Haukur Lárus Halldórsson fæddist 4. júlí 1937 að Stóra-Ási á Seltjarnarnesi. Hann lést á heimili sínu í Hafnarfirði 30. júlí 2024. Haukur var sonur Valgerðar Ragnheiðar Ragnars verslunarkonu og húsfreyju og Halldórs Ástvalds Sigurbjörnsonar heildsala í Reykjavík. Börn þeirra, auk Hauks, eru þau Ragna Halldórsdóttir húsfreyja og frumkvöðull (1935-1993) og Gunnar Halldórsson prentsmiður (1945).
Haukur var í hjónabandi með Sigrúnu Kristjánsdóttur frá 1965 til 1986 og bjuggu þau í Reykjavík. Börn þeirra eru Kristján Már (1966) frumkvöðull í markaðsmálum, Hallgerður (1968) útvegsbóndi og Gunnhildur Walsh (1972) myndlistarkona. Haukur átti sex barnanbörn sem í aldursröð eru þau Haukur Jarl, Matthías Tryggvi, Magnús Óli (d. 1996) fóstursonur Kristjáns, Birta Ósk, Sigrún Lilja og Bryndís María og fjögur barnabarnabörn sem eru þau Fjölnir Jarl, Embla Rún, Sóley og Bergrós.
Haukur starfaði fyrst ungur til lands og sjós og eftir nám í Danmörku stofnaði hann eigin auglýsingastofu í Reykjavík. Hann starfaði þar við hönnun og myndskreytingar. Haukur kom að ýmsu, meðal annars bókaútgáfu og stofnun myndlistarskóla ásamt frændum sínum Einari Þorsteini Ásgeirssyni og Friðriki Friðrikssyni. Meðal þekktari verka Hauks eru bókin Íslensk frímerki í 100 ár, Útvegsspilið, teikningar af tröllum og úr þjóðsögum, líkan af Edduheimum og hönnun skreytinga og myndskreytingar í Fjörkukránni í Hafnarfirði, einnig þróaði hann hugmyndina að og hannaði Heimskautsgerðið við Raufarhöfn, fleira mætti telja. Starfaði Haukur við sýningar, myndlist og listsköpun hér heima á Íslandi og víðar um lönd. Haukur var heiðinn og vann að ýmsu tengt heiðinni trú með Sveinbirni Beinteinssyni allsherjargoða. Hann bjó lengst af á Íslandi en á efri árum í Þýskalandi og Danmörku áður en hann flutti heim aftur árið 2023. Haukur er þekktastur fyrir að sinna listsköpun tengdri norrænni goðafræði og íslenskum þjóðsögum.
Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 12. ágúst 2024, klukkan 15.
Það er með djúpri sorg sem ég kveð pabba minn, Hauk Halldórsson. Hann
var ekki bara faðir minn heldur einnig vinur, áhrifavaldur og oft
leiðbeinandi í lífi mínu sem hafði mikil áhrif á mig, áhrif sem ég fann til
meira eftir því sem árin liðu.
Pabbi var sannur margmiðlunarhönnuður og líklegast einn misskildasti
listamaður Íslands. Hann hafði einstakt lag á að fanga anda þjóðsagna,
goðafræði og náttúru í verkum sínum og var duglegur að kynna mig fyrir þeim
stóra heimi sem hann bjó í. Þetta var eitthvað sem ég fann mikið fyrir í
gegnum teiknimyndasögur og annað efni sem hann kynnti mig fyrir og skóp
ímyndunarafl mitt, það voru ekki margir unglingar með Heavy
Metal"-teikningar eftir föður sinn uppi á vegg eða aftan á leðurjökkum. Mér
er það minnisstætt þegar við sáum Hringadróttinssögu saman, þrátt fyrir að
hann hafi marglesið og myndskreytt íslensku útgáfuna var eins og nýr heimur
opnaðist. Hann var jafn þekktur fyrir teikningar sýnar, útilistaverk og
hönnun, þar sem hann sameinaði fortíð og nútíð. Í gegnum langan feril sinn
skapaði hann list sem talaði beint til þeirra sem vildu upplifa hugrif
fornrar menningar og vakti til umhugsunar um bæði sögu okkar og menningu,
hugur hans stoppaði aldrei.
Það væri varlega sagt að pabbi hafi verið hugmyndaríkur og hann óttaðist
aldrei að takast á við stór og metnaðarfull verkefni. Eitt af hans stærstu
og metnaðarfyllstu verkefnum var hönnun á þemagarði byggðum á Eddukvæðunum
og í framhaldi af því hönnun og þróun á Heimsskautsgerðinu við
Raufarhöfn.
Ég kom að gerð áreiðanleikakönnunum fyrir bæði verkefnin og mér er
minnistæt símtal sem við pabbi áttum með þeim sem höfðu komið að hönnun
Paramount og Six Flag America í Bandadríkjunum, þeir vildu finna verkefninu
farveg annars staðar og vildu meina að Ísland væri of lítið enda vorum við
bara að fá rétt um 350-400.000 ferðamenn til landsins á þeim tíma. Líkt og
Eddugarðurinn, þá er Heimskautsgerðið ekki bara listaverk heldur heill
heimur, innblásinn af norrænni goðafræði og fornum textum eins og Völuspá.
