Magnús Eric Kolbeinsson fæddist í Washington D.C. í Bandaríkjunum 7. nóvember 1951. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans Fossvogi 2. júní 2024.

Foreldrar hans voru Arinbjörn Kolbeinsson, yfirlæknir og dósent, f. 29. apríl 1915, d. 19. nóvember 2002, og Unnur Halla Magnúsdóttir skrifstofumaður, f. 4 október 1918, d. 21. september 1975.

Hálfbræður Magnúsar, synir Arinbjarnar og seinni konu hans Sigþrúðar Friðriksdóttur, f. 1. desember 1918, d. 8. júní 2008 eru: 1) Andri Geir verkfræðingur, f. 19. maí 1959, 2) Sturla Orri læknir, f. 3. maí 1961, maki Anna Margrét Ólafsdóttir lögfræðingur, f. 15. janúar 1963, og 3) Kolbeinn verkfræðingur, f. 10. maí 1962, maki Björk Bragadóttir hjúkrunarfræðingur, f. 9. september 1965.

Synir Magnúsar eru: 1) Örn Kaldalóns, f. 30. september 1979, móðir Margrét Kaldalóns, félagsráðgjafi og stjórnsýslufræðingur, f. 25. október 1955, og 2) Felix, f. 5. október 1995, móðir Margrét Felixdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 14. október 1953.

Magnús ólst upp í Hlíðahverfinu í Reykjavík og gekk í Ísaksskóla. Hann lauk stúdentsprófi frá MH 1970 og kandídatsprófi í læknisfræði frá HÍ 1977. Að námi loknu starfaði Magnús sem kandídat og aðstoðarlæknir á Borgarspítalanum. Árið 1981 hélt Magnús til Bandaríkjanna í sérfræðinám í almennum skurðlækningum við University of Minnesota. Árið 1983 flutti hann til Kaliforníu til frekara náms og starfaði á Stanford-háskólasjúkrahúsinu við æðaskurðlækningar og líffæraígræðslu til ársins 1988. Þaðan lágu leiðir á hin ýmsu sjúkrahús í Norður-Kaliforníu, Indíana og Pennsylvaníu þar sem Magnús starfaði sem sérfræðingur í handlækningum.

Árið 1994 flutti Magnús til Íslands og tók við stöðu yfirlæknis handlækningadeildar Sjúkrahúss Akraness. Á sama tíma stofna Magnús og Margrét Felixdóttir heimili á Akranesi og þar eignast þau soninn Felix. Þau slitu samvistum. Magnús starfaði einnig við sjúkrahúsin í Keflavík, í Vestmannaeyjum og Neskaupstað. Árið 2004 stofnaði Magnús eigin handlækningastofu í Reykjavík og starfaði þar síðustu árin. Magnús tileinkaði sér og innleiddi nýjar aðferðir í skurðlækningum alla sína starfsævi. Hann sótti fjölda námskeiða í Bandaríkjunum og starfaði þar reglulega í afleysingum.

Magnús sat í stjórn Skurðlæknafélags Íslands frá 1995. Eftir hann liggur fjöldi vísindagreina og fyrirlestrar á læknaráðstefnum. Síðustu árin bjó Magnús í glæsilegri íbúð við Grandaveg í Reykjavík með fallegu útsýni yfir Faxaflóann.

Útför Magnúsar fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 12. júní 2024, klukkan 15.

Mig langar að minnast elskulegs frænda og æskuvinar, Magnúsar Erics Kolbeinssonar, sem burtkallaður var eftir stutt dauðastríð þann 2. júní síðastliðinn. Við vorum nánir í æsku og á uppvaxtarárum, en misstum vegna fjarlægðar nær alveg sjónar hvor á öðrum fyrir hartnær hálfri öld. Mæður okkar, jafnöldrur, voru æskuvinkonur í Vestmannaeyjum. Það æxlaðist þannig að afar okkar, sem við heitum í höfuðin á, Magnús í London og Björn frá Kirkjubæ, voru tveir í félagi trésmiðir og umfangsmiklir byggingameistarar í Eyjum á fyrri hluta tuttugustu aldar. Bera mörg eldri hús, sem sluppu í goshamförunum á Heimaey, merki þeirra. Önnur munu væntanlega lifa lengur í Pompei norðursins á safninu Eldheimum. Þær stöllur báru feðrum sínum daglega bitann sinn og kaffipela í ullarsokk á vinnustaði í nýbyggingunum frá því þær voru smástelpur og langt fram yfir fermingaraldur. Þar festist sú vinátta, sem aldrei bar skugga á, og hélst meðan báðar lifðu.

