Magnús Már Kristjánsson fæddist í Reykjavík 27. ágúst 1957. Hann lést á líknardeild Landspítalans í faðmi fjölskyldunnar 8. júlí 2024.
Foreldrar hans voru Kristján Magnússon húsasmíðameistari, f. 20. nóvember 1923, d. 11. apríl 1986, og Gyða Jóhannsdóttir, húsmóðir og verslunarkona, f. 13. apríl 1929, d. 20. ágúst 1996. Systur Magnúsar eru: Dóra Camilla, f. 2. apríl 1954, gift Ara Karlssyni, og María Björg, f. 23. september 1965, gift Lofti Ólafssyni.
Fyrri eiginkona Magnúsar var Isabelle de Bisschop, f. 5. apríl 1959 og eru börn þeirra: 1) Manuela, f. 4. nóvember 1985, í sambúð með Guðlaugi Inga Guðlaugssyni, f. 21. febrúar 1977. Börn þeirra eru Kári, f. 8. nóvember 2012, og Sóley, f. 8. maí 2016. 2) Kristján, f. 2. mars 1990, kvæntur Ariane Lacy Bland, f. 27. janúar 1995.
Seinni eiginkona Magnúsar er Hulda Ásgeirsdóttir, f. 6. febrúar 1964. Börn Huldu eru: 1) Sonja Huld Guðjónsdóttir, f. 25. desember 1987, sambýlismaður Ingi Rafn Sigurðsson, þeirra börn eru Kolbjörn, Högna og Heba. 2) Eva Sigrún Guðjónsdóttir, f. 8. febrúar 1990, sambýlismaður Samúel Þór Smárason, þeirra börn eru Hugi, Huldar og Saga. 3) Ari Ásgeir Guðjónsson, f. 21. maí 1997, í sambúð með Iðunni Pálsdóttur.
Magnús ólst upp á Kambsvegi og flutti síðar á Kleppsveg. Hann gekk í Langholtsskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1977. Magnús lauk BS-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og hélt síðan til framhaldsnáms til Bandaríkjanna. Hann lauk M.Sc.-prófi í matvælaefnafræði árið 1983 frá University of California Davis og flutti síðan til Ithaca í New York-fylki. Næstu árin lagði hann stund á doktorsnám og lauk doktorsgráðu í matvælaefnafræði 1988 frá Cornell University.
Að námi loknu flutti Magnús ásamt fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar þar sem hann starfaði sem sérfræðingur við Center for Marin Bioteknologi, Danmarks Tekniske Universitet, árin 1988-1991. Hann flutti heim að því loknu og var sérfræðingur við Raunvísindastofnun 1991-1994 og fræðimaður 1994-1998. Magnús var dósent í matvælaefnafræði 1999-2008, í lífefnafræði 2008-2009 og síðan prófessor frá 2009. Magnús var deildarstjóri lífefnafræðideildar innan Raunvísindastofnunar 2009-2022. Hann var gestakennari við nokkra erlenda háskóla á ferli sínum, í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Magnús stundaði fjölbreyttar rannsóknir á próteinkljúfum úr sjávarlífverum sem aðlagast hafa kulda, í samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn.
Magnús æfði bæði fótbolta og handbolta með Fram á sínum yngri árum og varð Íslandsmeistari í yngri flokkum. Hann var allt tíð mikill áhugamaður um íþróttir, ekki síst fótbolta og var dyggur aðdáandi Fram og enska félagsins Liverpool.
Útför Magnúsar Más fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 31. júlí 2024, og hefst athöfnin kl. 15.
Fyrir rúmri öld tók ung kona fædd í landinu sem nú er Hvíta-Rússland ákvörðun um að flytja, svo ekki sé fastar að orði kveðið, til Bandaríkjanna. Á langri leið sinni þurfti hún að treysta á fólk sem var tilbúið að veita henni næturskjól þó það sama fólk gæti verið að stefna eigin tilveru og eftir atvikum lífi í hættu með því að aðstoða ungu konuna. Á langri ævi sinni í Bandaríkjunum byggði hún upp fyrirtæki sem varð síðar mjög stórt á sínu sviði. Hún sagði síðar frá því að þegar hún á sínum ferli þurfti, þegar mikið reið á, að leggja mat á heilindi og áreiðanleika einstaklinga sem hún átti í samskiptum við og þá spyrði hún iðulega sjálfa sig, myndi hann vera tilbúinn að fela mig? Maggi var þannig einstaklingur, hann var alltaf tilbúinn að standa með því sem honum þótti rétt og réttlátt, þó að flestum okkar hefði þótt auðveldara að sitja hjá. Hugrakkur þegar hugleysið var þægilegra.
