Finnbogi Karlsson fæddist í Reykjavík 9. júní 1951. Hann lést á heimili sínu í Garðabæ 26. maí 2024.

Foreldrar Finnboga eru Ragnhildur Jónsdóttir, f. 26. febrúar 1930 í Neskaupstað, d. 9. ágúst 2015, og Karl Daníel Finnbogason járnsmiður, f. 25. nóvember 1928 á Siglufirði. Systkini Finnboga eru Jón H. Karlsson, f. 1949, Jóna Dóra Karlsdóttir, f. 1956, og Heimir Karlsson, f. 1961.

Finnbogi kvæntist Stellu Hermannsdóttur en leiðir þeirra skildi.

Eldri sonur Finnboga er Karl Fjölnir, f. 3. júní 1974, kvæntur Karen Víðisdóttur. Börn þeirra eru Víðir Freyr, f. 2005, Hlynur Finnbogi, f. 2007, og Emilía Björk, f. 2010. Þau eru búsett í Kópavogi. Yngri sonur Finnboga er Atli Freyr, f. 7. mars 1979. Hann er kvæntur Moa Ranung og eru synir þeirra Trond Daniel Björn, f. 2015, og Elmar Ulf Jonas, f. 2018. Þau eru búsett í Stokkhólmi.

Finnbogi ólst upp í Smáíbúðahverfinu og var í Breiðagerðis- og Réttarholtsskóla.

Finnbogi lærði ungur dúklagnir og veggfóðrun og vann við það í nokkur ár þar til leið fjölskyldunnar lá til Svíþjóðar árið 1977. Þar nam Finnbogi hagfræði. Árið 1987 flutti fjölskyldan heim á ný og starfaði Finnbogi í Teppalandi og síðar meir árum saman í Teppabúðinni-Litaveri en tók síðar við verslunarstjórn Teppaverslunar Friðriks Bertelsen. Finnbogi starfaði sem sölumaður i teppaverslunum til starfsloka.

Hann var mikill íþróttaáhugamaður og fylgdi félagi sínu, Víkingi, og ekki síður enska félaginu sínu, Manchester United. Hann missti ekki af Formúlu 1-kappakstri, Víkingsleikjum, Man.Utd.-leikjum eða landsleikjum í öllum boltaíþróttum bæði karla og kvenna. Þar var Finnbogi á heimavelli.

Finnbogi átti við vanheilsu að stríða síðustu árin.

Útför hans fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 7. júní 2024, kl. 15.

Það er merkilegt hvað dauðinn kemur alltaf aftan að manni. Sama hversu tilbúinn maður telur sig vera. Finnbogi bróðir minn hafði glímt við erfið veikindi í mörg ár og oftar en einu sinni komist nærri því að kveðja. Hann var nýkominn heim af spítalanum eftir nokkurra vikna dvöl, hressari en hann hafði lengi verið og lítandi fram á bjartari tíma, hlakkaði til að kíkja austur til okkar Rúnu, en þá kom kallið. Jóna Dóra systir mín hringdi í mig og tilkynnti mér að Finnbogi væri dáinn. Höggið sem ég fann lenda á brjóstinu á þeirri stundu var þungt. Mjög þungt og vont. Mig langar að minnast elskulegs bróður míns í örfáum orðum.

Finnbogi var 10 árum eldri en ég og vegna þessa aldursmunar má því segja að ég hafi misst af honum út í lífið. Hann á þó stóran þátt í mínum fyrstu endurminningum. Hann var smá töffari þegar hann var ungur. Laglegur, með dökkt sítt hár og mikla barta og vá hvað hann var flottur þegar hann kom fyrst á Dodge Dart-blæjubílnum til að sýna okkur hinum í fjölskyldunni. Hann var mikill unnandi popptónlistar og átti fjölmargar hljómplötur, bæði litlar og stórar. Þær litlu skiptu hundruðum, þar sem Bítlarnir, Rolling Stones, Hljómar og ekki síst Trúbrot voru framarlega á listanum. Finnbogi kynnti þessa tónlist fyrir mér og ég man vel hvað mér fannst gaman að koma inn í herbergið hans og fá að hlusta. Sérstaklega fannst mér gaman þegar hann leyfði mér að sækja litlu plöturnar inn í skáp, rétta honum svo hann gæti sett þær á fóninn og spilað. Það var ekki sjálfgefið að sex ára patti fengi að eyða slíkum stundum með unglingsbróður.

Það glumdi vel í herberginu á litlu heimili þegar Finnbogi setti allt í botn. Ekki síst þegar hann uppgötvaði þyngra rokkið, t.d. Uriah Heep, Deep Purple, Led Zeppelin og ekki síst Pink Floyd. Þá þótti sumum fjölskyldumeðlimum nóg um, en ég var heppinn, ég fékk aldrei nóg. Hann kenndi mér að meta þessa tónlist, ekki síst Pink Floyd sem varð í miklu uppáhaldi hjá honum og síðar mér.

Finnbogi var stríðinn, með gott skopskyn og kímnigáfu. Kaldhæðinn húmor. Ég hef ekki verið mikið eldri en 8-10 ára þegar hann kom heim með forláta bassagítar því nú skyldi lært á bassa. Magnaranum var plöggað í og svo var byrjað að plokka bassann. Þetta þótti mér, sennilega einum á heimilinu, spennandi og laumaðist of til að spila á bassann þegar Finnbogi var ekki heima. Einn góðan veðurdag kallar hann í mig og tilkynnir mér að hann vilji gefa mér bassann því hann hafi ekki tíma til að læra á hann. Þetta var stórkostleg gjöf í mínum huga. Og að sjálfsögðu gat ég ekki þagað yfir því og einhvern veginn spurðist það út að ég ætti nýjan bassagítar sem ég réð ekkert við svona lítill að spila á. Ég fékk fljótt tilboð í bassann, fimm þúsund krónur, og ákvað að selja hann, sérstaklega vegna þess að ég fékk greitt í glænýjum 100 króna seðlum. Nokkru seinna kom Finnbogi heim og spurði mig hvernig mér gengi að læra á bassann. Nú leið mér ekki vel. Fékk samviskubit þegar ég sagði honum að ég hefði selt hann. Ég átti von á því að hann yrði ekki glaður og myndi skamma mig, en í stað þess missti hann sig í löngu hláturskasti sem ég skildi ekkert í fyrr en hann gat stunið því upp að hálsinn á bassanum hefði verið undinn og því hefði aldrei verið mögulegt að ná hreinum tóni eða spila á hann af viti.

Finnbogi var mikill íþróttaunnandi og enda þótt hann hafi ekki látið reyna á getu sína á íþróttavellinum eins og við systkin hans var áhugi hans mikill, sérstaklega á knattspyrnunni. Hann var eitilharður Víkingur og gallharður stuðningsmaður Manchester United. Hann naut fram í ystu æsar þegar vel gekk hjá þessum félögum.

Elsku Kalli og Karen, Atli og Moa, og börn, sem afi þeirra dýrkaði og dáði, megi góður Guð styðja ykkur og styrkja í sorg ykkar.

Heimir og Rúna.