Símon Eðvald Traustason fæddist í Vestmannaeyjum 1.8. 1948. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 3.7. 2024, eftir stutt en snörp veikindi.
Foreldrar hans voru Ragnheiður Jónsdóttir saumakona og húsfreyja, f. 12.10. 1917, d. 3.3. 2011, og Trausti Guðjónsson húsasmíðameistari, f. 13.8. 1915, d. 2.12. 2008. Símon ólst upp í Vestmannaeyjum til 16 ára aldurs er fjölskyldan fluttist í Kópavog. Systkini Símonar eru: Halldóra, Guðjón (látinn), Kornelíus, Sólveig Rósa Benedikta (látin), Vörður Leví og Guðrún Ingveldur.
Símon kvæntist 27.7. 1968 Ingibjörgu Jóhönnu Jóhannesdóttur (Systu), f. 12.5. 1947, bónda og húsfreyju. Systa er dóttir hjónanna Jónínu Sigurðardóttur bónda og húsfreyju á Egg, f. 30.4. 1914, d. 31.3. 2010, og Jóhannesar Ingimars Hannessonar bónda, f. 21.8. 1913, d. 30.3. 2007. Börn Símonar og Systu eru: 1) Jónína Hrönn, f. 10.1. 1969, kennari og námsráðgjafi, búsett á Þingeyri við Dýrafjörð. Gift Sigurjóni Hákoni Kristjánssyni búfræðingi og sjómanni. Börn þeirra eru: Berglind Inga, f. 1991, Arnar Logi, f. 1995, og Kristján Eðvald, f. 2001. 2) Jóhannes Hreiðar, f. 24.8. 1973, framkvæmdastjóri, búsettur á Stóra-Ármóti í Flóahreppi. Kvæntur Helgu Sigurðardóttur búfræðingi og bókara. Börn þeirra eru: Sigurður Andri, f. 1998, Ingibjörg Hugrún, f. 2002, og Auður Sesselja, f. 2006. 3) Ragnheiður Hlín, f. 6.8. 1979, sjúkraliði og bóndi á Kálfafelli í Fljótshverfi. Gift Birni Helga Snorrasyni húsasmíðameistara og bónda. Börn þeirra eru níu talsins: Fyrir átti Ragnheiður Hlín dæturnar Hafdísi Gígju, f. 1997, og Írisi Hönnu, f. 2000. Saman eiga þau Símon Snorra, f. 2006, Daníel Smára, f. 2007, Heiðbjörtu Hörpu, f. 2018, og Sólborgu Selmu, f. 2020. Fyrir átti Björn Helgi dæturnar Ágústu Margréti, Amalíu Rut og Ragnheiði Ingu. 4) Gígja Hrund, f. 7.12. 1984, starfsmaður á rannsóknarstofu HSN, búsett á Sauðárkróki. Gift Helga Svani Einarssyni verslunarstjóra. Börn þeirra eru: Heiðar Birkir, f. 2005, Hilmar Örn, f. 2008, Bryndís Dögg, f. 2012, og Svanhildur Ásta, f. 2017. Langafabörn Símonar eru fimm og það sjötta á leiðinni.
Símon lauk Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja 1964, lærði húsasmíði við Iðnskólann í Vestmannaeyjum og lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal 1967. Þá lauk hann einkaflugmannsprófi 1982. Sem ungur maður vann Símon við tamningar og á jarðýtum hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga sín fyrstu búskaparár. Símon og Systa hófu búskap á Egg vorið 1969 og bjuggu þar fyrstu árin. Árið 1974 festu þau kaup á Ketu í Hegranesi, þar sem þau hafa stundað búskap í 50 ár. Símon var skólabílstjóri í áratug. Sat í sveitarstjórn Rípurhrepps í 16 ár og var oddviti 1994-’98 þar til hreppurinn sameinaðist Sveitarfélaginu Skagafirði. Hann var formaður náttúruverndarnefndar Skagafjarðar og sat í samlagsráði Mjólkursamlags Kaupfélags Skagfirðinga um árabil. Þá sat Símon lengi í ýmsum nefndum og ráðum fyrir sveit sína og bændastéttina. Hin síðari ár hefur Símon starfað fyrir Félag eldri borgara í Skagafirði.
