fer fram frá LindaEsther Pétursdóttir fæddist í Reykjavík 20. apríl 1943. Hún lést í Skógarbæ 6. júlí 2024.

Foreldrar hennar voru Pétur Pétursson frá Miðdal í Kjós, f. 10.3. 1895, d. 14.7. 1986, og Kristín Soffía Jónsdóttir frá Gilsfjarðarbrekku, f. 14.11. 1909, d. 3.12. 2000. Systkini hennar eru Jón, f. 1914, d. 2003, Hallgrímur, f. 1923, d. 1993, Guðfinna Lea, f. 1925, d. 1985, Þorbjörn, f. 1927, d. 2004, Sigríður, f. 1929, Trausti, f. 1937, Pétur, f. 1938, d. 2023, Elín, f. 1940, Sara Rut, f. 1946, d. 1946, Ruth, f. 1949, María, f. 1955.

Esther giftist Sigurði L. Viggóssyni 3. október 1964, þau skildu árið 1981. Börn Estherar og Sigurðar eru 1) Ómar Örn, f. 11. júní 1965. Börn hans af fyrri samböndum eru Hilma Rós, f. 20. júní 1992, dætur hennar Helena Lív og Eva Sól, Sindri Snær, f. 9. apríl 1998, og Breki Hrafn, f. 14. nóvember 2000. Maki Ómars er Katrín Ísfeld Guðmundsdóttir, f. 8. nóvember 1967. 2) Petra, f. 3. janúar 1967, gift Halli Halldórssyni, f. 26. desember 1963. Börn þeirra eru Andri Hrafn, f. 15. mars 1991, dóttir hans er Katla Marín, og Esther, f. 29. september 1995. 3) Marteinn Þór, f. 10. janúar 1969, giftur Ingibjörgu Magnadóttur, f. 13. apríl 1969. Dætur þeirra eru Rakel, f. 6. febrúar 1993, og Petra, f. 14. júlí 2003. 4) Gunnar Reyr, f. 27. október 1972. Börn hans af fyrra hjónabandi eru Sigurjón Óli, f. 21. febrúar 1999, og Guðlaug Ósk, f. 6. janúar 2006. Maki Gunnars er Lilja Björk Sævarsdóttir og börn þeirra eru Aron Ingi, f. 8. janúar 2014, og Sara Lind, f. 8. september 2015.

Esther fæddist í Reykjavík og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Eftir gagnfræða­próf fór Esther að vinna á Kópavogshæli og þegar nám bauðst í nýstofnuðum Gæslusystraskóla (seinna Þroskaþjálfaskóla Íslands) fór hún í það nám. Esther var heimavinnandi á meðan börnin voru að alast upp en eftir skilnað fór hún aftur út á vinnumarkaðinn og helgaði að mestu fötluðum börnum og ungmennum krafta sína auk þess sem hún vann á ritsímanum um tíma. Esther bjó í Svíþjóð einn vetur og hugsaði um dótturson sinn. Hún flutti á Selfoss um aldamótin og vann þar á sambýli og skammtímavistun auk þess að aðstoða dóttur sína við heimilisstörf og barnauppeldi. Fyrir fimm árum flutti hún aftur til Reykjavíkur og naut nærveru við fjölskylduna í auknum mæli.

Útför Estherar fer fram frá Lindakirkju í dag, 17. júlí 2024, kl. 13.

Mamma mín, búin að fá hvíldina og farin til að vera hjá guði sem hún trúði svo heitt á.

Ótal minningar vakna eftir samfylgd í hátt í 60 ár, líf okkar samofið á löngum köflum.

Fyrstu minningarnar eru úr Sólheimunum. Sniðugur jólasveinn gaf okkur Ómari stjörnuljós í skóinn. Við fengum að kveikja á þeim í eldhúsinu.

Næsta stopp, Gautlandið, mamma að bíða eftir okkur Ómari, við áttum að taka strætó sjálf úr Ísaksskóla, misstum stundum af honum, mamma áhyggjufull heima með tvo yngri bræður, Matta og Gunnar. Vandar um við okkur, skammar okkur ekki.

Unufellið, mamma og Erla Jakobína í eldhúsinu, þær prjóna - blátt á mig, brúnt á Ólöfu. Mamma í hlutverki leiðbeinandans, kennir Erlu handtökin. Þar er hún á heimavelli.

Ég sjö ára, gamlársdagur. Mamma er með rúllur í hárinu. Ég fæ að taka þær úr og greiða henni. Hún segist fín, lagar ekkert. Segir að ég sé svo flink og mjúkhent. Ég ákveð samstundis að verða hárgreiðslukona.

Gaukshólarnir, ég er hrædd við lyftuna, labba alltaf upp á áttundu hæð. Nema ef mamma er með mér. Ég veit að ég er örugg með henni. Send út á róló með litla bróður. Drösla honum upp alla stigana, lyftan kemur ekki til greina.

