Knút Petur í Gong fæddist í Þórshöfn í Færeyjum 27. júlí 1950. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 19. júlí 2024.

Foreldrar hans voru Jenny Hentze í Gong, f. 3.5. 1916, d. 21.5. 1987, og Petur í Gong, f. 4.8. 1923, d. 15.5. 2003.

Knút ólst upp í stórum systkinahópi, en hann átti fimm systkini: Janus, f. 18. júní 1947, látinn, Sámal, f. 28. október 1948, Elsebeth, f. 16. nóvember 1951, Marjun, f. 18. ágúst 1953, og Helgi, f. 4. júlí 1955.


Knút gekk í barnaskólann í Þórshöfn og svo í verslunarskólann. Á sumrin var Knút á sjó frá 14 ára aldri og sigldi meðal annars til Grænlands. Eftir verslunarskólann lá leiðin til Danmerkur þar sem hann fór í frekara nám í verslun og viðskiptafræði.

Þegar Knút var um tvítugt kynntist hann Marjun Joensen, fyrri eiginkonu sinni. Þau giftust og eignuðust þrjá drengi saman, þá Jón, f. 11. ágúst 1971, maki Elisa Dam Joensen, Petur, f. 4. júní 1974, maki Sonja í Gong, og Malvinus, f. 6. apríl 1976, maki Henny Vest. Knút og Marjun skildu þegar drengirnir voru ungir.


Knút kynntist árið 1984 eftirlifandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Sigurðardóttur, f. 28. júlí 1954. Þau eiga tvö börn saman: Sigríði Huld Blöndal, f. 8. apríl 1982, maki David Tysk, og Kára Blöndal í Gong, f. 15. september 1989. Barnabörnin eru 12.

Þau bjuggu saman í Færeyjum í sjö ár. Knút vann um tíma hjá skattinum í Færeyjum, var með eigin fyrirtækjarekstur og var einnig í pólitík um tíma, en pabbi hans sat í bæjarstjórn í Þórshöfn í um 30 ár. Knút fylgdist alla tíð vel með stjórnmálum og hafði sérstakan áhuga á vestnorræna svæðinu.


Árið 1993 fluttu Knút, Jóhanna, Sigga og Kári til Íslands og bjuggu í Laugarnesinu alla tíð eftir það. Knút var með eigin heildsölu á Íslandi með tengingu við Færeyjar, vann á Færeyska sjómannaheimilinu og keyrði ferðamenn um landið hjá Hópbílum.

Útför Knút Peturs hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku hjartans pabbi minn. Það er svo sárt að kveðja þig og mikið sem ég sakna þín. Minningar streyma til mín og þá mikið frá þeim árum þegar við bjuggum í Færeyjum. Að alast upp í Þórshöfn í Færeyjum var yndislegt og það sem maður býr að því alla ævi að hafa búið í því góða og fagra landi.

Þegar ég var yngri man ég vel eftir þátttöku þinni í stjórnmálum í Færeyjum, þú sinntir eigin fyrirtækjarekstri og varst vinmargur. Þú varst gríðarlega fróður um Færeyjar og fólkið í Færeyjum og gast rakið ættartengsl fólks langt aftur í ættir og frá hvaða eyjum fólkið var.

Færeyjar, eyjarnar 18, brattar og tignarlegar, þínir heimahagar þar sem þú ólst upp á ástríku heimili í sex systkina hópi. Þú fórst ungur á sjóinn og sigldir aðeins 14 ára gamall til Grænlands. Þú varst hinn allra duglegasti, byggðir nokkur hús, rakst fyrirtæki og gafst fólki í kringum þig alltaf nægan tíma. Það var aldrei stress að fara þegar einhver vildi spjalla, þú sýndir fólki áhuga og gafst því tíma, það var einstakt.

