Guðjón Guðmundsson fæddist 15. febrúar 1954 á Flateyri. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 14. ágúst 2024.
Foreldrar hans eru Guðmundur Valgeir Jóhannesson skipstjóri frá Flateyri, f. 17. desember 1905, d. 9. maí 2000, og Hallfríður Guðbjartsdóttir húsmóðir frá Flateyri, f. 27. nóvember 1916, d. 9. nóvember 1994.
Guðjón var yngstur sex systkina, hin eru: Jóhannes Valgeir, f. 1941, d. 1942, Jóhanna Valgerður, f. 1944, d. 1997, Gunnar Kristján, f. 1946, d. 2008, Magnús Hringur, f. 1947, og Eiríkur Guðbjartur, f. 1950.
Guðjón kvæntist 4. október 1980 Bjarnheiði J. Ívarsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 4. apríl 1958. Foreldrar hennar eru Ívar Bjarnason, f. 1925, d. 2014, og Helga M. Sigurðardóttir, f. 1933, d. 2017. Bjarnheiður ólst upp í Reykjavík. Dætur þeirra eru: 1) Helga Rún, f. 1. júlí 1980, maki hennar er Haraldur Hrafn Guðmundsson. Börn þeirra eru Hrafnhildur, f. 7. apríl 2004, og Guðmundur Týr, f. 13. mars 2008. 2) Hulda María, f. 2. mars 1985, maki hennar er Hlynur Kristinsson. Börn þeirra eru María Sif, f. 29. september 2010, og Jökull Brimi, f. 19. apríl 2015. 3) Katrín Björk, f. 29. mars 1993.
Guðjón ólst upp á Flateyri og lauk barnaskóla þar og gagnfræðaprófi frá Núpsskóla í Dýrafirði. Hann lærði húsasmíði í Iðnskólanum í Reykjavík og úrskrifaðist sem húsasmíðameistari frá Meistaraskólanum árið 1981.
Guðjón starfaði lengi við smíðar hjá Hefli á Flateyri. Einnig starfaði hann hjá Flateyrarhreppi sem verkstjóri og á hafnarvoginni. Þá starfaði hann í nokkur ár sem snjóflóðaeftirlitsmaður fyrir Veðurstofuna.
Guðjón hafði unun af sjómennsku og átti nokkrar trillur. Hann stundaði handfæraveiðar á sumrin og lengst af reri hann á bátnum sínum Gumma Valla Ís 425. Þá verkaði hann harðfisk til fjölda ára sem hann lagði mikla natni við.
Guðjón var mikill handverksmaður og byggði fyrst hús fyrir fjölskyldu sína á Unnarstíg 1 á Flateyri. Bjó fjölskyldan þar í um 10 ár en það hús eyðilagðist í snjóflóðinu árið 1995. Hann byggði þá annað hús fyrir þau á Grundarstíg 5 á Flateyri. Guðjón var mikill fjölskyldumaður og naut sín best í félagsskap fjölskyldunnar.
Útför Guðjóns fer fram frá Flateyrarkirkju í dag, 24. ágúst 2024, klukkan 14.00.
Guðjón frændi minn hefur verið kallaður til Austursins eilífa, en hann
var einu ári yngri en ég. Við vorum sem börn og unglingar hluti af mjög
stórum ættlegg Guðbjartar Helgasonar á Flateyri. Öll börn hans og síðari
eiginkonu hans, Önnu Jóhannsdóttur, eða sex samtals, ólust upp á Flateyri,
stofnuðu fjölskyldur og ólu upp börn sín á staðnum, en aðeins eitt
barnabarna þeirra býr enn á Flateyri, að Guðjóni gengnum.
Á þeim tíma sem við frændurnir hófum skólagöngu okkar í glænýjum barnaskóla
voru um 120 börn í skólanum, og mikil bjartsýni í samfélaginu. Auðvitað
erum við flest svo heppin að jákvæðar minningar yfirtaka þær leiðinlegu og
þannig er það með mínar. Mikill samheldni og samhjálp ríkti í þessu unga
samfélagi sem var um það bil aldar gamalt og byggði á sjávarútvegi og
þjónustu við landbúnaðinn í firðinum.
Guðjón var yngstur fimm systkina. Samskipti Guðbjartarsystkinanna og okkar
systkinabarnanna afkomenda þeirra voru mikil og áberandi í samfélaginu.
Fjarlægð milli húsa er ekki mikil á Flateyri, eða um 800 metrar og var enn
minni á uppvaxtarárum okkar.
Frændi var alltaf geðgóður og hófsamur, iðinn, handlaginn og hjálpsamur.
Hann tók ungur ákvörðun um að verða húsasmiður, eins og stór hluti ættleggs
okkar. Enda voru trésmiðir frá Flateyri út um allar grundir á næstu
fjörðum. Að loknu námi okkar frændanna syðra leiddu forlögin og reykvískar
eiginkonur okkar okkur aftur vestur. Þar ákváðu hann og Bjarnheiður, ásamt
tveimur eldri bræðrum sínum og eiginkonum, Gunnari og Ellu, Eiríki og
Rögnu, að byggja sér og fjölskyldum sínum einbýlishús við Unnarstíg 1, 2 og
4. En við Gulla byggðum á Unnarstíg 3. Þetta var magnaður tími og
skemmtilegur. Margt var þar gert sér til skemmtunar, svo sem árleg
götupartí!