Löngu síðar átti fyrir þeim að liggja að eignast syni næstum samtímis, en Magnús var réttri viku yngri en ég. Reyndar hvor í sínu landi, því Unnur móðir Magnúsar starfaði í sendiráði Íslands í Bandaríkjunum er hann fæddist. Hún og faðir Magnúsar, Arinbjörn Kolbeinsson læknir, slitu samvistum svo þau mæðgin fluttu fljótlega heim. Magnús ólst upp hjá móður sinni og systur hennar, Sigríði, sem giftist ekki þrátt fyrir einstakan glæsileik, og bjuggu þær alla sína tíð í Stigahlíð. Það þótti litlum dreng undarleg tilhögun að Magnús átti bæði mömmu og mammí, sem vakti ýmsar spurningar. Þær systur voru ákaflega samheldnar og voru Magnúsi báðar ástkærar mæður svo engan mun var þar á að sjá. Báðar útivinnandi, sem í þá tíð var fremur óvanalegt, Unnur aðalritari hjá Orku hf. og Sigríður saumastofuverkstjóri og hönnuður hjá Sjóklæðagerðinni (N66) og Vinnufatagerð Íslands. En þær tóku sér góð sumarfrí og þá nær alltaf með foreldrum mínum og fjölskyldu Lóu móðursystur minnar. Ég á ljúfar æskuminningar að leik með Magnúsi og Siggu Lill frænku í þessum fríum, hvort sem það var í Múlakoti, á Laugarvatni, Bifröst eða Svignaskarði. Síðar áttum við Maggi Kol, eins og við kölluðum hann, okkar eigin sumarfrí, nokkrum sinnum í sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi og á íþróttaskóla Vilhjálms Einarssonar í Mosfellsdal.

Það voru vafalaust samantekin ráð mæðranna, þegar að skólagöngu kom, að senda snáðana í Ísaksskóla. Mikið heillaspor. Og sjá til þess að við frændur værum saman í bekk. Ekki ósvipað þeirri hefð þegar foreldrar í fjarlægum löndum velja ungum sínum maka. Hélst það alla skólagönguna fram til landsprófs og var báðum til hvatningar. Magnús var fróðleiksfús og átti auðvelt með að læra. En hann var líka hugmyndaríkur og afar sjálfstæður, sem helgaðist væntanlega af að vera daglangt sjálfum sér nógur. Eftir að við höfðum slitið barnsskónum og komnir í Hlíðaskóla var ég eins og grár köttur í Stigahlíðinni. Þar í kring var sægur skemmtilegra krakka og sætustu stelpurnar á þeim tíma. Við héldum nokkrir strákar úr blokkinni skemmtanir með kvikmyndasýningum á háaloftinu og seldum aðgang og sælgæti. Nafni hans, viðskiptamógúllinn, sá um aðföng en Maggi Kol hafði vakandi auga með að allir viðriðnir tækju út jafnan arð í formi súkkulaðisfroska. En umfram allt höfðum við Magnús heila íbúð út af fyrir okkur þar til löngum vinnudegi systranna lauk. Magnús kunni að poppa, sem var mikill galdur. Og þar gátum við mátað okkur í pelsa og hatta en systurnar voru að hætti Vestmannaeyinga afar fínar í tauinu leikið Skugga-Svein og Ketil skræk eða Pilt og stúlku. Magnús var húmoristi og frábær eftirherma, hefði vafalaust náð langt á þeirri braut hefði hann lagt leiklistina fyrir sig. En heilu eftirmiðdagana gátum við líka dundað okkur við ýmiskonar föndur og teiknað. Magnús var sérhæfður í útlitshönnun bíla. Þegar hann, örvhentur, dró upp straumlínulöguð stél, eins og þá tíðkuðust mest á skut amerískra bíla og náðu hjá honum hámarki, brá fyrir markvissu og öruggu handbragði, sem vafalaust var hans aðalsmerki í starfi sem skurðlæknir. Áhugann á hvoru tveggja sótti hann til föður síns, sem með ýmsu öðru var formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda um árabil og ók Chevrolet Impala. Þar hófum við saman okkar atvinnuferil við að innheimta árgjöldin í akkorði. Náðum væntanlega ekki öðrum eins tekjum á tímagrundvelli fyrr en að loknu háskólanámi. Síðar störfuðum við saman tvö ógleymanleg sumur við að skera skreið af trönum og stafla í þurrkhúsi með vestfirskum atvinnumönnum, slíta humar með reykvískum verkakonum og í malbikunarholuviðgerðum hjá bænum. En að þeirri reynslu fenginni hugðum við báðir á langskólanám. Magnús lék á als oddi og átti síðar stundum til að bregða á leik og taka syrpu af skondnum samræðum, sem áttu rætur að rekja til verkamannavinnunnar.

Það er sárt að skiljast við Magga Kol einmitt núna, þegar vaknað hafði von um að taka upp fyrri kynni á vettvangi drengjafélagsins Baldurs, barnaskólavinanna úr Ísaks- og Hlíðaskóla. En minningin lifir um góðan dreng, sem aldrei brá skapi þótt stundum blési á móti. Um leið og ég þakka fyrir ánægjulegar samverustundir með Magnúsi votta ég sonum og öðrum aðstandendum innilega samúð mína.

Björn Oddsson.