Jóhanna Soffía Sigurðardóttir fæddist 21. september 1929. Hún lést 18. júlí 2024. Útför fór fram 12. ágúst 2024.
Við eigum margar ljúfar, góðar og skemmtilegar minningar um okkar
ástkæru ömmu Jóhönnu.
Það sem kemur helst upp í hugann er þegar við systurnar slógumst um
ruggustólinn í hvert skipti sem við komum í heimsókn í Rjúpufellið, þegar
við spiluðum svarta-pétur og öskunni frá vindlingunum hans afa var klínt á
nefið, kvennahlaupin með ömmu, amma að lauma seðli í vasa okkar, ótal
sumarbústaðarferðir og bláberjatínsla síðsumars. Einnig er okkur
minnisstætt þegar við suðuðum í ömmu og afa um að taka út fölsku tennurnar
sínar. Afi var ekki lengi að verða við ósk okkar, en við þurftum að hafa
aðeins meira fyrir því að amma léti tilleiðast. Það sem þetta vakti mikla
kátínu og gleði hjá okkur. Þegar komið var að kveðjustund eftir heimsóknir
í Rjúpufellið og við komin inn í bíl þá er okkur svo kært í minningunni að
amma og afi stóðu alltaf í glugganum að vinka okkur bless. Þessu hélt amma
svo áfram eftir að afi lést og þegar hún flutti í Hólabergið og síðar inn á
hjúkrunarheimilið Eir sem okkur þótti ótrúlega vænt um.
Amma sá alltaf til þess að við barnabörnin hefðum nóg fyrir stafni og var
gjarnan einu skrefi á undan okkur ef hún tók eftir að áhuginn fór minnkandi
fyrir því sem við vorum að gera hverju sinni. Þá var hún ekki lengi að
græja næstu afþreyingu fyrir okkur, hvort sem það var að draga fram
litabækurnar, setja upp hárgreiðslustofu inni í litla herberginu,
sápukúlugerð á svölunum með hárrúllunum hennar, tónleikar á skemmtarann eða
út að leika á rólónum og amma að fylgjast með okkur frá svölunum. Þegar við
vorum svo orðin þreytt þá var kveikt á sjónvarpinu og við fengum að velja
eina af 200 stöðvum sem amma og afi fengu lánaða hjá nágranna sínum í
blokkinni. Þá varð Cartoon Network oft fyrir valinu sem okkur þótti algjör
lúxus. Hjá ömmu lærðum við einnig að meta Leiðarljós þar sem amma missti
aldrei úr þætti. Þegar við fengum svo að gista hjá ömmu og afa fengum við
að vaka til miðnættis sem okkur þótti ótrúlega spennandi. Afi var þá farinn
að sofa en amma sat með okkur fram eftir að horfa á mynd í sjónvarpinu. Svo
var hún auðvitað allra fyrst að vakna á morgnana og beið okkar inni í
eldhúsi tilbúin að gefa okkur að borða. Hjá ömmu var alltaf nóg af
kræsingum í boði: bestu íslensku pönnukökurnar, toffee-kexið góða,
appelsínukex, íspinnar og alls konar gotterí. Við lifðum alltaf í
vellystingum hjá ömmu Jóhönnu.
Spánarferðirnar sem við áttum með henni standa einnig hátt upp úr
minningabankanum. Amma dekraði við okkur hægri-vinstri, keypti handa okkur
cartoon network-boli, handklæði, minjagripi og leyfði okkur að spila í
klónni til að vinna bangsa eða eitthvert dót. Spánarferðin árið 1999 er
einkum minnisstæð en þá horfðum við saman á Selmu keppa fyrir hönd Íslands
í Eurovision. Allan tímann á meðan við horfðum á keppnina endurtók amma að
við mættum alls ekki vinna og að við gætum alls ekki haldið
Eurovision-keppnina á Íslandi. Amma fagnaði svo hæst af öllum þegar við
enduðum í 2. sæti, okkur systrum ekki til mikillar gleði.
Ólafur Hrafn deilir ekki alveg sömu minningum af ömmu sinni eins og við systur, amma var orðin töluvert fullorðnari þegar hann fæddist en minningarnar hans eru engu að síður kærar. Ólafur Hrafn minnist ömmu sinnar svona: Dótið sem hún amma hélt til haga í ullarpokanum og hann lék sér með þegar hann var lítill, heimsóknir til ömmu með bakkelsi frá Brauði og co. og notalega spjallið yfir kaffinu. Amma kenndi honum einnig nokkur lög á skemmtarann, meðal annars Gamla Nóa.
Við erum óendanlega þakklát fyrir öll árin sem við fengum með ömmu og
munu minningarnar lifa að eilífu í hjörtum okkar.
Við höfði lútum í sorg og harmi
og hrygg við strjúkum burt tárin af hvarmi.
Nú stórt er skarð í líf okkar sorfið
því fegursta blómið er frá okkur horfið.
Með ástúð og kærleik þú allt að þér vafðir
og ætíð tíma fyrir okkur þú hafðir
þótt móðuna miklu þú farin sért yfir
þá alltaf í huga okkar myndin þín lifir.
Við kveðjum þig, amma, með söknuð í hjarta,
en minning um faðmlag og brosið þitt bjarta.
Allar liðnar stundir um þig okkur dreymi
og algóður Guð á himnum þig geymi.
(Sigfríður Sigurjónsdóttir)
Þín barnabörn,
Eva Dröfn, Berglind, Kolfinna og Ólafur Hrafn.