Magnús Ásgeir Bjarnason fæddist á Ísafirði 25. febrúar 1937. Hann lést á Landspítalanum 11. júní 2024.
Foreldrar hans voru Ásta Lilja Vestfjörð Emilsdóttir, f. 1913, d. 1947, og Bjarni Þorsteinsson rafvirki, f. 1904, d. 1948.
Systkini Magnúsar á lífi eru Hulda Bjarnadóttir, f. 1932, Margrét Bjarnadóttir, f. 1940, og Sverrir Kr. Bjarnason f. 1940, einnig uppeldisbróðir, Ólafur Grímur Björnsson, f. 1944. Látin eru Emil Óskar Bjarnason, f. 1934, d. 1951, Kristinn Gunnar Bjarnason, f. 1936, d. 1956, og einnig uppeldissystur hans; Selma Gunnarsdóttir, f. 1940, d. 1971, og Kristín (Nína) Gunnarsdóttir, f. 1943, d. 1945.
Eftirlifandi eiginkona Magnúsar er Aðalheiður Þ. Erlendsdóttir (Heiða), f. 10. ágúst 1939. Dætur þeirra eru Berglind Guðríður, f. 1963, og Ásta Rósa, f. 1968. Barnabörn Magnúsar og Heiðu eru sex að tölu; Magnús Ásgeir, Sólveig María, Bjarni Þór, Heiða Lind, Sindri Snær og Kristján Ingi, barnabarnabörnin eru fimm.
Magnús ólst upp í Stykkishólmi frá tveggja ára aldri og þaðan flutti hann í Kópavog níu ára gamall, árið 1946. Að loknu samvinnuskólaprófi hóf hann störf hjá Landsbanka Íslands, þá 17 ára gamall. Því næst hjá Olíufélaginu hf. þar til hann byrjaði á Bæjarskrifstofum Kópavogs 1. febrúar 1957. Þar átti hann sitt ævistarf; sem aðalbókari og framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar; sá samhliða því um tölvuvæðingu bæjarstofnana þar til stofnuð var sérstök tölvudeild. Hann tók stúdentspróf frá kvöldskóla Fjölbrautar í Breiðholti með fullri vinnu árið 1991.
Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 5. júlí 2024, kl. 15.00.
Stelpuhnokki stendur í perlumölinni og fylgist með pabba - hann er að smíða lítinn bát fyrir þriggja ára dóttur sína. Þau spekúlera og spjalla þarna í innkeyrslunni; sólin vermir að sumarlagi og pabbi þræðir snærisband í stefnið. Stolt heldur stelpan bátnum að brjósti sér og valhoppar; með hina höndina í sterklegum lófa pabba; þau eru á leiðinni út Vallargerðið, út á Rútstún þar sem telpan sjósetur fleyið sitt á tjörninni; lykkja á snærisendanum svo hægt sé að draga bátinn að landi og afstýra árekstrum. Þarna eru mörg börn með bátana sína, þau eru stærri en hún og enginn pabbi að passa þau.
Á kvöldin hífir pabbi dóttur sína upp á vaskborðið í eldhúsinu þegar hún
er komin í náttfötin og setur hana í heitt og notalegt fótabað. Þvær litla
fætur með sólskinssápu og snýr svo varlega ökklunum í nokkra hringi, segir
að það sé gott fyrir fæturna; hann tosar líka í tærnar og telpunni finnst
það alltaf jafn skemmtilegt. Notaleg stund á meðan mamma stússar við
frágang eftir kvöldmatinn.
Pabbi vekur dætur sínar þegar þær eiga að mæta í skólann á morgnana; í
eldhúsinu bíður hollur og fjölbreyttur morgunverður sem hann hefur útbúið.
Svo indælt að sitja á tröppustólnum við útdregna brauðbrettið og spjalla
við pabba. Hann gengur líka úr skugga um að stelpurnar hafi klætt sig
almennilega áður en þær stíga af stað út í veturinn og hann heldur sjálfur
til vinnu. Þegar ég var orðin fullorðin spurði hann mig oft hvort ég væri
ekki með trefil þegar ég kvaddi og fór út í kuldann. Hann var svo
umhyggjusamur hann pabbi, sinnti mörgu sem feður gerðu sjaldan þegar ég var
barn.
Pabbi hafði misst tvenna foreldra sjálfur, tvær mæður og tvo feður þegar
hann var 7-16 ára (Bjarni og Ásta, Rósa og Gunnar). Hann missti líka nokkur
systkini, bæði sem barn og ungur maður. En þrátt fyrir sorg og missi átti
pabbi alltaf góða að, fólk sem bar hag hans innilega fyrir brjósti og kom
honum til manns og mennta. Þegar pabbi var 12-13 ára hafði hann yndi af því
að vera niðrí Kópavogsfjöru með Ólafi afa, sem var þar að smíða vélbáta;
lyktin af hampinum var svo góð og það var svo gott að geta aðstoðað. Það
var eitt sem bátasmiður gat ekki gert einn; þegar afi þurfti að negla stóru
naglana í götin að innanverðu þá þurfti að halda á móti að utanverðu með
hamri og það gerði pilturinn. Pabbi fór líka á veiðar með afa, þeir sigldu
fyrir Kársnesið og lögðu þar net fyrir rauðmaga og grásleppu (Ólafur var
faðir fósturpabba hans pabba).
Systurnar sitja á gólfinu við fætur hans; hann spilar á gítarinn og þau
syngja öll saman. Pabbi kennir þeim skák og leyfir þeim að nota stóra
segulbandstækið; búa til leikrit og þætti; kemur átta ára dóttur sinni af
stað í enskunámi; fær henni gömlu vélritunarkennslubókina sína; kennir
henni rétta fingrasetningu og fyrr en varir er hún farin að hamra sögur á
ritvélina. Í garðinum við húsið hafa pabbi og mamma útbúið yndislegt bú þar
sem hægt er að drullumalla. Pabbi og mamma rækta kartöflur, grænmeti og
jarðarber í garðinum; þegar við systurnar fúlsum við grænkerafæði pabba
stráir hann ofurlitlum sykri á salatblöðin og vefur þeim upp í litlar og
ljúffengar pylsur.
Pabbi minn fylgdist alla tíð vel með fréttum og las mikið. Þegar þau mamma
komu í heimsókn til mín kannaði hann hvaða bækur ég ætti í hillunni. Hann
var áhugasamur hlustandi og spurði spurninga í stað þess að tala um eigin
afrek. Í ellinni var hann einstaklega ljúfur og umhyggjusamur fram á
síðasta dag. Hann kvaddi okkur í svefni á Landspítalanum að morgni í júní
og erfitt er að trúa því að hann sé farinn.
Berglind G. Magnúsdóttir.