Dagbjört Kristjánsdóttir fæddist 23. janúar 1933. Hún lést 22. júní 2024.
Foreldrar hennar voru Antonía Árnadóttir, f. 19. september 1900, frá Hnaukum í Álftafirði, og Kristján Jónsson, f. 27. september 1901 á Fáskrúðsfirði.
Kristján og Antonía bjuggu á Djúpavogi og ólu upp sín börn í Görðum.
Systkini Dagbjartar: Ragnar Sigurður, f. 28. október 1923, d. 1984; Ingólfur Gunnar, f. 15. desember 1927, d. 2014; Laufey, f. 20. maí 1931, d. 2015; Arnór Magnús, f. 21. ágúst 1942.
Dagbjört fæddist í Görðum á Djúpavogi og ólst þar upp í fjörugum systkinahópi til 14 ára aldurs en þá hélt hún til náms til Reykjavíkur.
Hún fór í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og þaðan í Verslunarskólann og lauk verslunarprófi vorið 1953. Hún vann fyrir sér sem skrifstofudama, m.a. á lögfræðiskrifstofu Magnúsar Thorlacius, á Landsímanum, á Alþýðublaðinu og á endurskoðunarskrifstofu við Tjarnargötu.
Hún giftist Inga B. Ársælssyni fulltrúa 1954 og eignaðist með honum tvær dætur: Rós, f. 1953, og Ingibjörgu, f. 1957. Rós á tvær dætur: Unni Björt Friðþjófsdóttur, f. 11. júní 1974, og Rakel Evu Rósardóttur, f. 27. september 1997. Börn Ingibjargar eru Anna Birta Tryggvadóttir, f. 23. apríl 1985, Sindri Emmanúel Antonsson, f. 8. júní 1989, Katerina Inga Antonsdóttir, f. 6. júní 1991, og Nína Dagrún Hermannsdóttir, f. 28. ágúst 1996.
Ingi og Dagbjört skildu árið 1968.
Dagbjört fór í Kennaraskólann og útskrifaðist þaðan 1969 og kenndi lengst af við Árbæjarskóla í Reykjavík. Einnig fór hún út á land og kenndi við Alþýðuskólann á Eiðum og Héraðsskólann á Laugum og síðast við Hafralækjarskóla í Aðaldal. Dagbjört var í sambúð með Karli Sveinssyni frá 1977 til 1985, þau slitu samvistir.
Dagbjört var alla tíð afar námfús og hafði yndi af lestri bókmennta og voru ljóð í miklu uppáhaldi hjá henni. Hún nam við Öldungadeild MH meðfram vinnu og Dagbjört hafði yndi af ferðalögum bæði innanlands og utan og ferðaðist víða, fór m.a. til Miðjarðarhafsins með skemmtiferðaskipi um Evrópu og suður til Marokkó og fór einnig í námsferðir með samkennurum og í skólaferðir með nemendum til Norðurlanda og dvaldi einnig í nokkra vetur í Aþenu og passaði þar barnabörn. Síðustu skipulögðu ferð sína fór hún til Írans þegar hún var orðin áttræð. Eftir að hún fór á eftirlaun flutti hún aftur á Djúpavog og dvaldi þar í 10 ár, síðan bjó hún hjá dætrum sínum, fyrst í Borgarnesi, þá í Hveragerði og síðast í Þykkvabæ. Dagjört dvaldi síðast á dvalarheimilinu á Lundi á Hellu og andaðist þar.
Dagbjört lætur eftir sig tvær dætur, sex barnabörn og sjö barnabarnabörn.
Kveðjuathöfn verður haldin í Hveragerðiskirkju í dag, 5. júlí 2024, og bálför verður frá Þykkvabæjarkirkju 8. júlí 2024.
Ég heyrði hlátur móður minnar fyrst í móðurkviði, hlýjan og dásamlega smitandi. Mamma fæddi mig á Öldugötu 18, sagðist hafa tekið þétt utan um krílið og heitið því að enginn fengi að taka mig frá sér, hún var enn í sárum eftir að föðuramma okkar vildi ekki sleppa Rós systur, smábarninu, eftir tæpt ár í sveitinni.
