Stórfjölskyldan samankomin á 70 ára afmæli Hreins árið 2019.
Stórfjölskyldan samankomin á 70 ára afmæli Hreins árið 2019.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hreinn Haraldsson er fæddur 24. júní 1949 á Grettisgötu í Reykjavík og ólst þar upp fyrstu árin og gekk í 7 ára bekk í Miðbæjarskóla. Foreldrar hans byggðu sér íbúð í Álfheimum, en Heimahverfið var í mikilli uppbyggingu í lok 6

Hreinn Haraldsson er fæddur 24. júní 1949 á Grettisgötu í Reykjavík og ólst þar upp fyrstu árin og gekk í 7 ára bekk í Miðbæjarskóla.

Foreldrar hans byggðu sér íbúð í Álfheimum, en Heimahverfið var í mikilli uppbyggingu í lok 6. áratugarins og á meðan bjuggu þau eitt ár í sumarbústað í Árbænum, skammt frá núverandi heimili þeirra hjóna. „Þá lá leiðin í Langholtsskóla sem var frábær tími, mikið af fjörugum börnum í nýju hverfi og góðir kennarar. Síðan fór ég í landspróf í Vogaskóla og ákvað svo að gera hlé á námi og vinna í tvö ár og hugleiða hvert skyldi stefna. Ég hafði alltaf mikinn áhuga á smíðavinnu og velti fyrir mér húsgagnasmíði en endaði á að skrá mig í MR 1967 og varð stúdent 1971. Á menntaskólaárunum vann ég mest í byggingarvinnu á sumrin.“

„Ég var í sveit í Strandasýslu í 10 sumur frá 5 til 15 ára aldurs, nánar tiltekið á Kolbeinsá í Bæjarhreppi hjá Guðmundi föðurbróður mínum og hans konu, Hönnu Hannesdóttur, og sú dvöl tel ég að hafi kennt og þroskað mig mest og gefið mér mesta ánægju í uppvextinum. Þannig kynntist ég vel því sem einkennir Strandirnar, sauðfjárbúskap, súrheysverkun, selveiðum, lundaveiðum, dúntekju og rekavið.

Eftir stúdentspróf lá leiðin í Háskóla Íslands í jarðfræði með nokkurra vikna viðkomu í líffræði. „Ég var strax staðráðinn í að tengja jarðfræðina við hagnýtingu þeirra fræða, einkum við mannvirkjagerð.“

Haustið 1975 fór Hreinn til framhaldsnáms í Uppsölum í Svíþjóð, en þau Ólöf voru þá nýgift. Hann var skráður í doktorsnám í ísaldarjarðfræði og lauk doktorsprófi í byrjun júní 1981. „Við áttum frábær ár í Svíþjóð, þar var ljúft að búa og þar eignuðumst við tvö af okkar þremur börnum. Á námstímanum sótti ég mér viðbótarþekkingu utan skólans varðandi mannvirkjagerð, bæði með dvöl við sænsku Vegagerðina, jarðtæknistofnunina í Linköping og Rannsóknarstofnun í vegtækni, og einnig með námskeiðum og kennslu í jarðeðlisfræði.“ Fyrir heimkomuna hafði Hreinn fengið vilyrði fyrir fastri vinnu hjá Vegagerðinni og hóf þar störf 1. júlí 1981, en hafði áður unnið þar flest sumur á námstímanum, einkum við jarðefnaleit og jarðefnarannsóknir.

„Á þessum árum var að hefjast mikið átak í lagningu bundinna slitlaga á þjóðvegakerfið og mitt aðalstarf fyrstu árin var að leita að og velja steinefni sem væru heppileg í þessi nýju slitlög, og burðarlögin undir þau. Fljótlega fékk ég þó fleiri og stærri verkefni á mitt borð, en það var að rannsaka og undirbúa jarðgangagerð á nokkrum stöðum á landinu, og það varð sífellt stærri hluti af mínu starfi. Fyrst voru það jarðgöng í Ólafsfjarðarmúla sem voru opnuð í lok árs 1990 og göng um Breiðadals- og Botnsheiði sem voru opnuð 1996. Á sama tíma voru líka rannsakaðar aðstæður til jarðgangagerðar á fleiri stöðum á Vestfjörðum og á Austfjörðum.

Ég fór margar ferðir til Noregs á þessum árum til að kynna mér þeirra hönnun og aðferðir við gerð jarðganga, en fáar aðrar þjóðir höfðu byggt tiltölulega einföld og ódýr göng sem hentuðu fyrir litla umferð eins og á Íslandi, þar sem fjármagn var af skornum skammti. Minnisstæðasta og mest spennandi verkefnið var þó líklega Hvalfjarðargöngin, en þar sá ég um fyrstu rannsóknir 1988-1990.“

Síðan var ákveðið að ríkið færi ekki í slíka mannvirkjagerð en Hreinn fékk heimild til að vinna í sínum frítima fyrir Spöl hf. sem tók við verkefninu, við lokarannsóknir og hönnun jarðganganna.

