Óskar Þór Sigurðsson fæddist 25. janúar 1930 í Vestmannaeyjum. Hann lést á Selfossi 9. júlí 2024.
Foreldrar Óskars voru Ingunn Úlfarsdóttir f. 6.1. 1899 á Fljótsdal í Fljótshlíð, d. 18.11. 1957, og Sigurður Sigurðsson, f. 19.3. 1900 á Eystri-Klasbarða í V-Landeyjum, d. 26.11. 1997. Systur Óskars voru Guðlaug, f. 20.12. 1925, d. 9.7. 1938, og Guðlaug, f. 25.12. 1937, d. 10.1. 2023.
Óskar ólst upp í foreldrahúsum á Hásteinsvegi 31 í Vestmannaeyjum. Lauk hann þar grunnskólanámi og var virkur í félagsstörfum, s.s. í Skátafélaginu Faxa og Lúðrasveit Vestmannaeyja. Árið 1955 fluttist Óskar frá Eyjum á Selfoss og bjó þar alla tíð. Hann lauk kennaraprófi árið 1957 og var settur kennari við Barnaskóla Selfoss, frá 1973 sem yfirkennari og árin 1989-1995 sem skólastjóri. Óskar stýrði einnig sumarvinnuhópum barna og unglinga á Selfossi sem unnu m.a. að gróðursetningu skóga á Snæfoksstöðum. Hann tók þátt í starfi skátaflokksins Útlaga sem í voru burtfluttir Eyjamenn og skrifaði bók um hann. Óskar birti ýmsar greinar og fróðleik og var virkari en flestir jafnaldrar sínir á samfélagsmiðlum. Hann starfaði að náttúruvernd og ræktun mestan hluta ævinnar, m.a. með Skógræktarfélagi Selfoss og Skógræktarfélagi Árnesinga og var formaður félaganna um árabil, auk þess að starfa í stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands. Árið 1953 kynntist Óskar eiginkonu sinni Aldísi Bjarnardóttur kennara frá Fagurgerði á Selfossi. Hún var fædd 7.3. 1929 og lést 30.10. 1991. Þau reistu sér heimili, ræktuðu myndarlegan skrúðgarð að Grænuvöllum 3 á Selfossi og eignuðust sex börn.
1) Örn f. 17.9. 1955, giftur Kristínu Runólfsdóttir, f. 12.1. 1960. Börn þeirra eru: Atli, f. 1981, Aldís, f. 1987, og Anna Rut, f. 1993. Barnabörn eru sjö. 2) Úlfur, f. 16.12. 1957, giftur Sabine Bernholt, f. 23.11. 1965. Þau eiga Sindra, f. 2002. Úlfur og Signhildur Sigurðardóttir, f. 24.9. 1957, eiga saman Sölva, f. 1982, Helgu, f. 1985, og Kára, f. 1990. Barnabörn eru fjögur. 3) Hrafn, f. 10.2. 1961. Börn hans og Kristrúnar Hrannar Gísladóttur, f. 14.1. 1965, eru: Þórdís Lilja, f. 1991, Jóhanna, f. 1993, Bjarki, f. 1996, Gísli Hafsteinn, f. 2000, og Óskar, f. 2006. Barnabarn er eitt. 4) Gerður, f. 16.11. 1963, gift Gunnari Sigurgeirssyni, f. 1.12. 1953. Börn þeirra eru: Karítas, f. 1993, og Trostan, f. 1995. Gerður á Ými, f. 1982, með Sigurði Hannessyni, og Gunnar á Daníel, f. 1982, með Hrefnu Daníels. Barnabörn eru fimm. 5) Þrúður, f. 4.8. 1969. Börn hennar og Steingríms Dufþaks Pálssonar, f. 12.12. 1963, eru: Edda Ósk, f. 1996, og Páll Fáfnir, f. 2000. 6) Hreinn, f. 20.10. 1971, giftur Guðbjörgu Arnardóttur, f. 23.7. 1976. Börn þeirra eru: Freyr, f. 2001, Ásrún Aldís, f. 2004, og Örn, f. 2010.
Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 18. júlí 2024, kl. 13.
