Pétur Rúnar Guðmundsson fæddist 22. febrúar 1948 í Reykjavík. Hann lést 9. ágúst 2024.
Pétur var sonur hjónanna Guðmundar Breiðfjörð Péturssonar, skipstjóra og stýrimanns, f. 1914, d. 1980, og Lydíu Guðmundsdóttur, húsmóður, f. 1920, d. 1993. Pétur var þriðji í röð fjögurra systkina. Hin eru Hilda Gunnvör, f. 1940, Þórhildur, f. 1943, og Hafsteinn Örn, f. 1957.
Hinn 26. apríl 1969 kvæntist Pétur Sólveigu Ólöfu Jónsdóttur, f. 19. febrúar 1949. Foreldrar Sólveigar voru Ásdís Sigfúsdóttir, f. 1919, d. 2012, og Jón M. Guðmundsson, f. 1920, d. 2009. Börn Péturs og Sólveigar eru: 1) Guðmundur Hrannar, f. 1967, maki Elín Bubba Gunnarsdóttir, f. 1970, börn þeirra eru Eva Sólveig, f. 1991, Ásdís Eir, f. 1993, og Erla Margrét, f. 2004. Maki Ásdísar Eirar er Hrannar Heimisson, f. 1993, börn þeirra eru Kári, f. 2018, og Saga, f. 2021. 2) Birgir Tjörvi, f. 1972, maki Erla Kristín Árnadóttir, f. 1976, börn þeirra eru Kristín Klara, f. 2000, og Árni Pétur, f. 2006. Maki Kristínar Klöru er Jóhann Páll Einarsson, f. 1998. 3) Ásdís Ýr, f. 1976, maki Magnús Einarsson, f. 1973, dóttir þeirra er Stella, f. 2016. Ásdís Ýr á Sólveigu Kristínu, f. 2008, og Ólaf Örn, f. 2010, faðir þeirra er Haraldur Örn Ólafsson. Magnús á Alexöndru, f. 2004, og Matthías Leó, f. 2009, móðir þeirra er Þórey Heiðdal Vilhjálmsdóttir. 4) Bryndís Ýr, f. 1978, maki Jürgen Maier, f. 1978, börn þeirra eru Ísak Þorri, f. 2002, Freyja, f. 2005, Marta, f. 2009, og Hildur, f. 2016.
Pétur ólst upp í Vesturbænum og gekk í Melaskóla fyrstu skólaárin en lauk barnaskólanámi í Langholtsskóla þegar fjölskyldan flutti í Vogahverfið. Eftir einn vetur í gagnfræðadeild Vogaskóla fékk Pétur inngöngu í Verzlunarskóla Íslands, en hann brautskráðist þaðan með verslunarpróf vorið 1966. Pétur fór á bernskuárum til sjós með föður sínum, sigldi bæði á minni bátum og togurum, en stundaði jafnframt sjómennsku á námsárunum í Verzló.
Eftir verslunarpróf hóf Pétur störf hjá tollstjóranum í Reykjavík. Hann gegndi svo starfi skrifstofustjóra fataverksmiðjunnar Sportvers hf. um nokkurra ára skeið, en stærstan hluta starfsævinnar starfaði hann við eigin rekstur. Í fyrstu var það einkum við innflutning á fatnaði og tengdan verslunarrekstur, en um tíma ráku hann og Sólveig barnafataverslanirnar Mömmusál og Valborgu á Laugavegi við góðan orðstír. Síðar sinnti Pétur þjónustu í fjármálum, bókhaldi og reikningsskilum. Starfaði hann meðal annars í um áratug hjá Lögmönnum Lækjargötu ehf., sem synir hans reka ásamt fleirum. Laxveiði var lengi helsta áhugamál Péturs og naut hann þess að stunda veiðar í hópi vina í helstu laxveiðiám landsins. Um tíma tók hann jafnframt að sér störf leiðsögumanns í Eystri og Ytri Rangám.
Pétur og Sólveig bjuggu öll sín sambúðarár í Fossvogi og eignuðust þar sína fyrstu íbúð þegar nýtt hverfi var að rísa. Bjuggu þau á nokkrum stöðum í hverfinu, þar á meðal á Kjarrvegi 6, sem þau byggðu á níunda áratugnum. Árið 1991 festu þau kaup á húsi í Reykjahlíð í Mývatnssveit á slóðum fjölskyldu Sólveigar. Undu þau sér hvergi betur. Fyrst og síðast var Pétur fjölskyldumaður og taldi sitt mikilvægasta starf að vaka yfir sínu fólki; sérstaklega Sólveigu, börnum sínum, barnabörnum, móður sinni Lydíu og tengdamóður Ásdísi.
Útför Péturs fer fram frá Langholtskirkju í dag, 21. ágúst 2024, klukkan 13.
Kveðja frá saumaklúbbnum:
21. ágúst síðastliðinn kvöddum við góðan vin til 60 ára. Pétur Rúnar, frændur hans og vinir sem með okkur voru urðu að góðum vinum sem áttu samleið öll unglingsárin og rúmlega það. Margt var brallað á þessum árum sem við geymum fyrir okkur.
Þegar þú tókst að þér að passa litlu frændur þína, þá komum við stelpurnar með og pössuðum á meðan þið strákarnir skruppuð á Hótel Loftleiðir, en börnin voru í góðum höndum hjá okkur. Þú varst skemmtilegur og góður félagi og þegar gítarinn var með sungum við saman, aðallega við stelpurnar.
Árin liðu og við fundum okkar eiginmenn og þú kynntir okkur fyrir Sollu þinni, sem passaði svo vel inn í saumaklúbbinn okkar. Það var góð ákvörðun sem stækkaði og styrkti tengslin. Okkur er minnisstæð frábær helgarferð á Hótel Örk, þá settist þú við píanóið og við sungum og í raun allur matsalurinn. Saman höfum við farið til Spánar, á tónleika og út að borða og notið þess að eldast saman.
En nú ert þú farinn og við þökkum þér fyrir að hafa alltaf verið góði vinurinn og munum varðveita allar góðu minningarnar sem hafa orðið til á þessari og síðustu öld.
Elsku Solla og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur til ykkar og megi góður Guð blessa og varðveita minningu Péturs Rúnars.
Björg, Erla, Hrafnhildur, Hrefna, Þórdís, Vilhelmína og eiginmenn.