Þú hafðir mikinn áhuga á stjórnmálum og oft sátum við saman og ræddum færeysk stjórnmál og alþjóðamál. Vestnorræna svæðið vakti áhuga hjá þér og þar áttum við það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á þróun vestnorræna svæðisins; Færeyja, Íslands og Grænlands, og áhuga á þróuninni á norðurslóðum. Þegar ég starfaði mikið í þessum málaflokk varstu iðinn að senda mér greinar um þessi mál og þar á ég fjársjóð af efni frá þér pabbi minn. En þetta lýsti þér svo vel elsku pabbi, þú sýndir því áhuga sem maður tók sér fyrir hendur og hvattir mann áfram, þetta gerðir þú svo vel. Faðir þinn hafði setið í um 30 ár í bæjarstjórn í Þórshöfn og þú fékkst umræðuna beint inn á heimilið hvernig hin ýmsu mál fóru fram á vettvangi stjórnmálanna. Þú varst rökfastur og réttsýnn maður og það var alltaf gott að ná spjalli við þig um hin ýmsu mál. Gefandi og fróðleg samtöl pabbi minn sem ég bý alltaf að en sakna nú svo mikið að geta ekki spurt þig um hitt og þetta sem tengist Færeyjum og fleiri lífsins verkefnum og vangaveltum. Ég verð þér ætíð þakklát fyrir alla hvatningu og hvernig þú sýndir þinn kærleika í verki.

Á hverju ári ferðaðist þú til heimalandsins Færeyja og dvaldir þar í mánuð í senn. Það var yndislegt fyrir þig að halda þessari sterku tengingu við Færeyjar, alla stórfjölskylduna og vini. Á Íslandi hafðir þú virkilega gaman af því að fara í sveitina, í fallega Borgarfjörðinn með mömmu á hennar heimaslóðir. Þar nutuð þið þess að vera saman og tókuð virkan þátt í ferðaþjónustufyrirtæki fjölskyldunnar. Einnig fannst þér gaman að fara í sveitina að stússa með Kára bróður í hinum ýmsu útiverkum og hafðir ánægju af því að vera í kyrrðinni í sveitinni.

Þú hafðir nefnilega gaman af því að ferðast, þótt þú værir einnig afar heimakær. Þið mamma kunnuð að hafa það huggulegt saman, voruð samrýnd og hamingjusöm.

Þú varst duglegur að halda góðu sambandi við syni þína þrjá í Færeyjum og varst ríkur af afabörnum, sem nú eru tólf talsins, búsett í Færeyjum, Íslandi og Danmörku. Það sem þú varst stoltur af þeim öllum. Og á sama hátt og þú hvattir mig og Kára bróður þá sá ég hvernig þú hvattir þau og fylgdist áhugasamur með hvað þau tóku sér fyrir hendur.
Drengirnir mínir þrír sakna góða afa síns og við elskum þig öll svo mikið og erum þér þakklát fyrir allar dýrmætar stundir og minningar saman. Þessar minningar verða okkar fjársjóður inn í framtíðina.
Ég mun ávallt hugsa um þinn kærleika og góðmennsku þegar ég tek skrefin áfram í lífinu og Færeyjar munu alltaf eiga stóran hluta í hjarta mínu eins og þú, pabbi minn.
Nú er komið að kveðjustund og það er svo sárt að kveðja þig. En eins og þú sagðir nokkrum dögum fyrir andlát þitt: Lífið er gjöf eða á færeysku Lívið er ein gáva, og þau orð þín hljóma með mér og okkur fjölskyldunni. Þú gafst mér hina stóru gjöf að verða minn elskandi pabbi og ég þakka þér fyrir hverja stund sem við fengum saman í þessu lífi. Við sjáumst aftur einn daginn pabbi minn. Hvíldu í friði og blessuð sé minning þín. Að lokum set ég textabrot úr laginu okkar elsku hjartans pabbi minn:

Babba kom og set teg her,
Og eg skal syngja fyri tær,
Um eitt lítið hjarta sum er mær nær,
Eingin er sum tú í hesi verð.

Í huga mínum altíð tú,
So tá eg tegni tegni eg,
Lítla heita hjarta sum varðir meg,
Og vita skalt tú at eg elski teg.

Þín elskandi dóttir,

Sigríður Huld (Sigga).