Sesselja Sigurðardóttir fæddist í húsinu Deildartungu (nú Bakkatún 18) á Akranesi 18. október 1929. Hún lést 27. júní 2024 á hjúkrunarheimilinu Hlévangi í Keflavík.

Foreldrar hennar voru Sigurður Guðmundsson, f. 9. júlí 1897 í Stóra-Lambhaga í Skilmannahreppi, og Guðlaug Ólafsdóttir, f. 9. júlí 1897 á Einifelli í Stafholtstungum. Sigurður lést á Akranesi 2. júní 1981 og Guðlaug á sama stað 8. september 1990.

Systkini Sesselju: Valgerður Margrét (1922-2017), Jóhanna (1926-2017), Jóhanna Sigríður (1927-2018), Ólöf Guðlaug (1931), Gísli Sigurjón (1934-2014), Lilja Vilhelmína (1936) og Hallgerður Erla (1939).

Sesselja giftist 13. maí 1951 Brynjólfi Gunnari Brynjólfssyni, f. 6. febrúar 1930, frá Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd. Börn þeirra:

1) Sigurður Jóhannes, f. 13. mars 1949. Eiginkona 1: Gunnhildur Ólafsdóttir (látin), þau slitu samvistir. Eiginkona 2: Edith Thorberg (látin), þau slitu samvistir. Þeirra börn: Dóra Thorberg (látin), stjúpdóttir Sigurðar, Sesselja Thorberg og Trausti Thorberg. Eiginkona 3: Alda Guðbjörnsdóttir, þau slitu samvistir, hennar börn og stjúpbörn Sigurðar: Guðbjörn Árni, Rebekka Hrund, Pálmey Dögg og Freysteinn.

2) Margrét Guðrún, f. 28. febrúar 1951. Maki 1: Jóhannes Tryggvi Sveinsson (lést af slysförum), þeirra barn Bryndís Jóhanna. Eiginmaður 2: Steindór Guðmundsson, þeirra börn Lilja Sesselja og Steindór Gunnar.

3) Lilja, f. 29. maí 1955, d. 18. júní 1955.

4) Sigurlaug, f. 12. janúar 1957. Eiginmaður hennar er Halldór Bragi Sigurðsson, synir þeirra eru Davíð Örn og Arnar Þór.

5) Brynjólfur Gunnar, f. 17. mars 1961.

6) Guðmundur Sveinbjörn, f. 20. nóvember 1964. Eiginkona 1: Inga Ósk Ásgeirsdóttir, þau slitu samvistir, þeirra barn Margrét Unnur. Eiginkona 2: Sædís Ósk Harðardóttir, þau slitu samvistir. Barn þeirra er Kristrún Birta. Börn Sædísar og stjúpbörn Guðmundar eru: Jóhannes Erik, Hörður Alexander og Agnes Halla. Eiginkona Guðmundar er Sylvia Kasirye, hennar synir eru Carlton og Cuthbert.

7) Gísli Sigurjón, f. 7. apríl 1975. Eiginkona hans er Sigríður Anna Árnadóttir en börn þeirra eru: Finnur Darri, Karen Ólöf og Ævar Orri.

Afkomendur Sesselju og Brynjólfs eru 38 og eru 36 á lífi.

