Bragi Sigurðsson fæddist á Klúku í Bjarnarfirði 24. júlí 1944. Hann lést á heimili sínu á Akureyri 15. júní 2024.

Foreldrar Braga voru Sigurður Arngrímsson, f. 7. september 1900, og Fríða Ingimundardóttir, f. 22. nóvember 1908, og var Bragi sjöunda barn af níu sem komust á legg. Systkini Braga eru Katrín (látin), Ingimunda, Baldur (látinn), Hulda, Alda, Jón, Pálmi og Kristinn.

Hann lætur eftir sig eiginkonu, Dóru Steinunni Jónasdóttur, f. 12. janúar 1951 í Reykjavík og þrjá syni, Bjarka Snæ, f. 26. júní 1974, Óskar, f. 20. janúar 1977, og Stein Kristin, f. 8. september 1982. Bjarki Snær er kvæntur Sigrúnu Konráðsdóttur, f. 19. apríl 1976. Dætur þeirra eru Dagbjört Lára, f. 16. október 2001, Sunna Lind, f. 8. janúar 2005, og Helga Sólrún, f. 2. ágúst 2010. Óskar var kvæntur Sigrúnu Ásdísi Sigurðardóttur, f. 29. maí 1978. Börn þeirra eru Ísabella Júlía, f. 27. júlí 2005, og Bragi Dór, f. 22. mars 2012, auk þeirra á Sigrún Ásdís tvo syni, Sigurð Orra, f. 29. desember 1997, og Ingimar Andra, f. 14. janúar 2001. Steinn Kristinn er kvæntur Margréti Hrefnu Ríkharðsdóttur, f. 13. apríl 1983. Börn þeirra eru Matthías Bragi, f. 4. ágúst 2006, Daníel Svavar, f. 2. október 2008, og Dóra Millý, f. 7. júlí 2013.

Bragi ólst upp ásamt foreldrum og systkinum á Klúku í Bjarnarfirði og stundaði síðar nám við Reykjaskóla í Hrútafirði. Hann lauk í framhaldinu sveinsprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum og byggingartæknifræði frá Tækniskólanum. Hann hóf störf hjá verkfræðistofunni Fjarhitun í Reykjavík árið 1974 en flutti til Akureyrar 1976 og hóf þá störf hjá Verkfræðistofu Norðurlands (síðar Eflu). Þar starfaði hann við fjölbreytt verkefni í yfir 45 ár, eða allt til loka árs 2022. Bragi var meðlimur í Oddfellowreglunni og sinnti á fyrri árum ýmsum störfum fyrir Knattspyrnufélag Akureyrar, þar á meðal níu árum í aðalstjórn félagsins. Hann hafði alla tíð unun af ferðalögum og laxveiði og á síðari árum hóf hann að stunda golf ásamt eiginkonu sinni.

Útför Braga fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 2. júlí 2024, kl. 13.00.

Bragi Sigurðsson, félagi minn og vinur í meira en 60 ár, fæddist og ólst upp í Klúku í Bjarnarfirði. Við áttum ýmislegt sameiginlegt þegar við komum saman inn í 1. bekk í Reykjaskóla í Hrútafirði haustið 1961, sveitadrengir úr stórum systkinahópum. Við vorum báðir mun eldri en þau bekkjarsystkini okkar sem fóru beint í héraðsskólann eftir fullnaðarpróf, ég þremur árum eldri og hann fjórum því að í sveitunum okkar þótti ekki sjálfsagt að setja börn til mennta að loknu fullnaðarprófi við 13 til 14 ára aldur. Líklega var það m.a. þetta sem olli því að með okkur tókst þá strax vinátta sem entist til hinstu stundar. Bragi braust til mennta af eigin rammleik en til þess að hann gæti haldið áfram námi eftir fullnaðarpróf varð hann að fjármagna skólagönguna sjálfur. Hann vann þess vegna ýmsa vinnu svo sem við fiskverkun og mannvirkjagerð áður en hann fór í Reykjaskóla þar sem hann lauk lands- og gagnfræðaprófi vorið 1964, nítján ára gamall. Vegna aldurs og þroska var honum falið starf umsjónarmanns bekkjarins öll þrjú árin í Reykjaskóla en í því fólst ýmis ábyrgð, einkum síðasta árið þegar hann setti okkur skólafélagana til verka við dagleg þrif á skólahúsnæðinu. Þá þegar sýndi hann þá lipurð í samskiptum sem alla tíð einkenndi störf hans, hvar sem hann kom. Hann var óumdeildur en sóttist ekki eftir mannvirðingum.

Bragi var verklaginn og ákvað strax í Reykjaskóla eða jafnvel fyrr að læra húsasmíðar og fara síðan í Tækniskólann og við það stóð hann. Í smíðanáminu starfaði hann við að byggja heimavistarhús við Reykjaskóla ásamt öðrum verkefnum. Á þeim árum kynntist hann konu sinni, Dóru Steinunni Jónasdóttur, sem var nemandi við skólann, og að tæknifræðináminu loknu fluttu þau fljótlega til Akureyrar þar sem voru að hefjast miklar framkvæmdir við að leggja hitaveitu í hús bæjarins. Hann var stofnandi og meðeigandi í Verkfræðistofu Norðurlands og starfaði þar lungann úr starfsævinni og eftir að stofan sameinaðist verkfræðistofunni EFLA sinnti Bragi þar verkefnum lengi eftir að hann hafði náð venjulegum eftirlaunaaldri. Ég veit að hann var vandvirkur og samviskusamur starfsmaður og hann sagði mér nýlega að honum var gjarnan falið að lynda við ýmsa þvergirðinga meðal verktaka sem verkfræðistofan hafði eftirlit með og vann með.

Leiðir okkar Braga lágu ekki saman í námi eftir dvölina í Reykjaskóla en vinátta okkar rofnaði þó ekki og eftir að við urðum báðir Akureyringar snemma á 7. áratugnum var þráðurinn tekinn upp að nýju. Áhugamálin voru um margt ólík þegar þar var komið sögu eins og gengur enda verksviðin ólík. Engu að síður byggðum við saman parhús þar sem hann lagði til hönnunarvinnuna og verksvitið. Bragi lauk sínum húshluta og flutti inn með fjölskyldu sína en ég gafst upp á mínum og seldi og flutti í minna húsnæði með mitt lið. Alltaf var þó samband milli fjölskyldnanna en þó strjálla en stundum áður enda vinnufélagahóparnir ólíkir og þeim tengist fólk líklega helst í daglega lífinu. Vinskapur var þó milli barnanna en jafnvel þau fóru ólíkar leiðir í lífinu.

Það var umfram allt Bragi sem hafði frumkvæði að því að styrkja vináttubönd okkar þegar á leið. Hann dró mig með sér í lax- og silungsveiði og kenndi mér til þeirra verka og um tíma lékum við saman knattspyrnu innanhúss að hans frumkvæði. Fyrir fáum árum dró hann mig með sér á bridsnámskeið og síðan höfum við spilað vikulega í húsnæði gamla fólksins yfir vetrartímann. Aldrei tókst honum þó fremur en öðrum að fá mig til að spila golf sem þau hjónin hafa stundað á seinni árum. Í þessum samskiptum okkar á rúmum 60 árum hef ég því verið þiggjandi, jafnvel þegar ég fékk hann nýlega í lið með mér við verkefni í þágu Eyjafjarðardeildar Rauða krossins þar sem reyndi á sérþekkingu hans sem tæknifræðings og smiðs.

Að leiðarlokum færi ég Dóru, sonum þeirra Braga og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Gunnar Frímannsson.