Göngin voru opnuð 1998 eins og kunnugt er og hafa þjónað hlutverki sínu vel. Þótt jarðgangagerðin hafi fylgt Hreini áfram tók brátt við nýr þáttur í starfi hans sem tengdist rannsóknum og þróun. Árið 1994, þegar Ísland varð aðili að EES-samningnum, var ákveðið að Vegagerðin tæki þátt í Evrópusamstarfi um rannsóknir og þróun vega og samgöngumála. Í framhaldinu var búið til nýtt svið hjá Vegagerðinni, rannsóknar- og þróunarsvið, sem Hreini var falið að stýra og urðu samskipti við innlenda og erlenda aðila mikil og kraftur settur í rannsóknir, nýsköpun og þróun hjá stofnuninni.

Hinn 1. maí 2008 tók Hreinn við stöðu vegamálastjóra. „Það voru krefjandi tímar sem tóku við um haustið, það höfðu verið uppi áætlanir um mikla uppbyggingu vega, brúa og jarðganga sem varð að fresta eða hætta alveg við eftir efnahagshrunið. Þó voru bæði Héðinsfjarðargöng og Bolungarvíkurgöng opnuð á þessum árum. Eftir fimm ár eða svo fór svo að birta til í þessum efnum. Einnig varð eftir hrunið samdráttur í fjármagni til viðhalds og þjónustu á vegakerfinu sem enn sér ekki fyrir endann á. Árið 2013 voru gerðar breytingar á stofnanakerfinu og stærstur hluti Siglingastofnunar sameinaður Vegagerðinni. Það var áhugavert verkefni sem gekk bara vel þegar upp var staðið.“

Hreinn lét af störfum sem vegamálastjóri eftir 10 ár, 1. júlí 2018, en vann eitt ár í viðbót sem ráðgjafi í ýmsum verkefnum að ósk ráðherra. „Vegagerðarmál voru bæði vinna mín og áhugamál og ég fylgist enn þá með því sem þar er gerast, þó mest í fjölmiðlum. Ég hef alltaf haft mjög gaman af að vinna í höndunum, bæði inni og úti, og hef ánægju af að puða í garðinum og halda við húsinu okkar.

Við gengum mikið um hálendið þegar við vorum yngri og höfum t.d. farið nokkrar ferðir um Hornstrandir með allt á bakinu, um Lónsöræfi, Þjórsárver og margt fleira. Enn þá göngum við á lægri fjallatoppa en oftast verður nú Elliðaárdalurinn fyrir valinu í gönguferðum. Ég geng í klukkutíma nánast vikulega með fyrrum vinnufélögum, við fáum okkur kaffi og ræðum málin. Þá er ég í Rótarýklúbbnum í Árbæ, reyni svo að sinna börnum og barnabörnum eftir þörfum og les töluvert.“

Fjölskyldan

Eiginkona Hreins er Ólöf Erna Adamsdóttir, kennari og leiðsögumaður, f. 22.2. 1952. Þau eru búsett í Ártúnsholti í Reykjavík og hafa búið þar síðan 1987. Foreldrar Ólafar eru hjónin Adam Þór Þorgeirsson múrarameistari, f. 30.9. 1924, d. 5.6. 2019, og Guðrún F. Hjartar húsfreyja, f. 24.3. 1926, d. 29.10. 2004. Þau voru búsett á Akranesi.

Börn Hreins og Ólafar eru 1) Guðrún Ragna, gæðastjóri í Háskólanum í Reykjavík, f. 25.11. 1975, maki: Ólafur Stephensen. Barn Guðrúnar og Oscars Clausen er Lárus Orri Clausen, f. 13.10. 2005. 2) Hjördís Lára, skrifstofustjóri iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík, f. 18.2. 1979, maki: Bragi Ólafsson. Þeirra börn eru a) Elmar, f. 22.10. 2013 og b) Sóley, f. 22.2. 2017. 3) Hjalti Þór, verkefnastjóri hjá PAME, vinnuhópi Norðurskautsráðsins, f. 1.3. 1984, maki: Fanný Rut Meldal. Þeirra börn eru a) Rúnar Frosti, f. 4.11. 2009, b) Arnar Hreinn, f. 3.6. 2011 og c) Auður Elín, f. 22.9. 2016.

Systkini Hreins eru Hanna Dóra Haraldsdóttir bókari, f. 30.1. 1951 og Sigfús Birgir Haraldsson bifvélavirki, f. 18.8. 1954.

Foreldrar Hreins eru hjónin Haraldur Gísli Sigfússon, bifreiðastjóri og píanóviðgerðarmaður, f. 21.9. 1925, d. 11.9. 2018, og Ragnheiður Jóhannesdóttir, saumakona og húsmóðir, f. 30.12. 1919, d. 4.8. 2010. Þau voru búsett í Reykjavík.