Ásdís Benediktsdóttir fæddist á Selfossi 21. ágúst 1947. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík 3. júlí 2024.
Ásdís var dóttir hjónanna Benedikts Franklínssonar frá Litla-Fjarðarhorni í Strandasýslu, f. 17. maí 1918, d. 26. júní 2010, og Regínu Guðmundsdóttur frá Flatey á Breiðafirði, f. 12. mars 1918, d. 27. janúar 2017. Systkini Ásdísar: Jónína, f. 1943, d. 2005, Guðmundur Franklín, f. 1951, og Andrea Eygló, f. 1951, d. 2003.
Árið 1973 á aðfangadag fæddist Ásdísi dóttirin Regína Ásdísardóttir. Maki Regínu er Smári Magnússon, f. 23. júní 1972. Synir þeirra eru Benedikt Franklín, f. 24. júní 1995, Helgi Magnús, f. 5. október 2004, og Sindri, f. 7. maí 2009. Ásdís giftist síðar Róbert Mellk en þau skildu. Sonur þeirra, Georg Mellk Róbertsson, fæddist 28. nóvember 1981 en lést 22. júlí árið 2000.
Ásdís ólst upp á Selfossi en bjó lengst af í Reykjavík, síðustu áratugina á Vesturvallagötu 1. Á sínum yngri árum dvaldi Ásdís hálft annað ár á Englandi og stundaði fram eftir ævi fjölbreytt störf til sjós og lands. Hún var þerna á millilandaskipum, starfaði í ýmsum verslunum, á leikskólum og sem læknaritari en mörg síðustu ár starfsævinnar starfaði hún í bókabúð Máls og menningar og síðar í Eymundsson við Skólavörðustíg auk sumarstarfa í Hótel Flatey. Ásdís stundaði söngnám hjá Guðmundu Elíasdóttur og lauk einsöngvaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík og söng í kirkjukórum bæði í Neskirkju og Bústaðakirkju.
Útför Ásdísar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 22. júlí 2024, og hefst klukkan 13.
Ásdís var lestrarhestur, hafði yndi af tónlist og góðum bókum, lærði söng og hafði gaman af öllu menningarlífi. Hún átti alltaf í lifandi tengslum við listaheiminn með sínu móti, ekki bara tónlistarfólk í fjölskyldunni heldur líka leikara, rithöfunda og myndlistarfólk, bjó á sínum tíma með Öddu Siggu frænku sinni hjá Guðmundu Elíasdóttur söngkonu og Sverri Kristjánssyni sagnfræðingi, vann á heimili leikarahjónanna Brynju Benediktsdóttur og Erlings Gíslasonar þegar Benni Erlings var lítill og átti myndir eftir góða vini úr hópi myndlistarmanna. Hún hafði líka frá mörgu að segja, hafði verið í siglingum, verið ráðskona á stórbýlinu Grund í Eyjafirði og unnið fjölbreytt störf þar sem margir komu við sögu, átt mann frá Ameríku, fylgst með Svavari mági sínum og vini í fjölskyldulífi, ritstjórastarfi og pólitík, starfað á leikskólum og sinnt barnauppeldi, verið læknaritari, ferðast í jeppa með Jóhönnu Kristjónsdóttur og fleiri ferðalöngum um eyðimerkur framandi landa, lifað margt og reynt mikið. Margt af því gæti einhverjum virst hversdagslegt en hjá Ásdísi var allt með dálitlum ævintýrablæ og það er ekki öllum gefið.
Á heimili Benna og Regínu í Nesi á Selfossi við Ölfusá, þar sem Nína og Ásdís ásamt tvíburunum Öddu og Gumma urðu unglingar og fullorðið fólk, var líf og fjör, tónlist í hávegum höfð og margt brallað. Barnabörnin og barnabarnabörnin urðu líka mörg og ferðirnar austur fyrir fjall til afa Benna og ömmu Regínu óteljandi þegar tímar liðu fram. Þessu fylgdu líka ævintýrin í Ásgarði, húsinu þar sem Regína hafði alist upp hjá foreldrum sínum og systkinahópi í Flatey. Ásdís átti þar ótal stundir og ófá handtökin, dvaldi í eynni bæði oft og lengi síðustu áratugina, oft í hópi ættingja og stundum meira næði, þau Torfi voru þar í tvö, þrjú skipti ein, þegar Svandís var bundin í bænum yfir stjórnsýslu og pólitík, undu sér vel og urðu miklir félagar. Þar átti Ásdís líka góða vini og hafði unnið mörg sumur á hótelinu í glöðum hópi, rétt eins og í bókabúðunum tveimur á Laugavegi og Skólavörðustíg, þar sem kostir hennar og fjör nutu sín svo vel. Um það bera jafnt stjórnendur, samstarfsfólk og viðskiptavinir vitni.
Ásdís naut sín líka vel í fagnaði sem haldinn var með ættingjum og vinum á jóladag á okkar heimili um margra ára skeið, við langborð yfir síld og hangikjöti, kökum, kaffi og drykkjum við hæfi. Þegar börn Nínu og Svavars, sem þá voru bæði látin, fóru svo fyrir tveimur árum með maka og afkomendur til Skotlands buðum við hjónin Ásdísi með í leiðangurinn og kom fljótt í ljós að það var vel til fundið. Allir höfðu stórkostlega gaman af samvistunum við Ásdísi og gátu átt við hana frábær samtöl, unga fólkið og krakkarnir ekki síst. Við ókum með hana yfir England á áfangastað, hún rifjaði upp tímann sinn í Leeds og lék á als oddi. Svandís gat sagt frá því þegar Ásdís kom ung og sigld skvísa heim til Íslands, með eplagrænar Bítlabuxur úr Carnaby Street handa henni, þriggja ára systurdóttur sinni og fyrsta barnabarninu í Nesi. Ásdís björt eins og sólin, ljónið sem hún var með sitt ljósa hár og litríku föt, þá eins og alltaf með auga fyrir tísku og fallegum hlutum. Hún þreyttist heldur ekki á að segja frænku sinni litlu hvað hún væri sæt og hætti því aldrei þótt leiðin yrði löng, frænkan yrði stór stelpa, fullorðin kona, margra barna móðir og stjórnmálamaður með bauga undir augum. Það munar um minna.
Síðustu árin kom það stundum fyrir að Ásdís bauð okkur heim til sín og hafði þá kannski á borðum smjörsteiktan þorsk með býsnum af lauk eða einhvern suðurfranskan rétt úr Mensubókinni hennar Ibbu, sem kom á laggirnar hótelinu í Flatey, matreiðslubók sem aldrei bregst og Ásdís taldi óhikað allra matreiðslubóka besta. Svo var sest við spjall og stundum farið á dýptina enda um margt að tala og sumt erfitt. Ásdís hafði orðið fyrir miklum áföllum á langri leið, átt í erfiðu hjónabandi, misst systur sínar báðar og fallegan son, og þótti gott að fara yfir þá hluti ekki síður en annað. Allt stóð hún það af sér og sýndi með því seiglu og ótrúlegan styrk. Þegar kom að veikindunum sem engin leið var að lækna var það sama upp á teningnum, því mætti hún af fádæma æðruleysi á eigin heimili á Vesturvallagötunni með Jökulinn á aðra hönd og Landakotskirkju á hina. Hún lét eins lítið fyrir sér hafa og unnt var, spjallaði um dauða sinn, útför og eftirmál eins og ekkert væri sjálfsagðara og kveinkaði sér hvergi. Einstök kona sem við söknum sárt og gott er að minnast.
Svandís Svavarsdóttir og Torfi Hjartarson.