José Luis Garcia fæddist 3. nóvember 1961 í Tegucigalpa í Hondúras. Hann lést á heimili sínu í Laugardal 17. júní 2024.
Foreldrar hans voru Verónica Del Rosario Solorzano kennari, f. 1928, d. 2020, og Luis Alonso Garcia Moreno bankastjóri, f. 1933, d. 2016. Bræður José eru Arturo Garcia, f. 1964, eiginkona hans er Gleny Melgar og eiga þau þrjár dætur; Carlos Mauricio Garcia, f. 1969, eiginkona hans er Sarah Short Garcia.
Arturo og Gleny eru búsett á Spáni. Carlos og Sarah búa í Orlando, Flórída.
Eftirlifandi eiginkona José er Þrúður Sjöfn Sigurðardóttir, f. 2.2. 1967, þau giftu sig í júlí 2007. Börn þeirra eru: 1) Veronica Sjöfn Garcia, f. 13.9. 1996. 2) Alexis Örn Garcia, f. 20.12. 1997. 3) Samantha Örk Garcia, f. 31.3. 2005.
Foreldrar Þrúðar voru Björnfríður Ólafía Magnúsdóttir, f. 14.12. 1926, d. 11.5. 2006, og Sigurður Friðfinnsson, f. 26.3. 1916, d. 19.2. 2002, og bjuggu þau í Dýrafirði.
José ólst upp í Hondúras þar sem hann kláraði sín námsár en hann útskrifaðist úr arkitektúr með hæstu einkunn. Eftir útskrift úr háskóla, 23. júlí 1985, kom hann sem sjálfboðaliði til Íslands á vegum alþjóðlegra ungmennaskipta. Hann flutti fljótlega norður á Akureyri þar sem hann vann ýmis störf, aðallega sem sjálfboðaliði. Eftir ársdvöl á Íslandi lá leiðin aftur heim til Hondúras í stutta stund áður en hann hóf ferðalag um Evrópu.
Eftir nokkurra mánaða dvöl víðs vegar um meginland Evrópu kom hann aftur til Íslands þar sem hann dvaldi nánast samfleytt næstu 39 árin. Hann starfaði t.a.m. við blómaskreytingar, í byggingavinnu, á arkitektastofu og við fiskvinnslu en starfaði að endingu í veitingageiranum í hátt í 25 ár. José kláraði nám í leiðsögn í ferðamannaskólanum árið 2018 og var hann mjög áhugasamur um land og þjóð og las sér mikið til fróðleiks.
Árið 1993 urðu straumhvörf í lífi hans þar sem hann kynnist eftirlifandi eiginkonu sinni sem var við störf sem verkstjóri í fiskvinnslunni þar sem hann vann. Ári eftir að þau kynnast voru þau búin að trúlofa sig en árið 2000 giftu þau sig í hans heimalandi, Hondúras, og svo aftur á Íslandi árið 2007.
Árið 2000 festu þau kaup á veitingahúsinu Caruso ásamt öðrum hjónum en nokkrum árum síðar taka José og Þrúður alfarið yfir reksturinn sem hefur verið farsæll allar götur síðan.
Útförin fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 9. júlí 2024, klukkan 13.
Að kvöldi 16. júní héldum við ásamt syni og tengdadóttur á veitingahúsið
Caruso, einu sinni sem oftar. Þangað er ávallt gott að koma og í uppáhaldi
að sitja í glerskálanum huggulega, sem veitingamaðurinn og vinur okkar José
hannaði. Hann var á staðnum eins og oftast, tyllti sér hjá okkur milli
hlaupa, en vaktin hafði verið mjög annasöm sökum veikinda starfsfólks og
öll borð setin, eins og jafnan á blíðkvöldum.
Auðvitað elskaði José að hafa fullsetið, en orðaði það þó við okkur, að
kannski væri kominn tími til að slaka á. Hugur hans stóð raunar til þess að
gíra smám saman niður og dvelja tíðar í sumarhúsi þeirra hjóna, þar sem
framkvæmdir höfðu staðið yfir undanfarin misseri.