Sesselja ólst upp á Akranesi og gekk þar í barna- og síðar gagnfræðaskóla, þaðan sem hún lauk prófi. Hún vann ýmis störf á Skaganum með skóla og eftir skólagöngu, svo sem á pósthúsinu, á ljósmyndastofu og í Haraldarbúð. Þá fór hún til Reykjavíkur og vann þar m.a. sem barnfóstra hjá fjölskyldu Othars Ellingsen og við afgreiðslu í Nýja bíói. Í Reykjavík kynntust þau Brynjólfur og í kjölfarið hófu þau sambúð árið 1948 á Akranesi. Þau bjuggju þar þangað til þau keyptu Hellur á Vatnsleysuströnd árið 1953 og þar undu þau allt þangað til 2008 að þau fluttu í Vogana. Þegar Brynjólfur lést árið 2017 minnkaði Sesselja við sig húsnæði en bjó áfram í Vogunum allt þar til hún þurfti að fara á hjúkrunarheimili í Keflavík í marsmánuði árið 2023 þá liðlega 93 ára gömul.
Sesselja vann ýmis störf eftir að hún flutti á Vatnsleysuströndina en framan af var hún heimavinnandi húsmóðir. Eftir að heimilið varð fámennara fór hún að vinna úti, fyrst í fiskvinnslu hjá Vogum h/f, síðan í eggjabúinu Nesbú en lengst af starfaði hún sem handavinnukennari, fyrst í Brunnastaðaskóla og svo í Stóru-Vogaskóla eftir að skólastarf fluttist suður í Voga. Hún lauk starfsævinni á leikskólanum Suðurvöllum í Vogunum.
Sesselja hafði alla tíð yndi af listum og handverki og var dugleg að afla sér þekkingar og sækja námskeið í ýmsum greinum, svo sem málun, leirlist, skrautskrift og útskurði.
Hvað félagsmál varðaði beindi hún kröftum sínum mest að kirkjulegu starfi, hún var trúuð kona og söng í kirkjukór Kálfatjarnarkirkju í áratugi. Þá var hún í sóknarnefnd í Kálfatjarnarsókn fyrst sem varaformaður og síðar sem formaður árum saman og vann ötullega að málefnum kirkjunnar og má þar helst nefna að hún var formaður á 100 ára afmæli kirkjunnar árið 1993 þegar endurbygging hennar var til lykta leidd. Þá sat Sesselja í skólanefnd  Vatnsleysustrandarhrepps í allmörg ár.
Útför Sesselju Sigurðardóttur fer fram frá Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd 9. júlí 2024 klukkan 14.

Far þú í friði

friður Guðs þig blessi

hafðu þökk fyrir allt og allt

(Valdimar Briem)



Elsku mamma við kveðjum þig í dag, og biðjum þér Guðs blessunar.

En hver var hún þessi kona sem fékk að lifa og starfa á þessari jörð næstum því 95 ár.

Hún var t.d. stelpa sem kom ofan af Skaga og flutti suður á Vatnsleysuströnd fyrir rúmum 70 árum en var samt alltaf Skagastelpa. Hún flutti í Vogana fyrir um 14 árum en var samt alltaf Strandaringur. Þegar hún flutti á Hlévang fyrir rúmu ári hafði hún aldrei kynnst eins góðu fólki því allir voru svo góðir við hana. Við stríddum henni reyndar á því hvort einhver ástæða væri til annars en hún svaraði að það væri nú ekkert sjálfgefið.

Hún var ein úr hópi 8 samheldna systkina, sjö systra og eins bróður. Barn kærleiksríkra foreldra og var alin upp við ástríki og að allt skyldi vandað til orðs og æðis.

Hún kynntist strák af Vatnsleysuströndinni í Reykjavík og þau voru lífsförunautar í blíðu og stríðu í 70 ár uns pabbi lést í mars 2017. Hún fæddi 7 börn, missti eitt, 6 fengu að alast upp hjá henni við algjör sérréttindi. Mömmu sem var alltaf til staðar og alltaf heima, ef hún fór að heiman þá græddum við á því t.d. ef mamma og pabbi fóru í bíó þá fengum við alla myndina endursagða daginn eftir og okkur fannst við hafa séð allar stórmyndirnar frá sjöunda áratugnum; Boðorðin tíu, Que Vadis, Ben Húr, Spartagus, Flóttann mikla og fleiri og fleiri. Öllu var lýst í smáatriðum.

Við höfum alltaf verið stoltar af henni, sem börn, sem unglingar og í dag sem fullorðnar konur finnst okkur hún hafa verið einstök, dugleg, alltaf sami trúnaðarvinurinn sem allt skildi og gat svo auðveldlega séð hina hliðina á málinu.

Hún sinnti kirkjunni sinn vel og söng í kirkjukórnum á Kálfatjörn svo lengi sem við munum. Hún kveikti hjá okkur áhuga fyrir klassískri tónlist og bara tónlist og listum almennt og alla tíð deildum við þeim áhuga.

