Valgerður Þorbjarnardóttir fæddist 17. mars 1934 í Sælingsdalstungu í Dalasýslu. Hún lést á Dvalarheimili aldraðra, Dalbæ á Dalvík, 11. maí 2024.

Hún var dóttir hjónanna Þorbjörns Ólafssonar og Bjargar Ebenesersdóttur.
Systkini Valgerðar eru: Jóhanna, Guðmundur, Jóel og Elínbjörg.

Valgerður giftist Júlíusi Eiðssyni, f. 4. janúar 1919 í Holárkoti Skíðadal,  Svarfaðardalshreppi, d. 25. júlí 2005, þann 20. febrúar 1955.

Börn þeirra eru: 1) Eyrún Kristín, f. 12. mars 1955 á Dalvík. Maki Óskar Haukur Óskarsson. 2) Guðmundur Þorbjörn, f. 20. ágúst 1958 á Akureyri. Maki Margrét Georgsdóttir. 3) Valur Björgvin, f.  25. desember 1962 á Akureyri. Maki Ester Ottósdóttir. 4) Júlíus Garðar, f. 2. febrúar 1966 á Dalvík.
Maki Gréta Arngrímsdóttir. 5) Dagný Svava, f. 11. desember 1951 í Eyjafjarðarsýslu.

Valgerður  byrjaði 10 ára í farskóla sem var fjórir vetur hálfan mánuð í senn.
17 ára fór hún í vist til Borgarness, sinnti þar barnagæslu og heimilisstörfum.
Veturinn 1952-1953 fór hún í Húsmæðraskólann á Varmalandi í Borgarfirði. Um haustið 1953 fór hún að vinna sem matráðskona í mötuneyti frystihússins í Keflavík (Stóru-Milljón). Þar kynnist Valgerður Júlíusi og þau giftu sig 1955.

Afkomendur þeirra hjóna eru 50


Þau hjón fluttu til Dalvíkur 1955 og byrjuðu búskap sinn á neðri hæðinni hjá Valrós í Karlsrauðatorgi 12. Þau kaupa Höfn (Karlsrauðatorg 4) 1956 og bjuggu þar þangað til þau fluttu í Kirkjuveg 11 árið 1993.

Útförin fór fram frá Dalvíkurkirkju 25. maí 2024.

Nú hefur þú fengið hvíldina rétt eftir að við áttum góðar stundir í kringum 90 ára afmælið þitt 17. mars sl. Við vitum að þér líður vel í sumarlandinu með pabba, ömmu og afa og öllum hinum.

Takk fyrir að vera mamma mín.
Móðurtaugin er sterk og mömmur eru einstakar.

Eins og þú veist þá hvíslaði ég að þér stuttu áður en þú kvaddir þessa jarðvist að við værum hjá þér, ég þakkaði þér fyrir allt, allt sem þú gerðir fyrir mig og mína, ég sagði þér að ég elskaði þig og ég hef alltaf gert það og mun alltaf gera.

Ég þakka þér fyrir að vera alltaf góð, umhyggjusöm og skilningsrík og sérstaklega við uppátækjasama og orkumikla drenginn þinn. Þú hefur alltaf staðið með mér, þú hefur alltaf stutt mig og leiðbeint ... eða reynt að leiðbeina mér. Þú stóðst með mér þegar lífið var erfitt, þú stóðst með mér og varst stolt af stráknum á gleðistundum og áttir huggunarorð á erfiðum stundum. Takk fyrir að skilja mig og takk fyrir að standa alltaf með mér, það er mér óendanlega mikilvægt.


Þú varst einstaklega góð við börnin okkar og gast alltaf passað þau ef á þurfti að halda og svangir angar vissu alveg hvert átti að fara því það var alltaf eitthvað gott til hjá þér. Pönnukökur, gerbollur, brúnkaka með kremi, kleinur, grjónagrautur, kjöthleifur, steiktur fiskur og svona mætti lengi telja. Takk fyrir börnin okkar Grétu, umhyggjusemina, spilastundirnar, viskuna, hringingarnar, sokkana, vettlingana, peninginn og nammið í poka, sérstaklega ef þau voru að fara eitthvað. Þau eiga góðar minningar eftir samvistir við ykkur pabba.

Ég man eftir nokkrum skiptum sem ég kom með þér að þrífa í kirkjunni, sem þú gerðir í áraraðir, pússa stjaka, strauja lín og klæði, ryksuga flugur, skipta um kerti og fleira. Það var dulúð yfir þessu og alltaf gott. Þú barst virðingu fyrir kirkjunni og sinntir starfi þínu af alúð. Það var líka sérstakt en friðsælt að koma rétt fyrir jarðarfarir og kista komin fyrir framan altarið. Nú er röðin komin að þér elsku mamma að hvíla í kirkjunni sem þú unnir og sinntir svo vel.

Mig langar að segja þér svo margt og þakka þér fyrir svo margt.
Takk fyrir að gera barnæsku mína svona ánægjulega. Öll mín uppvaxtarár var alltaf svo gott að koma heim úr skólanum vitandi að þú varst alltaf heima til að taka á móti mér. Þú hugsaðir um heimilið af natni, nýtni og af alúð. Ilmurinn af kryddbrauði úr Gúndaofninum var dásamlegur, nýbakað kryddbrauð með þykku smjöri og ísköld mjólk úr 10 lítra mjólkurkassanum er ógleymanleg minning.

Þú varst alla tíð dugleg að skrifa í dagbók, hverjir áttu afmæli, skírnir, brúðkaup og útskriftir, hvar við fólkið þitt vorum ef einhver var á ferðinni, hverjir komu í heimsókn og fleira í þessum dúr. Þú skrifaðir hvernig veðrið var enda varstu mikil veðuráhugakona og fylgdist vel með því og það var yfirleitt það fyrsta sem um var rætt er við hittumst eða heyrðumst. Síðasta setningin sem þú skrifaðir í dagbókina og sú eina þann dag var setningin sem við höfum ákveðið að standi á leiðinu þínu:
Það snjóaði í nótt.

Þú varst dugleg að fylgjast með öllum afmælum og vildir láta alla skrifa í afmælisdagabókina þína. Takk fyrir að búa til skemmtilega minningu sem við eigum nú en þú hringdir í alla sem áttu afmæli en gerðir það daginn áður því þú vildir ekki trufla á afmælisdaginn sjálfan. Síðustu dagana þína fengum við Gréta sterkt á tilfinninguna að þú myndir kveðja á afmælisdaginn hennar, 12. maí, og okkur fannst að það væri fallegt og góður dagur til að kveðja og minnast en nú vitum við að auðvitað kvaddir þú daginn áður, hefur sennilega ekki viljað trufla á sjálfan afmælisdaginn.

Það voru dýrmætar og næringarríkar stundir sem urðu til síðustu dagana þína þegar við systkinin, makar og afkomendur komum til þín í herbergið þitt á Dalbæ til að kveðja þig. Það var mikið hlegið, sagðar sögur og talað hátt, eins og alltaf þegar við komum saman, við vitum að þú hlustaðir á okkur og við erum sannfærð um að þér leið vel með fólkið þitt hjá þér.

Elsku mamma, við munum sakna þín alla tíð.

Takk Dalbær.
Takk elsku starfsfólk og íbúar á Dalbæ fyrir að hugsa vel um mömmu síðustu árin.

Það snjóaði í nótt.


Júlíus Júlíusson og fjölskylda.