José sýndi okkur að skilnaði þetta kvöld mynd af sér og þekktum erlendum
leikara, sem snætt hafði þar fyrr um kvöldið. Var það hinsta ljósmyndin af
José, því sólarhring síðar var þessi kæri vinur okkar allur.
Forvitni dró Hondúrasbúann hugprúða hingað á 9. áratugnum, hann vildi skoða
landið fjarlæga og fallega, sem hann hafði séð á myndum hjá íslenskum
skiptinema í Bandaríkjunum. Dvölin varð vægast sagt lengri en til stóð,
hann kynntist Þrúði sinni, þau eignuðust þrjú gerðarleg börn og bjuggu sér
fallegt og hlýlegt heimili.
Óhætt er að segja að José hafi verið fyrirmyndarinnflytjandi og hann gerði
sér strax grein fyrir því, að lykillinn að velgengni hér er að læra
tungumálið. Hann starfaði framan af við hitt og þetta, m.a. sem arkitekt,
eins og hann hafði menntun til.
Svo kom að því að José fann sína köllun í veitingamennsku. Upphafið má
rekja til þess að hann réð sig í aukavinnu við uppvask á veitingahúsinu
Caruso. Fljótlega fór hann að baka þar pítsur og fleira. Mál þróuðust svo
þannig, að rekstaraðilar vildu selja og José stökk til. Fjárráð voru lítil,
en með hjálp vina og dugnaði tókst þeim Þrúði smátt og smátt að eignast og
gera Caruso að þeim vinalega, sálríka og frábæra veitingastað sem hann
er.
José var ljúfmenni, hafði einkar góða nærveru og gat verið gamansamur.
Einatt var hann örlátur og hjálpsamur vinum og vandamönnum og innflytjendum
fyrirmynd og mentor, sér í lagi sínu góða starfsfólki.
Við hjónin höfum þekkt José og fjölskyldu um árabil og átt með þeim ófáar
gæðastundir. Skemmst er nú að minnast samveru á Tenerife í janúar, þar sem
José var í essinu sínu, fór fyrir hópnum og púaði vindil við og við, eins
og hann átti til á góðum stundum.
Hin seinni ár má segja að Caruso við Austurstræti hafi orðið hálfgerð
miðstöð góðvina þeirra hjóna, sem komu þangað reglulega, jafnt að kvöldi
sem degi, til að njóta veitinga, en ekki síður til að eiga stundir með
okkar elskulega José.
Ótímabær dauði hans er afar þungbær öllum sem til þekkja. Þó leggst sorgin
þyngst á fjölskylduna og nána ættingja, sem sjá á eftir yndislegum
eiginmanni, föður og bróður, sem verið hefur öllum svo mikilvægur,
máttarstólpi og klettur. Við sendum þeim innilegar samúðarkveðjur og vonir
um bjarta framtíð, þótt dimmt sé nú í sinni og hryggð í sálum.
Minningin um José mun lifa með okkur ævilangt.
Óumflúin er hver kveðjustund,
kallið kemur, lokafund
við eigum einhvern daginn, svo er víst.
Hvert sumar hverfur inn í haust,
þannig er það endalaust
á meðan öldruð Jörðin áfram snýst.
/
Það siglir nú þitt himinfley,
þú finnur nýja heimaey
í fjarska, þar sem fegurð ríkir ein.
Hvar syngja einatt þýðan söng
þrestir prúðir dægrin löng.
Þar gleymist þján og gróa jarðarmein.
/
Sporin hverfa í sandinum,
en minning seint úr huganum
um það sem gladdi sinni vort og sál.
Það er ekki nokkurt vafamál.
(Stefán Hilmarsson)
Stefán Hilmarsson og Anna Björk Birgisdóttir.