Hún stóð fyrir stórfelldri matvælaframleiðslu, t.d. úrbeinaði hún heilu nautin ,,singúl hendit, eins og sagt er, með brauðsaxi og hakkið fór allt í gegnum handsnúna hakkavél frá Tékkó. Síðan dönsuðu hamborgarar að amerískum hætti á pönnunni, ásamt dönsku hakkabuffi með lauk, ungversku gúllasi og mexíkósku Chili con carne. Og eitt árið varð til ,,stórasta sviðasulta í heimi úr nautshaus og löppum. Já hún mamma var með fjölmenningarlegt eldhús löngu áður en orðið fjölmenning varð til.

Okkur fannst alltaf að amma í Knarranesi þekkti allar kellingar í Reykjavík, miðað við allar ullarkápurnar sem komu í gegnum hana sem millilið, til mömmu sem saumaði upp úr gömlu. Já hún mamma saumaði sko upp úr gömlu og það þurfti að spretta upp öllum kápunum, fleiri hundruð fermetrum (fannst okkur), spor fyrir spor, handþvo allt, þurrka og pressa með natni og síðan loka öllum hnappagötunum svo ekki sæist og ekki nóg með það allar þessar kellingar úr Reykjavík voru tvíhnepptar, örugglega 20 tölur í hvorri röð. Síðan var sniðið og hugsað og hugsað og sniðið og saumað og út komu flottustu flíkur, buxur, kápur, frakkar og úlpur. Svo keypti hún einn og einn bút sem umbreyttist í allt hitt sem við systkinin gengum í. Í dag eru svona konur kallaðir fatahönnuðir.

Hún ræktaði garðinn sinn hún mamma, bæði úti og inni þrátt fyrir þrotlausa baráttu við arfa, elftingu, skriðsóley og rollurnar á Ströndinni, sem grættu hana á hverju sumri með því að stelast inn í garð og éta allt brumið af trjánum, naga burnirótina niður í svörð og gúffa í sig fallegustu sumarblómin. Þetta dugði ekki til að drepa garðyrkjuáhugann. En ég er viss um að hefndin var sæt, þegar hún hakkaði kindakæfuna í þeirri tékknesku á haustin.

Hér hefur verið stiklað á stóru og þegar aldurinn færðist yfir var ekki slegið slöku við hún var á fullu í tómstundastarfi og alls konar handverki, t.d. leir, útskurði, postulínsmálun og mörgu öðru. Hún stundaði sund og sundleikfimi í mörg ár á meðan hún gat og seinna fór hún að ganga reglulega á morgnana, ,,því ef maður hreyfir sig ekki breytist maður bara í aumingja voru hennar óbreyttu orð.

Allt sem hún tók sér fyrir hendur í lífinu gerði hún afburðavel og af mikilli natni og má kannski segja að á henni hafi sannarlega sannast hið forkveðna; ,,Lengi býr að fyrstu gerð.

Eða eins og Jóhannes Kjarval orðaði eitt sinn svo viturlega; það er heilmikið fyrirtæki að vera manneskja. Og það tókst henni fyrst og fremst öll sín 94 ár að vera góð manneskja.

Takk elsku mamma,



Sigurlaug og Margrét.