Án efa hefur litla jólabarnið lýst upp tilveruna og hjálpað til að unga fjölskyldan lærði að lifa með sorginni. Uppvaxtarárin hans pabba voru góð að hans sögn, þrátt fyrir heimskreppu, almenna fátækt og síðar heimstyrjöld. Þau skorti ekkert og voru lánsöm, sagði hann og eyjaárin einkenndust af uppátækjum og leikjum eins og strákum er einum lagið. Hann eignaðist marga góða vini sem hann hélt tryggð við út ævina, m.a. skátafélagana í Útlögum, brottfluttum skátum úr Eyjum. Skátastarf átti hug hans allan og þar var hann mjög virkur og var skátaforingi í Faxa um tíma auk þess sem hann lék í lúðrasveitinni hjá Oddgeiri Kristjánssyni og tók þátt í að frumflytja sum af hans þekktustu lögum. Á þessum árum urðu börn fljótt þátttakendur í atvinnulífinu á háannatímum og hann sagðist hafa verið mjög stoltur þegar hann frekar ungur fékk greitt fyrir vinnu og gat lagt það allt til heimilisins og létt undir með foreldrum sínum. Hann ferðaðist líka nokkrum sinnum út fyrir landsteinana sem ungur maður og sá uppbyggingastarfið hefjast í Evrópskum borgum eftir styrjöldina.
Pabbi bar alltaf mikla umhyggju fyrir Gullu yngri systur sinni og mikil væntumþykja á milli þeirra og síðar ávallt mikill samgangur og samvera milli fjölskyldnanna. Árið 1957 reið enn eitt áfallið yfir, hann missti móður sína úr illvígum veikindum aðeins 58 ára gamla. Eftir það flutti faðir hans alfarið frá Eyjum til barna sinna á Selfoss sem bæði höfðu hafið búskap þar með sínum mökum og eignast börn. Afi bjó eftir það alla tíð hjá Gullu og fjölskyldu en kom oft og reglulega á okkar heimili. Hann lést 1997 þá orðinn 97 ára. Guðlaug yngri lést 10. janúar 2023.
Pabbi og mamma hófu búskap í húsi foreldra mömmu, þeim Önnu og Birni í Fagurgerði 4 á Selfossi, þar sem þau bjuggu meðan pabbi kláraði kennaranámið. Árið 1961 fluttu þau með þrjá elstu synina í nýbyggt hús á Grænuvöllum 3 og bjuggu þar öll sín ár saman. Næstu árin bættust við þrjú börn í hópinn, þar til fjölskyldan taldi átta. Pabbi og mamma voru samhent hjón, bæði kennaramenntuð og mikið ræktunarfólk, sem sást vel á garðinum heima. Fyrstu árin sá mamma um heimilið eins og tíðkaðist í þá daga, meðan börnin uxu úr grasi. Pabbi starfaði alla tíð sem kennari við Barnaskólann á Selfossi og varð þar síðar yfirkennari og loks skólastjóri uns hann lét af störfum 1995. Hann starfaði auk þess öll sumur fram eftir aldri, með unglingavinnuhópa og mest við gróðursetningu trjáa m.a. á Snæfoksstöðum í Grímsnesi þar sem nú er mikill skógur, afrakstur þessara vinnusumra. Einnig var hann virkur í skógræktar- og náttúruverndarfélögum og þar lá áhuginn alla tíð. Þegar yngsta barnið var komið á skólaaldur, fór mamma að starfa utan heimilis, þá við sund- og handvinnukennslu. Hún naut þess mikið að fá að kenna aftur og eignast smá aur fyrir sig sjálfa, en því miður tóku örlögin aðra stefnu hjá þeim pabba og fjölskyldunni. Mamma veiktist af ólæknandi sjúkdómi og við tóku erfið ár og miklir óvissutímar sem enduðu á þann veg að hún lést aðeins 62. ára árið 1991. Þetta var reiðaslag fyrir okkur öll og enn einn ástvinamissirinn fyrir pabba. Nú var pabbi orðin einn á besta aldri, eins og pabbi hans fyrrum.