Bernskuár mömmu á Djúpavogi voru ævintýri líkust og margar sögur til af háskasögum, jakahlaupi, eggjatínslu, prakkarastrikum og hvernig var að læra að synda að vori í hrollköldum sjó. Mamma var ekki í rónni fyrr en hún var búin að senda mig á Djúpavog, sumarið eftir fermingu, þar sem ég var kölluð litla Dagbjört eða stúlkan á hjólinu. Vorið '53 útskrifaðist mamma úr Versló og í lok sumars eignaðist hún Rós, hún og pabbi létu pússa sig saman ári síðar. Mamma var skvísa með uppsett hár, gekk léttstíg í hælaháum skóm í miðbænum og átti bæði rúskinns- og leðurkápu. Hún náði í mig í leikskólann Tjarnarborg og ég man eftir okkur á bíósýningum í Gamla bíói. Það eru til myndir af mömmu og pabba með okkur Rós og mér sýnist við systur hugsi. Þegar fellibylurinn Flóra gekk yfir landið þá komst ég við illan leik heim úr tímakennslunni hjá séra Árelíusi. Mamma hringdi í ofboði, systir í skólanum og stóru gluggarnir á svölunum sveigðust eins og biðukollur í ofviðrinu. Mamma sárbændi mig um að vera afskaplega róleg, nei, alls ekki opna svaladyrnar, alveg sama þó að mér fyndist hangiketslærið á svölunum í hættu! Stundum fékk ég að fara í heimsókn til mömmu í vinnuna, tók strætó niður á torg og skemmtilegast var að veiða síli í Tjörninni. Mamma gekk með mér ákveðnum skrefum í bókabúðina við Sólheimakjör: Það á ekki að skrifa nokkurn skapaðan hlut hjá þessari stúlku! Eitthvað svipað átti sér stað hjá rakaranum. Ég var útsjónarsamt lyklabarn. Við systur vorum hjá Ragnheiði ömmu í Bakkakoti á sumrin, mamma var komin í Kennaraskólann og vann úti öll sumur. Þó að nýja íbúðin okkar væri máluð í nýmóðins litum og Bítlalögin ómuðu um híbýlin þá var þungskýjað og stundum hávaðasamt hjá litlu fjölskyldunni, gleðisvipur mömmu dofnaði. Við mæðgur fluttum í Skaftahlíð og mér var strítt: Mamma þín er í skóla! Mamma leigði stóra íbúð, leigði út frá sér og tilveran tók stakkaskiptum, skemmtilegir samnemendur mömmu voru tíðir gestir og hún naut sín. Ég var 15 ára þegar mamma sagðist vilja vera í horninu hjá mér, ég vissi hvað það þýddi og við brostum, við áttum skap saman.
Það er að lyfta sér svo óskaplega fallegt deig! Svona gátu símtölin frá mömmu hafist, þá hafði henni tekist sérlega vel með gerbrauð og vildi deila. Mamma fór að kenna á kvöldin þegar Anna Birta fæddist, kenndi við Námsflokkana og tók Antoníu ömmu inn á heimilið, við systur með tvær dætur, fjórar kynslóðir í hornhúsi á Laugarnesvegi og margt skrafað.
Mamma gerðist au-pair hjá mér í Aþenu og passaði börnin mín, hún naut sín með litlu elskurnar og kenndi þeim íslenskar vísur. Mamma flutti á Djúpavog, bjó þar í 10 ár, hringdi þá í mig og bað mig blessaða að segja leigjandanum í Borgarnesi upp, hún vildi búa hjá okkur krökkunum. Skrifstofustúlkan í Menntaskóla Borgarfjarðar kallaði í mig í frímínútum og sagðist hafa fengið símtal frá móður minni, varð ögn skrýtin á svip; kötturinn væri víst í andarslitrunum! Frá morgunverði okkar mæðgna í Hveragerði: Hver á þessar pillur? Nú, þú elskan, svara ég, þetta eru vítamínin þín. Þú losnar aldrei við mig með þessu áframhaldi! Mamma elska, kjarnakona og fyrirmynd okkar allra, hennar er sárt saknað.
Ingibjörg Ingadóttir.