Verkefnið tengir forna fræði við náttúruna, þar sem steinar eru settir upp
til að mynda stórfenglegt listaverk. Fullklárað verður Heimskautsgerðið
eitt af stærstu útilistaverkum sem heimurinn hefur séð og mun lifa áfram
sem vitnisburður um sköpunargleði og hugrekki hans og þeirra sem unnu með
honum.
Það eru mörg atvik og margar persónur sem mér eru minnisstæðar, eitt af
þeim atvikum sem ég minnist með hlýju var að sjá grein í norsku vefriti þar
sem voru myndir af því þegar hann hitti konung Noregs og drottninguna í
Mehamn og sagði þessi ódauðlegu orð um kónginn við blaðamann Du vet, han
er en konge av og for folket, og jeg er en konge i kunsten. (Þú veist,
hann er konungur fólksins, og ég er konungur listar Við erum jú báðir
kóngar.) Það fór vel á með þeim þegar hann fór yfir hvers vegna Haraldur
hárfagri" sameinaði Noreg og færði þeim að gjöf postulínslampa sem hann
hannaði fyrir fund þeirra. Þetta augnablik var táknrænt fyrir þá sögu- og
sköpunargleði sem einkenndi pabba, bæði í list hans og í samskiptum við
aðra.
Pabbi vann að sköpun fram á síðasta dag og það er mér ómetanlegt að ég átti
samtal við hann daginn áður en hann féll frá, þar sem við ræddum um
verkefni sem hann var að vinna að. Hann hafði brennandi áhuga á að fá okkur
systkinin með sér í þau (það var aldrei eitt). Það var auðséð að hann var
fullur af hugmyndum og sköpunargleði allt til enda, hann hreinlega bjó í
eigin hugarheimi þar sem hann var sjálfum sér nógur.
Þegar ég hugsa til baka koma upp atvik með pabba sem teljast í hundruðum og
erfitt að segja frá þeim öllum hérna, ég ætla samt að nefna tvö í viðbót;
það fyrsta er þegar hann vann við að hanna og þróa Útvegsspilið, ég man
þegar ég sat í borðstofunni heima á Ránargötu þar sem hann fékk okkur til
að spila, skoða hvernig það virkaði og aðstoða við þróunina, og síðan þegar
við vorum fengin til að pakka spilinu og ég læddi einni og einni töggu í
plastpokann með frystihúsunum og bátunum sá ég að hann brosti, hann fattaði
grínið.
Annað eftirminnilegt augnablik er krýningin hans sem keisara Atlantis.
Þetta var ein stærsta listauppákoma sem Ísland hefur séð, þar sem list,
skáldskapur og táknfræði komu saman í einstakri athöfn. Hann og góður vinur
hans allsherjargoðinn hófu athöfnina með því að helga mismunandi staði á
landinu fjórum höfuðþáttum náttúrunnar: lofti, vatni, jörðu og eldi.
Krýningin var ekki bara táknræn heldur einnig djúpstæð tjáning á list pabba
og sýn hans á veröldina, þar sem goðsagnir og náttúra urðu eitt. Hann ásamt
félögum sínum gaf síðan út bók tengda verkefninu í nafni höfundar sem ekki
var til og opnaði sendiráð í miðbæ Reykjavikur.
Pabbi lifði fyrir sköpun og hefði gjarnan mátt vera með jafn mikinn áhuga á
því að markaðssetja sig og skapa sér tekjur í kringum sköpun sína, fyrir
honum snérist þetta meira um hugmyndina en framkvæmdina, eitthvað sem við
systkinin höfum þurft að takast á við þar sem aðrir hafa eignað sér sköpun
hans. Hann leitaði alltaf nýrra leiða til að tjá sig, hvort sem það var með
litum, skúlptúr eða í gegnum aðra miðla eins og veggi þar sem hann bjó
hverju sinni.
Pabbi var mikill smiður hugmynda og lagði sig fram við að koma frumlegum
og kraftmiklum verkum í form. Hann var ekki bara listamaður, heldur var
hann líka forvitinn rannsakandi sem leitaði stöðugt að nýjum leiðum til að
tjá sig og kanna heiminn í kringum sig. Til marks um það er verkefni þar
sem hann bað mig um að skoða hvernig hann gæti notað gervigreind til að
þróa og hanna, eftir að hafa prófað í nokkra mánuði þá sagði hann, ég held
að hún sé ekki alveg tilbúin fyrir mig og brosti.
Það er erfitt að setja í orð hversu mikill missir þetta er. Pabbi skilur
eftir sig stórt tómarúm í hjarta mínu og ég minnist hans með þakklæti fyrir
alla þá visku og væntumþykju sem hann gaf mér, og fyrir ómetanlega
arfleifðina sem hann skilur eftir sig.
Það sem ég er honum þakklátastur fyrir er að hann sýndi mér að það er í
lagi að vera óhræddur við að prófa eitthvað nýtt og standa upp þó að það
gangi ekki og það sem ég er glaðastur með er að ég náði að tala við hann
daginn áður enn hann dó og segja honum að ég elskaði hann.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur
(Úr Hávamálum)
Hvíl í friði, elsku pabbi. Þín minning lifir í hjörtum þeirra sem þekktu
þig og í verkum þínum.
Kristján Már Hauksson.