Depluhólarnir. Pabbi og mamma byggja hús, við flytjum inn á steininn, ekkert eldhús. Mamma setur upp tvö skrifborð og útbýr góða eldhúsaðstöðu. Mamma er snillingur í að flytja. Hún veit hvað þarf að setja upp fyrst og er með allt í skipulagi. Allt klárt til flutnings þegar hjálparhellur mæta. Hún hjálpar sjálf mörgum að flytja.

Vinirnir eru velkomnir í stóra húsið okkar. Það er mikið um að vera með fjögur börn og aukabörn og gesti. En þegar pabbi og mamma koma óvænt heim með fólk vill mamma ekki hafa drasl. Viltu fara eins og hvítur stormsveipur biður hún mig og ég veit nákvæmlega hvað hún meinar. Allt fer á sinn stað eins og fyrir kraftaverk. Mér finnst gaman að hjálpa mömmu.

Pabbi og mamma skilja. Mamma hugsar málið. Hvað langar hana að gera? Hún þarf að fara út á vinnumarkaðinn. Mamma fer að vinna við sitt fag, á Kópavogshæli. Vinna með fötluð börn verður hennar ástríða. Vaktavinna. Í húsinu erum við fjögur systkinin og mamma. Og stundum einhverjir fleiri sem fá að búa hjá okkur, heimilishaldið er frjálslegt, kannski örlítið losaralegt um tíma, við erum ekki vön því að mamma sé ekki heima.

Dalselið. Við flytjum úr stóra húsinu í rúmgott raðhús. Mamma er svo dugleg. Hún málar allt í hólf og gólf og býr okkur fallegt og gott heimili. Ég klessi bílinn hennar. Hún rekur mig strax aftur út að keyra. Ekkert drama hér. Mamma spilar á gítarinn, hún er skemmtileg í partíum, flottasta mamman.

Jól. Mamma eldar, við krakkarnir vöskum upp. Fína stellið má ekki fara í uppþvottavél. Við brjótum fat, verðum leið, vitum að mömmu finnst vænt um stellið. En mamma grætur ekki gler, þetta er ekki stórmál, þetta er bara postulín; komið að lesa jólakortin krakkar!

Holan. Mamma minnkar við sig. Við millilendum í Mjóuhlíð, pínulítil kjallaraíbúð. Ég kem samt með vinkonurnar þangað. Ég má alltaf koma með vinkonur og vini heim.

Ég flyt til Svíþjóðar, daginn eftir stúdentspróf, nokkrir dagar í jólin. Mamma segir ekkert, óskar mér alls góðs, kyngir kekkinum í hálsinum. Mamma og strákarnir halda jólin í Holunni.

Ég eignast dreng, mamma skiptir um gír. Hættir að reykja, hættir að skemmta sér. Hún ætlar að verða heimsins besta amma. Hún verður heimsins besta amma.

Mamma í Svíþjóð með mér og Andra, heilan vetur. Mamma hefur bætt á sig, við ákveðum að fara í megrun. Mamma gengur mikið úti með barnið í vagninum, við borðum bara hollustu- og megrunarfæði. Mamma verður flott, ég verð horuð. Andri fær hins vegar mikið að borða, verður bolla.

Mamma flytur á Selfoss. Mikið inni á heimilinu hjá mér, hugsar um börnin mín tvo daga í viku, eldar og þvær þvotta. Vinnur á sambýli fyrir börn hina dagana. Við fáum okkur hund, mamma þolir ekki dýr nálægt sér. Umber Skugga, fyrir börnin. Mamma er fastur punktur í tilverunni hjá okkur, besti stuðningsaðili barnanna. Kemur og opnar fyrir þeim þegar þau læsa sig úti (oft), dregur þau að landi í hverju sem er. Hleypir hundinum út að pissa, í hönskum.

Mamma á Kleppsvegi. Góðir tímar, er nær sonum sínum og barnabörnum, saknar alltaf Selfoss. Heilsunni hrakar, þarf aukna aðstoð. Á erfitt með það. Sjálfstæð alltaf.

Elsku besta mamma mín. Áhrif þín á líf mitt eru ómæld. Þú varst sjálfstæð og stolt, sjálfri þér nóg. En svo tilbúin til að gefa og gera. Koma til hjálpar. Verja. Vel gefin, talaðir rétta og góða íslensku og leiðréttir okkur endalaust. Sagðir sömu brandarana aftur og aftur og áttir marga frasa sem þú notaðir við mismunandi tækifæri. Kaldur húmor, komst auga á það spaugilega. Stóðst með sjálfri þér.

Nú er það ég sem segi brandarana þína og kem með frasana. Ég heyri stundum sjálfa mig hljóma alveg eins og þú. Og ég er stolt af því. Þú gerðir mig að þeirri sem ég er, með þínum stuðningi, hvatningu, aðstoð og elsku hef ég átt gott líf. Takk mamma mín. Við sjáumst hjá guði.

Petra