Sigríður Hannesdóttir fæddist í Skálholti við Grenimel 13. mars 1932. Hún lést 28. júní 2024 á Landspítalanum í Fossvogi.
Foreldrar hennar voru Hannes Sveinsson verkamaður frá Ólafsvík, f. 1900, d. 1981, og Jóhanna Pétursdóttir verkakona frá Reykjavík, f. 1899, d. 1990. Sigríður var næstyngst fjögurra systkina, hin eru Hannes Páll, f. 1930, d. 2024, Erla, f. 1931, og Ingibjörg, f. 1935, d. 2023.
Sigríður giftist 1957 lífsförunauti sínum, Ottó Erni Péturssyni, f. 16. maí 1935, d. 30. nóvember 2017. Börn Sigríðar og Ottós eru: 1) Birgir, f. 1958, kvæntur Elsu Dóru Ísleifsdóttur, f. 1959. Börn þeirra eru a) Helga Fanney Jónasdóttir, f. 1977, gift Rúnari Berg Eðvarðssyni, f. 1977, börn þeirra eru Hilmir Snær, f. 2003, Elsa Diljá, f. 2010, og Ísleifur Rafn, f. 2014. b) Ísleifur, f. 1981, d. 2021, börn hans eru Birgir Kjartan, f. 2010, Ólafur Ernir, f. 2016, og Ylfa Sóley, f. 2021. 2) Eva, f. 1959, gift Eini Ingólfssyni, f. 1954. Börn Evu eru a) Ottó Örn Þórðarson, f. 1978, börn hans eru Ana Beatriz, f. 2010, og Miguel Örn, f. 2018. b) Andri Þór Guðmundsson, f. 1983, og c) Sandra Sigurðardóttir, f. 1990, börn hennar eru Eva Sif, f. 2008, og Tumi, f. 2015. 3) Örn, f. 1963, kvæntur Kristbjörgu Lindu Cooper, f. 1966. Börn þeirra eru a) Anton Örn, f. 1991, barn hans er Atlas Örn, f. 2016, og b) Linda, f. 1996. 4) Hannes, f. 1969, kvæntur Kristjönu Hrafnsdóttur f. 1973. Börn þeirra eru a) Sigrún, f. 1995, gift Árna Davíð Magnússyni, f. 1993, og b) Lísa Björk, f. 2000. Barnabörnin eru níu, barnabarnabörnin orðin 11 og eitt á leiðinni.
Sigríður sleit barnsskónum í Reykjavík, gekk í Miðbæjar- og Austurbæjarskóla og útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1954. Leiklistina stundaði hún alla tíð á fjölbreyttan hátt, meðfram því að sinna húsmóðurstörfum af kostgæfni. Hún tók þátt í leiksýningum, revíum og söng gamanvísur víða um land. Hún léði Krumma rödd sína í Stundinni okkar á upphafsárum sjónvarps. Árið 1976 stofnaði hún, ásamt Jóni E. Guðmundssyni, Brúðubílinn og starfaði við brúðuleik um langt skeið. Sigríður kom að leiklistarkennslu í grunnskólum og kvenfélögum, var lengi skemmtanastjóri í ferðum húsmæðraorlofs og eldri borgara, bæði innanlands og á suðrænum slóðum. Síðari ár gerði hún víðreist um hjúkrunarheimili með skemmtidagskrá og gaf á níræðisaldri út disk með gamanvísum þar sem textarnir voru margir hverjir eftir hana sjálfa. Sigríður var mikil sögukona og verður hennar minnst fyrir líflegan frásagnarstíl. Sögurnar voru yfirleitt í léttari kantinum og uppáhaldsáheyrendurnir unga fólkið.
Útför Sigríðar fer fram frá Neskirkju í dag, 8. júlí 2024, klukkan 15.
Við ömmurnar, eins og amma kallaði okkur gjarnan, vorum nánar frá því að
ég man eftir mér. Við montuðum okkur mikið af því að bera sömu
upphafsstafina og vera næstum alnöfnur. Ef við áttum að skrá nöfnin okkar
hlið við hlið, t.d. í gestabókum, höfðum við þá reglu að hún skrifaði sig
sem S. Hannesdóttir en ég Sigrún H. Þannig lékum við á lesandann sem gat
ekki vitað hvort um væri að ræða tvær manneskjur eða eina sem hefði skráð
nafn sitt tvisvar.
