Aðalgeir Heiðar Karlsson fæddist 1. október 1948 á Húsavík. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð 12. júlí 2024.
Hann var sonur útgerðarhjónanna Heru Sigurgeirsdóttur, f. 22. maí 1916, d. 8. ágúst 1999, og Karls Óskars Aðalsteinssonar, f. 8. maí 1912, d. 24. jan. 1982. Aðalgeir var yngstur fimm systkina sem eru í aldursröð: Sigurbjörg Guðrún, f. 6. feb. 1935, d. 26. maí 2019, Sigrún Ólöf, f. 22. jan. 1937, Aðalsteinn Pétur, f. 27. okt. 1943, d. 15. júlí 2008, og Óskar Eydal, f. 27. nóv. 1944, d. 14. apríl 2017. Karl Óskar Geirsson, f. 28. nóv. 1955, sonur Sigrúnar, ólst einnig upp í Höfða og var alltaf eins og einn af systkinunum.
Alli var af mikilli sjómannaætt, var þó sjálfur mjög lítið á sjó en vann landvinnu. Hann réð sig til vinnu þegar Norðurverk hóf störf við gerð Laxárvirkjunar 3 og vann þar fram að verklokum sem bílstjóri á borbíl og sem sprengjusérfræðingur.
Við Laxárvirkjun kynnist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðnýju Heiðveigu Gestsdóttur, f. 13. júní 1952. Guðný er fædd og uppalin í Múla í Aðaldal, foreldrar hennar voru Heiðveig Sörensdóttir, f. 6. maí 1914, d. 2. mars 2002, og Gestur Kristjánsson, f. 10. nóvember 1906, d. 9. ágúst 1990. Strax vorið eftir að þau Guðný kynntust flutti Alli í Múla, fór að taka þátt í búskapnum af fullum krafti ásamt því að sinna vinnu við Laxárvirkjun. Alli og Guðný opinberuðu um páskana 1971 og giftu sig 2. apríl 1972. Þau hófu félagsbúskap ásamt foreldrum Guðnýjar og keyptu síðar af þeim eignir þeirra í Múla eftir að þau hættu búskap árið 1986 og fluttu til Húsavíkur. Alli og Guðný bjuggu alla tíð í Múla meðan heilsan leyfði. Þau seldu jörðina í sumarið 2021 og fluttu til Akureyrar.
Alli og Guðný í Múla voru með fjölmörg börn í sumardvöl í sveit og eins voru þau með fósturbörn bæði til skemmri og lengri tíma. Þrjú af þeim börnum fengu varanlegt aðsetur hjá þeim hjónum: Ólafur Svanur Ingimundarson, f. 3. ágúst 1965, Einar Jóhann Sigurðsson, f. 6. ágúst 1983, og Aðalheiður Ágústa Jónsdóttir, f. 2. október 1987. Ólafur Svanur er kvæntur Emmu Gísladóttur, f. 17. maí 1967, og eiga þau tvo syni, Gísla Ólaf og Jón Aðalgeir, og sex barnabörn. Einar Jóhann er kvæntur Þórhildi Einarsdóttur, f. 31. ágúst 1983, og eiga þau tvö börn saman, Kristján Guðna og Heiðveigu Halldóru. Einar á einnig dóttur úr fyrra sambandi, Lilju Dögg, f. 3. mars 2005. Aðalheiður er gift Sigmundi Birgi Skúlasyni, f. 19. maí 1982, og eiga þau þrjú börn, Heiðar Inga, Fannar Atla og Margréti Guðnýju.
Útför Aðalgeirs fer fram frá Grenjaðarstaðarkirkju í Aðaldal í dag, 24. júlí 2024, kl. 14.00. Hægt er að fylgjast með útförinni í streymi á
Elsku pabbi minn.
Ég veit að þú varst tilbúinn að fara frá okkur því það var ekki þinn
tebolli að þurfa svona mikla aðstoð með allt eins og raunin var síðustu tvö
árin, þú varst alltaf svo stoltur, vildir gera allt upp á eigin spýtur og
þú áttir alltaf erfitt með að þiggja aðstoð ef eitthvað gekk illa. Við
ræddum öll þessi mál þessar síðustu stundir sem við áttum saman áður en þú
fórst yfir í Sumarlandið og við fundum sátt okkar á milli og ég sagði þér
að þú mættir sleppa takinu og fá að fara, jafnvel þótt ég vildi ekki sleppa
þér. Ég fullvissaði þig líka um að við myndum hugsa vel um mömmu. Á svona
erfiðum tímum er gott að eiga margar gamlar myndir til að rifja upp
dýrmætar minningarnar sem við eigum svo minning þín muni lifa áfram með
okkur öllum.
Þú varst besti pabbi sem hægt var að hugsa sér að eignast og ég man vel
eftir fyrsta kvöldinu mínu í Múla, þegar ég kom þangað þriggja ára gömul í
varanlegt fóstur, og ég var strax komin upp á axlirnar á þér og kallaði þig
pabba frá fyrsta degi. Þú varst ávallt óhræddur við að segja þínar skoðanir
og engu skipti þó þær féllu í grýttan jarðveg hjá einhverjum. Sumt var tjáð
á hærri nótunum og höfðu bændur á næstu bæjum orð á því að oft vissu þeir
ekki hvort þú værir að góla á mömmu Guðnýju, börnin eða hundinn, þú varst
ávallt mjög snöggur upp í ágætis tónhæð en það varði yfirleitt mjög stutt.