Ég ligg uppi í rúmi á Ströndinni snemma morguns og inn í herbergið berst ómur frá veðurfréttum í útvarpinu. Smellir í brauðrist og ilmur af Melroses tei og ristuðu brauði. Enginn skóli, engar skyldur og engin yngri systir að pirra mann. Bara ég og þessi dásamlega stund heima hjá ömmu og afa. Ég man ekki oft eftir að hafa gist hjá þeim sem krakki, en við eyddum mörgum stundum þar samt sem áður. Mamma skrapp oft á Ströndina eftir hádegi á góðviðrisdögum með okkur Lilju og þar beið manns kofi, drullumall, rólur, frelsi og stundum kría. Maður átti að vera úti að leika þangað til það kæmi kaffitími. ,,Amma áttu skeið? Amma átti endalaust skeið. Ég veit ekki hvaðan allar þessar skeiðar komu. En við þurftum nauðsynlega skeið í drullumallið. Nýja í hvert einasta sinn. Aldrei fundum við þær sem við notuðum síðast. Amma skammaðist ekki, sýndi skeiðaskortinum mikinn skilning. Svo loksins kom kaffitíminn og maður mátti koma inn. Oft beið manns heimabökuð súkkulaðiterta með bönunum og rabarbarasultu. Best í heimi.
En þó heimsóknir á Ströndina hafi verið tíðar þegar ég var krakki, þá man ég ekki sérstaklega eftir að við amma höfum átt sterkt samband þá. Líklega hefur hún verið of önnum kafin við heimilisstörf og barnauppeldi og ég of sjálfhverf og vitlaus. Samband okkar varð nánara með árunum. Ég fór þá oft í heimsókn. Fyrst með Gunnhildi mína litla og svo seinna með Svenna og Katrínu. Alltaf var vel tekið á móti okkur, ekki síður en öðrum gestum. Heimabakað brauð, appelsínumarmelaði og kæfa, auðvitað heimagert. Stundum líka döðlukaka - bökuð í hring.
Þegar maður er á sextugsaldri og hefur notið þeirra forréttinda að hafa ömmu sína alltaf hjá sér þá er erfitt að hugsa sér tilveruna án hennar. Amma var 39 ára þegar ég fæddist. Á þeim aldri sem fólk í dag er jafnvel að eignast sín fyrstu börn. Ég var elsta barnabarnið og stolt af því. Ég var númer 7 í röðinni af 38 afkomendum. Meira að segja á undan yngsta barninu þeirra afa. Mér fannst skrítið að eiga ólétta ömmu, en svona rúlluðum við. Svo fæddist Lilja systir og píslin Gísli, númer níu í röðinni, og tilveran gekk sinn vanagang.