Hjá ömmu voru alltaf næg verk að vinna. Í minningunni skrúbbuðum við mottur
tímunum saman, brutum saman þvott eða gerðum við flíkur á saumavélinni.
Allt þetta varð að leik með ömmu. Við steiktum pönnukökur eða bökuðum
hjónabandssælu og amma kenndi mér að prjóna svo við gátum setið löngum
stundum og framleitt hosur, húfur og vettlinga af fingrum fram. Amma fylgdi
aldrei uppskrift við baksturinn var slumpað og í prjónaskapnum var
skáldað. Ef við misstum niður lykkju eða gerðum klaufaleg mistök í
eldhúsinu gátum við alltaf afsakað okkur með því hvað við værum báðar
voðalega örvhentar.
Á milli verka sátum við oft í eldhúsinu með kex, kringlur og kakómalt eða
kryddleginn hvítlauk sem við borðuðum beint úr krukkunni og gáðum að selum
út um gluggann. Við spiluðum lönguvitleysu eða ólsen, lögðum kapal og
byggðum stundum spilaborgir. Þá fór amma með kvæði, söng eða sagði sögur og
svo kunni hún líka að spá bæði í spil og bolla.
Það allra skemmtilegasta var að fara niður í geymsluna sem var full af
búningum sem amma hafði sankað að sér í gegnum árin í leikritum og
skemmtunum. Oft var farið niður með heila innkaupakerru sem var til í
húsinu og hún fyllt af múnderingum. Þegar upp var komið hjálpaði amma við
að para saman kjóla, hanska, hatta og aðra fylgihluti og var klár með
sikkrisnælur og saumavélina til þess að stytta og þrengja flíkur eftir
þörfum hverju sinni.
Í öllu stússinu var afi aldrei langt undan. Oftar en ekki kom það í hans
hlut að ganga frá eftir okkur enda var hann, að sögn ömmu, svo mikill
snyrtipinni og hafði algjört óþol fyrir drasli og sóðaskap. Amma lagði
áherslu á það að allir títuprjónar skiluðu sér í nálapúðann því afi hafði
sérstakt lag á því að fá nálar í fæturna.
Þegar ég var níu ára fluttum við fjölskyldan til Danmerkur í nokkur ár og
allan tímann skrifuðumst við amma á. Bréfin frá ömmu voru alltaf skrifuð á
gulan pappír og þeim fylgdu oft ljóð, myndir og úrklippur úr blöðum sem
amma hafði safnað saman. Því fylgdi alltaf mikil eftirvænting þegar umslag
barst. Á síðari árum þegar ég hef dvalið erlendis héldum við amma þeim sið
að skrifast á og ég geymi frá henni fjölda bréfa.
Ömmu verður sennilega einna helst minnst sem sagnakonu enda gat hún setið
við eldhúsborðið og sagt sögur tímunum saman; sögur frá æsku sinni á
stríðsárunum í Vesturbænum, þegar hún dvaldi á stórbýli á Englandi og af
margvíslegum uppákomum úr leiklistinni. Allir atburðir í lífi ömmu urðu
henni efni í sögur sem hún flutti af innlifun og með leikrænum
tilburðum.
Ein uppáhaldssagan hennar var af því þegar hún vann í gjafavöruverslun á
Laugavegi. Hún hafði þá nýlega hitt afa í fyrsta sinn um borð í Gullfossi,
hún á leið frá Englandi en hann frá Danmörku. Einn morguninn var hún að
þrífa verslunargluggann þegar afi, sem var þá bílstjóri hjá bandaríska
sendiráðinu, kom keyrandi niður götuna á glæsivagni með veifum. Þegar hann
sá ömmu stöðvaði hann bílinn og steig út til að heilsa henni, ökumönnum
fyrir aftan hann til lítillar ánægju. Afa tókst samt að yfirgnæfa
bílflauturnar og reiðilestur ökumannanna til þess að bjóða ömmu á stefnumót
og úr því hófst langt og farsælt líf þeirra saman. Einhvern veginn þannig
held ég að afi hafi tekið á móti ömmu núna þegar hún kvaddi þennan heim; á
glæsivagni og með kaskeiti á höfði.
Amma skilur eftir sig stórt skarð hjá okkur fjölskyldunni en áfram lifa
ótal margar sögur og minningin um einstaka konu sem hreif alla í kringum
sig með gleði og húmor fram á síðasta dag.
Sigrún H.