, en síðast en ekki síst vorum við vinnufélagar og engum öðrum hef ég unnið meira með um dagana. Það var gott að vinna með pabba, en báðir skapmenn og stundum gat hvesst á milli okkar en aldrei svo að skaði yrði af enda báðir jafn fljótir niður og upp. Hæfileikar pabba lágu víða og hann var fróður um margt án þess að hafa nokkra þörf fyrir að bera það á torg. Ég veit að á hans skólagöngu naut hann Laugarvatnsáranna og námið átti vel við hann. Bjarni skólastjóri hvatti hann til frekara náms og vildi beina honum í Samvinnuskólann, hvað réði því að pabbi fór ekki að þeim ráðum fékk ég aldrei að vita. Lögfræði var honum alltaf hugleikin enda rökræður honum sérstakt áhugamál.
Pólitík var einnig sérstakt áhugamál pabba. Hann studdi Sjálfstæðisflokkinn alla tíð og vitnaði gjarnan í hans gömlu grunngildi; stétt með stétt. Þótt við deildum stjórnmálaskoðunum gátum við samt deilt um slík mál en á góðlegum nótum, einungis til að vera ósammála og fá umræðu. Morgunblaðið var hans blað alla tíð frá því að það fór að berast í Hákonarstaði á ungdómsárum hans. Ég minnist tilvitnana hans í greinar Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar eldri mörgum árum eftir andlát þeirra, þegar hann sagði að allir ættu að lesa þeirra boðskap, öðruvísi gætu menn ekki rætt þjóðmál. Blaðið las hann til hinsta dags og vitnaði gjarnan í ýmsar greinar er ritaðar voru í blaðið, þó sérstaklega aðsendar greinar um þjóðfélagsmál.
Eitt af mörgum sameiginlegum áhugamálum okkar var saga samfélags okkar og heiðarinnar. Þegar ég sótti í hans viskubrunn var aldrei komið að tómum kofanum. Síðasta verk pabba, þá farinn að finna fyrir óþægindum af veikindum sínum, var að miðla þekkingu sinni á örnefnum og koma þeim inn á kortavef Landmælinga. Örnefni Hákonarstaða, nálægra jarða og heiðarinnar voru honum opin bók. Það er ekki hægt annað en minnast á silungsveiðar sem áttu hug hans allan á sumrum enda bar að nýta hlunnindin, en stangveiði nennti hann ekki að sinna. Mikið var veitt í vötnum og daglega farið til vitjana en misgóður matsilungur var í vötnum heiðarinnar, t.d. var ekki góður matfiskur í Gripdeild. Því tók pabbi sig til og keypti seiði Þingvallableikju og sleppti í vatnið. Hinn gamli stofn er nú nær horfinn en stofninn sem pabbi kom með er alls ráðandi og hinn besti matfiskur.
Þótt ég hefði tekið formlega við búinu upp úr 1990 bjuggum við saman og vinnuframlag pabba við búið hélt áfram að fullu fram til 2013, er pabbi og mamma fluttu sig um set í Egilsstaði þar sem þau komu sér upp fallegu og notalegu heimili. Þau héldu áfram að koma á álagstímum um vor, sumar og haust og erfitt var að hemja hann við vinnu. Til marks um vinnuhörku hans og úthald sáum við mun á honum þegar hann varð níræður. Í stað þess að vinna sextán tíma á sólarhring drógust afköstin niður um tvær klukkustundir og hann var að í um fjórtán tíma á sólarhring.
Heyskapur þótti pabba alltaf skemmtilegur og hann viðhélt vélafærni sinni fram á tíræðisaldurinn. Frændi minn einn mætti pabba, hann þá 88 ára, er við vorum í rúlluflutningum af næstu jörð með þeim orðum hvort jafnaldrar pabba, þau Kastró Kúbuforseti og Elísabet Bretadrottning, væru svo snjöll að víkja með rúlluvagn sem hann á örmjóum vegi Efradals. Það verður tómlegt í haust þegar smalamennskur byrja að hafa hann ekki með en sína síðustu smalamennsku fór hann síðasta haust á Hiluxinum, tók upp uppgefið fé og horfði yfir hvort smalar væru nokkuð að slugsa og skilja eftir. Það var alveg einstakt að fylgjast með honum í þessum verkum þegar hann tók jafningjaspjallið við alla, sama á hvaða aldri þeir voru. Í gegnum árin hef ég getað stundað félagsmálastörf þar sem ég hef notið stuðnings hans því hann var ávallt reiðubúinn að standa vaktina á búinu í fjarveru minni.
Ég á föður mínum margt að þakka því það er gæfa hvers manns að njóta stuðnings og gæsku foreldra á fullorðinsárum, sem ég tel mig hafa notið. Þótt ég syrgi og sakni, sem og gráti, við fráfall pabba er ég afskaplega þakklátur fyrir að hann fékk að halda út í eilífðina eins og þetta bar að, enda fullur vinnudagur á enda hjá honum.
Guð blessi og varðveiti minningu föður míns, Ragnars á Hákonarstöðum
Sigvaldi H. Ragnarsson.