Samskiptin milli Heiðu og Gullu og okkar frændanna urðu mikil og náin. Þau
með dæturnar þrjár og við með synina þrjá. En því miður gripu óblíð
náttúruöflin inn í tilveru okkar og 26. október 1995 rústaði snjóflóðið
mikla stórum hluta byggðarinnar á Flateyri, þar með öllum húsum okkar
fjögurra frændanna við Unnarstíginn. Tuttugu einstaklingar fórust í
flóðinu, þ.m.t. tvær bróðurdætur Guðjóns. Við tveir vorum hins vegar svo
ólýsanlega heppnir að fjölskyldur okkar lifðu flóðið af, þótt húsin færu í
mél. Er það án efa ein af ástæðum þess að Guðjón og Heiða, og Gulla og ég,
ákváðum að gera okkur ný heimili á Flateyri, enda skýr vilji barnanna að
búa þar áfram. Enn á ný höguðu aðstæður málum þannig að við urðum áfram
nágrannar, þau í nýbyggingu á Grundarstíg 5 en við fengum hús foreldra
minna, Grundarstíg 2, gefins frá fjölskyldunni, sem við endurgerðum og
stækkuðum.
Þarna undirstrikaði frændi minn elju sína, fagmennsku og þrautseigju við
byggingu nýs einbýlishúss, á milli þess að hann sótti sjóinn á trillunni
sinni eða vann að trésmíðaverkefnum á Flateyri. Vandað var til hvers
einasta smáatriðis við allt sem hann tók sér fyrir hendur, enda skipti ekki
máli hvort það kláraðist strax, því vanda varð til þess sem lengi átti að
standa. Á meðan dvaldi fjölskyldan í sumarbústað sem komið var fyrir á
lítilli lóð beint á móti byggingarlóðinni. Bústaðurinn var hluti sumarhúsa
sem húsnæðislausir þolendur flóðsins fengu húsaskjól í til
bráðabirgða.
Það voru því áfram fjölmargar samverustundirnar á Grundarstíg 2 og 5, þar
sem frásagnargleði frænda fékk að njóta sín, enda var hann einstakur
sögumaður! Stundum var okkur strítt með því að við værum alltaf að segja
sömu sögurnar en auðvitað er það ósatt. Guðjón gaf sér ótrúlegan tíma til
að aðstoða mig við hin ýmsu verkefni á G2, svo sem parketlagningu og
fleira, en stundir mínar hjá honum voru ekki margar endurgoldnar.
Eiginkonur okkar hafa ætíð verið miklar vinkonur og deila sorg og gleði
saman eins og góðir vinir gera. Það er því miður þannig að meira álag er
sett á suma en aðra og þannig hefur það verið hjá þessum góðu vinum okkar,
Heiðu og Guðjóni og dætrum þeirra.
Um mitt sumar 2014 dundi svo enn eitt óveðursskýið yfir vini okkar. Yngsta
dóttir þeirra, þá 21 árs, fékk heilablæðingu, sem gekk ótrúlega hratt til
baka, en þegar allt virtist á réttri leið dundi ógæfan aftur yfir nokkrum
mánuðum síðar og hún fékk enn öflugri heilablæðingu. Frá þeirri stundu má
segja að allt heimilislíf Heiðu og Guðjóns hafi umturnast og Heiða sneri
sér algerlega að því að annast dóttur sína 24/7/365.
Dóttirin, Katrín Björk, hefur sýnt ótrúlegt þrek og jákvæðan lífsvilja í
baráttu sinni við að yfirvinna afleiðingar blæðinganna. Blæðingar sem
raktar eru til svonefndrar arfgengrar heilablæðingar, sem hrjáir of margar
fjölskyldur á Íslandi. En vonir standa til að horfi nú fram á betri tíð með
lyfi sem mágur Heiðu hefur verið að þróa og talið er geta haldið þessum
vágesti niðri og gert lífslíkur þessa hóps jafnar öðrum. Katrín Björk er
mörgum Íslendingum að góðu kunn, þar sem hún hefur verið ófeimin við að
miðla af lífsreynslu sinni og smitandi lífsvilja.
Það gerist síðan fyrir nokkrum árum að Guðjón fær sjálfur heilablæðingar,
sem bundu hann við hjólastólinn og þurfti hann að flytjast á
hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði, þar sem hann bjó síðustu árin. Lífið
hefur því ekki verið okkar góðu vinum auðvelt síðastliðinn áratug. Ég get
þó engan veginn lýst með nægjanlega skýrum hætti hvernig fjölskyldan hefur
komist í gegnum þessa erfiðleika án þess að brotna. Það er eiginlega
ofurmannlegt hvernig Heiðu og fjölskyldu hefur tekist að fást við öll
áföllin. Því miður hafa fleiri systkini Guðjóns og afkomendur þeirra þurft
að heyja hliðstætt stríð, en það er önnur saga.
Við Gulla biðjum Höfuðsmiðinn að umvefja Guðjón með kærleik og umhyggju
sinni, um leið og við sendum Heiðu og fjölskyldunni allri okkar einlægustu
samúðarkveðjur vegna andláts Guðjóns og biðjum almættið að vernda hana,
dætur og fjölskyldur þeirra um ókomin ár.
Eiríkur Finnur Greipsson, Guðlaug Auðunsdóttir.