En ekkert líf er auðvelt og amma gekk í gegnum þá hörmung löngu fyrir þennan tíma að missa barn. Þau afi misstu elsku Lilju sína frá sér aðeins þriggja vikna gamla. Ég veit ekki hvernig hægt er að halda áfram eftir þannig áfall, en amma sýndi okkur hinum að lífið heldur áfram þrátt fyrir allt. Framundan voru svo fleiri áskoranir og áföll í bland við gleðistundir, blessunarlega. Ég man ekki eftir neinu nema gleði í tengslum við ömmu lengi framan af, en þegar ég varð eldri sá ég erfiðleika hversdagsins sem mér fannst ósanngjarnt að hún þyrfti að upplifa. Ég hefði svo innilega viljað að hún hefði notið meira. En hún sætti sig við hlutina og hélt áfram. Stöðugleiki og að vera til staðar fyrir sína nánustu var meira virði en hugsanlega átakaminna líf á nýjum slóðum. Seigla og æðruleysi einkenndu hana.
Elsku hjartans amma mín. Þú varst fyrirmynd mín í svo mörgu og þó ég muni aldrei komast með tærnar þar sem þú varst með hælana þá er ég stolt af ýmsu sem ég veit að ég get rakið til þín. Þegar ég var 17 ára og farin að búa komstu færandi hendi með veglega Pfaff-saumavél handa mér sem ég átti eftir að nota mikið og nota enn í dag. Þú vissir að gjöfin kæmi sér vel þó í mig vantaði alla kosti góðrar saumakonu. Þessir þættir voru þér hins vegar meðfæddir. Verk þín og framkoma alla tíð einkenndust nefnilega af fágun, smekklegheitum, natni og þolinmæði. Ég verð næstum pirruð að horfa á þessi orð á prenti, þau eru mér svo órafjarri. Eins og gefur að skilja þá náði ég aldrei að tileinka mér neitt af þessu, en ég þakka þér sköpunargleðina, söngröddina, barngæskuna og trúna á almættið. En okkur til huggunar þá vitum við það báðar að þessi veikleiki minn kom þó aldrei í veg fyrir að ég stigi saumavélina í botn þegar mikið lá við kannski klukkutíma fyrir ball!
Sköpunargleði einkenndi allt þitt líf og handverk var í hávegum haft á æskuheimilinu þínu. Þú bjóst að því og varst snemma farin að teikna, mála og hanna. Þegar börnin þín voru flogin úr hreiðrinu fórstu að sækja námskeið í leir, útskurði og myndlist. Þú naust þess að skapa og við fjölskyldan að fá fallega hluti á afmælum og við önnur tækifæri. Tónlistin var líka til staðar. Þú söngst í kór og spilaðir á gítar. Þú saumaðir, bakaðir, teiknaðir, skarst út, leiraðir, skrautskrifaðir, varst í kvenfélagi, bjóst til kæfu og seinna fékkstu þér gróðurhús og rósir. Þú ræktaðir garðinn þinn í víðtækustu merkingu þeirra orða. Þú varst dugleg, ráðagóð, skapandi, hugmyndarík, blíð, ástrík og umhyggjusöm. Það er svo auðvelt að lýsa kostum þínum og hæfileikum, en til að þú farir ekki hjá þér amma mín skal ég viðurkenna að þú gast líka verið ákveðin, stíf og föst fyrir. Sem betur fer. Það þarf nagla til að reka heimili með verkstjóra sem eiginmann og þrjá ákveðna drengi innanborðs, en þannig var staðan á Ströndinni þegar ég kom til sögunnar og elstu þrjú börnin voru farin að heiman. Ég vorkenndi þér stundum að búa ekki í þéttbýli. Verslanir, rólóvellir og afþreying voru ekki í nágrenninu og þú kunnir ekki að keyra bíl fyrr en sextug. Þá tókstu prófið, ferðunum í bæinn fjölgaði og þú varðst frjálsari. Aldrei of seint. Þú skottaðist í Kringluna rígfullorðin að kaupa þér föt því þú vildir líta vel út. Flestir muna hvað þú varst alltaf glæsileg.
Síðasta árið dvaldir þú á Hlévangi í Keflavík og þar varstu ánægð með allt, tja nema matinn. En allir voru þér góðir og þú talaðir um hvað það væri vel hugsað um þig. Þú baðst um að fá gítarinn þinn, en gast því miður ekki spilað lengur. En ég spilaði fyrir þig og saman tókum við lagið af og til. Þær stundir glöddu okkur báðar og ég mun varðveita þær í hjartanu. En smám saman dró þó af þér. Ég er þakklát fyrir síðustu heimsóknina til þín þar sem þú kvaddir mig með orðunum bless elskan og bættir svo við ég bið að heilsa öllum sem mína kveðju vilja heyra. Þetta sagðir þú alltaf. Þér var mikilvægt að allt þitt fólk vissi að þú varst með hugann hjá þeim. Ég verð ævinlega þakklát fyrir síðustu dagana okkar saman. Þú varst ekkert að flýta þér að kveðja, en ég veit af hverju. Við sátum mörg hjá þér síðustu dagana og það voru dýrmætar stundir. Við hlógum saman, grétum, sögðum sögur og rifjuðum upp gamla tíma. Við ræddum líka dægurmál, æstum okkur og sváfum. Þetta var eins og gott jólaboð á Ströndinni hér áður fyrr. Þú varst með okkur, við fundum það. Og allan tímann beið afi úti í bíl eins og vanalega. Hann beið lengi að þessu sinni, en þú þurftir að sinna síðasta verkefninu þínu og gera það vel. Loksins varstu svo tilbúin og kvaddir okkur.
Amma mín, þú varst með fallegri manneskjum sem ég hef þekkt. Ég er svo þakklát að hafa átt þig og fyrir allt sem þú gafst mér og kenndir. Ég veit að þú varst hvíldinni fegin og að líf allra tekur enda. Ég fékk að hafa þig hjá mér í langan tíma. Ég sakna þín samt og mun alltaf gera. Ég mun reyna að hafa fallegu gildin þín að leiðarljósi þegar ég dröslast áfram í þessu lífi. Þitt einstaka æðruleysi og hvernig þú með yfirvegun og trú á æðri mátt fleyttir þér yfir mótlæti og drullupolla án þess að sökkva og sýndir okkur hinum hvernig lífið heldur áfram, þrátt fyrir allt. Ég vona innilega að ég beri gæfu til þess að geta gefið mínum litla ömmustrák og í framtíðinni kannski fleiri börnum jafn mikið og þú hefur gefið mér núna í rúm fimmtíu ár.
En nú kveð ég - afi bíður eftir þér. Ég bið að heilsa öllum sem mína kveðju vilja heyra.
Þín

Bryndís.