Á sama tíma varstu mjög viðkvæmur og máttir ekkert aumt sjá, alltaf
tilbúinn að rétta öðrum hjálparhönd og erfiðasti hluti búskaparins var
þegar þú varst tilneyddur til að lóga skepnu vegna veikinda eða annarra
kvilla. Ég man hvernig ég þurfti að keppast við forvera mína í sveitinni,
bæði fósturbræður mína Óla Svan og Einar, og eins alla þá drengi sem komu í
sveitardvöl, og ég þurfti að finna leiðir til að sanna ágæti mitt og sýna
að ég gæti nú gert ýmislegt þótt ég væri stelpa. Ég fékk ekki að fara á
dráttarvélarnar jafn ung og strákarnir og ýmisleg önnur verkefni sem þóttu
varasöm voru heldur ekki á dagskránni hjá mér því þú vildir ekki taka neina
óþarfa áhættu með litlu skottuna þína. Þú varst eins í framkomu við
barnabörnin þín, hugsaðir mikið út í þeirra öryggi í útihúsunum og hélst í
hönd þeirra.
Það voru nokkuð margir sem voru hálfpartinn stressaðir og smeykir í kringum
þig, skólasystkini mín voru sum blákalt hrædd við þig því þú þóttir oft
frekar ógnandi í fasi. Ég upplifði aldrei þá hræðslu gagnvart þér og
jafnvel þótt þú hefðir af og til gólað fullhátt á mann út af einhverju þá
vorum við bæði fljót að jafna okkur og samband okkar hélst alltaf traust í
gegnum súrt og sætt. Mér er líka sagt að ég sé ein af fáum sem hafi vogað
sér að andmæla þér og gerði ég það nokkuð oft svo þeir sem voru nærstaddir
svitnuðu nánast af taugaveiklun. Það var t.d. einn drengur hjá ykkur, hann
Heiðar Már, sem hugsaði mjög oft um að segja nei við einhverju sem þú
sagðir en hann þorði aldrei að láta verða af því.
Það var margt sem maður þurfti að læra á í samskiptum við þig til að halda
öllu í góðu, allskonar ósýnilegar reglur og viðmið, og það var bara allt í
lagi. Til dæmis lærði ég fljótlega að í hvert sinn sem fréttir og veður var
á dagskrá í útvarpinu þá var betra að hafa sig hægan við eldhúsborðið og
vera ekki með óþarfa hávaða. Ég lærði að skilja að veðurspáin skipti þig
meira máli en mig og það sem ég hélt að ég hefði merkilegt að blaðra um gat
bara beðið þar til fréttatímanum væri lokið.
Útsýni frá Múla yfir Aðaldalinn var með eindæmum fagurt og sjónauki var
ávallt í seilingarfjarlægð og var hann handleikinn oft á dag allan ársins
hring. Pabbi var sérstaklega áhugasamur þegar féð var komið á túnin á
haustin og þá var sjónaukinn tekinn í hönd og á augabragði kemur nafn
kindarinnar, ættarsaga hennar og upp kveðinn dómur um vænleika lambanna.
Báðir foreldrar mínir höfðu líka mikinn áhuga á forystufé og þar voru þrír
sauðir í algjöru uppáhaldi síðustu árin þeir Laufi, Leggur og Ljúfur.
Börnin okkar fengu sína kind hver, þær Gráhyrnu, Sandlóu og Gráblá. Heiðar
Ingi, nafni þinn, fékk Gráblá að gjöf þegar hann var aðeins mánaðargamall
en þau fæddust bæði sama vorið árið 2012. Gráblá var dásamleg ær, rosalega
gæf og gaf vel af sér en árið 2019 kom í ljós að hún myndi ekki geta
eignast fleiri lömb og þá hefðu hennar örlög átt að enda á sláturhúsinu
líkt og með aðrar veikar skepnur. Það tók ekki langan tíma að fá pabba til
að leyfa Gráblá, sem litli nafni hans átti, að halda lífinu enda hafði
pabbi lítið í hendi til að andmæla þegar horft var á allan þann fjölda
sauða sem tóku pláss í húsi án þess að gefa nokkuð af sér annað en gleði og
prýði alla tíð.
Pabbi var dugnaðarforkur og fann sér alltaf einhver verkefni í búskapnum.
Hann vissi hvað jörðin gat gefið vel af sér en ekki síður að það væri
mikilvægt að ganga ekki fram af henni og gerði sitt besta til að halda öllu
í sem bestu formi. Það er pabba að þakka að ég er með nokkuð gott verkvit
og hann kenndi manni að það hefur engan tilgang að stoppa og vorkenna
sjálfum sér ef eitthvað gengur illa hjá manni. Aðdáunarvert í fari pabba
var ást og dálæti hans á sveitinni sinni þar sem hann þekkti hvern hól og
hverja þúfu. Hvergi var betra að vera og ekkert jafnaðist á við sveitina
hans þótt honum fyndist auðvitað ágætt að koma heim á Húsavík af og til. En
að þvælast mikið lengra í burtu frá Aðaldalnum var í hans huga algjör
óþarfi. Ég veit að það brotnaði eitthvað í okkur öllum þegar við þurftum að
segja skilið við Múla. Sú ákvörðun að hætta búskap og flytja í burt frá
Aðaldal var mjög erfið og sársaukinn skein úr augum foreldra minna. En
svona er víst lífið og ekkert annað að gera en að vera þakklátur fyrir öll
góðu árin og halda áfram fram á við á ótroðnar slóðir eftir bestu getu og
vona það besta.
Takk fyrir allt pabbi minn, þú varst minn stærsti og veglegasti
lottóvinningur í lífinu ásamt mömmu Guðnýju. Ástarþakkir og kveðjur í
Sumarlandið frá okkur.
Þín einkadóttir,
Aðalheiður Ágústa.