Íþróttir voru sameiginlegt áhugamál okkar og við vörðum miklum tíma í þágu þess málstaðar, ef svo má að orði komast. Maggi var gegnheill Frammari og Liverpoolmaður. Hann varð Íslandsmeistari í yngri flokkum með Fram en valdi námið sem sinn heimavöll þegar fram í sótti. Á þeim árum sem bæði félögin áttu sigursæl knattspyrnulið var Maggi við nám í Bandaríkjunum og ekkert að frétta í orðsins fyllstu merkingu. Langt í að hin rafræna bylting hæfist. Það kom því oft í minn hlut að útskýra síðar fyrir honum hver hinn og þessi leikmaður liðanna hefði verið og hverju liðin hefðu áorkað. Stundum var markmið útskýringanna öðrum þræði að stríða Magga á titlaleysi Liverpool en sjálfur hafði ég ekki úr háum söðli að detta sem Arsenalmaður. Og það er til marks um óskilyrtan stuðning Magga við Liverpool að þegar við sátum á íþróttakrá, á meðal stuðningsmanna Liverpool, voru stundum heimtuð víti Liverpool til handa, jafnvel þó að boltinn hefði ekki komið inn í vítateiginn. Við fórum saman margar ferðir erlendis að horfa á fótbolta og handbolta. Ógleymanleg var ferð okkar til Frakklands á Evrópukeppnina í fótbolta 2016. Í Suður-Frakklandi vorum við nánast á heimaslóðum, hafandi riðið þar um héruð margoft hvor í sínu lagi með fjölskyldum okkar. Við vorum samrýmdir á ferðum okkar og stundum fannst mér eins og ég væri að ferðast með sjálfum mér.
Við Maggi vorum ekki alltaf sammála um hluti en okkur varð aldrei sundurorða og aldrei bar neinn skugga á vináttu okkar sem var ævilöng og ævarandi. Hin miklu samskipti okkar í gegnum lífið voru þess eðlis að Maggi var mér sem bróðir, og verður mér ávallt sem bróðir. Þekking Magga á tónlist var í frásögur færandi og þar vorum við um sumt ólíkir, ég töluvert aftar á merinni myndu kunnáttumenn segja. Í yfirfærðri merkingu má segja að hjá mér hafi ekkert fjall verið nógu hátt en hjá Magga var ekkert rokk nógu hátt. Samt var það nú þannig að fyrir nokkrum árum þegar við vorum í samkvæmi þar sem gestir áttu að velja sitt uppáhaldslag til að spila þá var ekki langt á milli okkar. Ég valdi lag með Dire Straits en Maggi lag með Pink Floyd. Þegar við fórum svo að bera saman bækur okkar um hvaða lag hefði orðið fyrir valinu ef við hefðum þurft að velja annað uppáhaldslag þá kom í ljós að Pink Floyd-lag Magga hefði orðið mitt val og Dire Straits-lagið val Magga.
Það var nánast söguleg nauðsyn að Maggi væri hrifinn af Frakklandi. Einkunnarorðin frönsku um frelsi, jafnrétti, bræðralag eru lýsandi fyrir þá sýn sem Maggi hafði á lífið og samfélag manna. Og hann var alltaf trúr sjálfum sér og hugsjónum sínum.
Nú er sólin gengin til heljar
Og máninn hár á himni
Nú komið er að kveðjustund
Hver maður mun þurfa að deyja
En skrifað er í blik stjarnanna
Og hverja línu lófa þíns
Við erum flón að heyja stríð
Gegn vopnabræðrum okkar
(Brothers in arms, Dire Straits)
Skrifað hefur verið: Daginn sem þú fæddist varst þú sá eini sem grét. Lifðu lífinu þannig að þegar þú deyrð þá gráti allir aðrir.
Þannig lifði Maggi.
Loftur Ólafsson.