Svona getur lífið verið og má kannski segja að hjá pabba og flestum skiptist lífsgangan í þrjú tímabil. Æskuárin með foreldrunum, fjölskylduárin með mömmu og okkur krökkunum og elliárin einn en með okkur börnunum fullorðnum, tengdabörnum, barnabörnum og nú síðasta barnabarnabörnum. Hvert tímabil hefur sinn sjarma. Hann þurfti síðustu áratugi að berjast við sjúkdóma, oftar en einu sinni, en hafði sigur. Búinn að fara í nokkrar viðgerðir þar að auki. Ótrúlega úrræðagóður síðustu árin, að finna leiðir til að bjarga sér og geta komist það sem hann ætlaði sér. Ákvað sjálfur að hætta að keyra bílinn í fyrrasumar. Hann skapaði okkur börnunum örugga, áhyggjulausa og mjög góða æsku. Allt í skorðum, hefðir og siðir breyttust lítið. Hann kenndi okkur á lífið almennt, að rækta og virða umhverfið. Við vorum kannski ekki alltaf sammála og stundum kastaðist í kekki, en nú þegar maður sjálfur nálgast efri aldur sér maður alltaf betur, hvað hann gaf okkur gott veganesti og var víðsýnn og ráðagóður með margt sem mun nýtist manni. Alveg fram á síðasta leitaði maður í reynslubankann hans. Góð fyrirmynd. Hann hafði mikinn áhuga á öllum sínum afkomendum og spurðist fyrir um ungviðið og var í góðu sambandi við barnabörnin. Hann bauð öllum afkomendum sínum árlega í Þorrablót og önnur föst hefð var að sækja sér jólatré í sumarbústaðalandið hans í Nautavökum og eiga þar saman stund fyrir jólin. Hann mætti í öll barnaafmæli og aðrar veislur í fjölskyldunni sem hann komst í, síðast fjórum dögum fyrir andlátið. Alltaf vel til hafður. Hann passaði vel upp á afmælis- og jólagjafir og átti alltaf aur til stinga í umslag.
Við ferðuðumst mikið um landið frá því ég man eftir mér, meira en margir á þeim tíma. Löng ferðalög öll sumur og svo styttri ferðir að auki, m.a. árlegar veiðiferðir í Veiðivötn. Fyrir vikið hafði maður komið um allt land, um hálendið og á marga staði oftar en einu sinni. Þetta var fyrir tíma malbiks, rykugir holóttir vegir og dagsferðin í tveggja tíma fjarlægð í dag. Alltaf sofið í tjaldi við læk svo hægt væri að fá drykkjarvatn og vatn til þvotta, sem soðið var í stórum potti á prímusi, jafnvel bleyjuþvottur og snúrur strengdar. Ekkert grill, bara soðinn matur og dósamaturinn þótti munaður. Mikið fyrir öllu haft, pabbi í hvítri skyrtu með bindi og mamma með rúllur í hárinu. Svona ferðalög myndu vefjast fyrir mörgum í dag, með fulla bíla af börnum, þröngt setið, engin öryggisbelti og setið undir þeim sem yngri voru og sumir bílveikir vegna ryks og hristings. Ekkert að stara á nema út um bílgluggann og læra að þekkja landið.
Ég er þakklát fyrir þessi síðustu ár með pabba og kveð hann sátt. Við áttum okkur fastan tíma í hverri viku, mauluðum eitthvað gott með kaffinu og oft var spjallað lengi. Það voru góðar stundir sem ég á eftir að sakna. Svo var kíkt aukalega í heimsókn í hverri viku, hann sóttur í mat af og til eftir að hann hætti að keyra og farið með hann í bíltúra á góðviðrisdögum. Ég hafði þann starfa síðustu ár að versla inn fyrir hann. Var ráðin í starfið eftir að hafa leyst af yngsta bróðir minn sem forfallaðist. Pabbi sagði að ég verslaði öðruvísi inn og líkaði það betur og gaf bróður mínum frí. Hann var duglegur að vera í sambandi við okkur öll í gegnum samfélagsmiðla. Duglegur að hringja og leita frétta og ánægður með að fá sendar myndir þegar við vorum á ferðalögum og fá að upplifa staðina með okkur þannig. Ótrúlega flinkur að nýta sér tæknina og fylgjast með. Sá sjálfur um sig, eldaði, þvoði af sér, en fékk aðstoð við innkaup og þrif og gat þannig verið heima allt til loka.
Hann beið ósigur eftir stutt veikindi og lést samdægurs, á dánardegi eldri systur sinnar, 94 ára.
Elsku pabbi. Takk fyrir lífið.
Þín
Gerður og fjölskylda.