Útför Símonar fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 19. júlí 2024, klukkan 14.
Ég man eins og gerst hafi í gær allar ferðirnar okkar út í mjólkursamlag á gula mysubílnum og stoppin fyrir utan apótekið þar sem ég stökk inn með smápening í lófanum að kaupa apótekaralakkrís sem við borðuðum á heimleiðinni. Oft fékk ég að sitja í kjöltunni þinni og stýra mysubílnum með þér þegar við keyrðum fram Nesið. Já minningarnar eru margar og dýrmætar og hafa dansað um í huga mínum síðustu dagana.
Líf þitt sem barn var ekki áfallalaust og sennilega hefur þú skilið mig best af öllum því þú áttir sjálfur erfitt með sjálfan þig eftir brunann sem þú lentir í þegar þú varst 9 ára. Rétt gróinn varst þú sendur frá Vestmannaeyjum norður í Skagafjörð þar sem heimilisaðstæður voru svo erfiðar hjá elsku ömmu en þá lá afi mikið veikur og vart hugað líf eftir vinnuslys. Þetta hefur ekki verið létt, hvorki fyrir ömmu né lítinn dreng sem var ný búinn að ganga í gegnum hræðilegt slys sjálfur. Örlög þín réðust við þessa norðurferð því mamma bjó á sama bæ og þú varst sendur á. Tíminn sem þið hafið þekkst spannar svo ótrúlega stóran hluta ykkar lífs og missir mömmu og breytingin hjá henni að hafa þig ekki lengur sér við hlið er gríðarleg. Þú hefur alltaf verið okkur öllum traustur klettur, tekið allt þitt fólk í trausta og hlýja faðminn þinn þegar við höfum þurft á að halda en líka gert til okkar kröfur og ætlast til þess af okkur að við reyndum að standa okkur í öllu því sem lífið réttir. Þú varst mikill vinnuþjarkur allt þitt líf, afkastamikill og duglegur að prófa eitthvað nýtt, óhræddur við að segja þínar skoðanir og sama þó þær féllu í grýttan jarðveg. Á sama tíma varstu viðkvæmur og máttir ekkert aumt sjá, alltaf tilbúinn að rétta öðrum hjálparhönd. Þegar ég var með stóru stelpurnar mínar litlar, sú yngri reyndar ófædd og báturinn minn hafði fengið á sig smá brot í lífsins ólgusjó, var ómetanlegt að eiga ykkur mömmu að. Þið mamma hafið alla tíð skipað svo stórt hlutverk í lífi stelpnanna minna og sambandið ykkar alla tíð svo innilegt, gott og fallegt. Missir þeirra og barnabarnanna allra er svo mikill og sár við að missa þig pabbi minn. Þeim hefur þú verið sá allra besti afi sem þau hefðu getað óskað sér. Þegar við flettum í gegnum myndirnar okkar ert þú á þeim langflestum í kringum krakkana, með þau litlu á handleggnum, með þeim eldri í vatnsrennibraut. Alltaf þátttakandi. Ég er svo þakklát fyrir allt það sem við öll áttum í þér og þakklát fyrir allt það sem þú varst okkur. Það hryggir mig mjög hvað stelpurnar mínar litlu fengu stuttan tíma með þér en ég verð dugleg að rifja upp allar góðu og dýrmætu minningarnar sem við bjuggum til með þér svo minning þín muni lifa áfram með þeim. Nú er bringan þín hætt að rísa og hníga við andardrátt þinn og hjartslátturinn þagnaður. Það nýstir hverja taug en fullvissan um að þú bíðir okkar í himnaríki þegar okkar tími er kominn er huggun í harminum. Takk fyrir allt og Guð geymi þig elsku hjartans pabbi minn. Þú varst Guðs barn og verður ætíð Guði falinn. Við pössum mömmu. Ég elska þig alltaf, þín Heiða
Ragnheiður Hlín Símonardóttir.