Sveinbjörn Garðarsson fæddist á Höfn í Hornafirði 8. apríl 1953. Hann lést á heimili sínu, að Þverási 1, 110 Reykjavík, 4. september 2024.

Foreldrar hans eru Jóhanna S. Júlíusdóttir, f. 31. júlí 1935, og Garðar Bjarnason, f. 3. júní 1932, d. 22. desember 1991. Systkini Sveinbjarnar eru Kristín Sigríður, f. 10. nóvember 1956, Guðný Júlíana, f. 15. desember 1959, Eiríkur Ingi, f. 12. maí 1963, og Snorri Freyr, f. 25. nóvember 1973.

Árið 1977 kvæntist Sveinbjörn Björgu Stefánsdóttur, foreldrar hennar voru Stefán Ólafsson verkfræðingur, f. 21. júlí 1924, d. 17. janúar 1975, og Kristín Árnadóttir sjúkraliði, f. 12. júní 1925, d. 13. maí 2014.

Börn Sveinbjarnar og Bjargar eru: 1) Kristín Halla, f. 30. desember 1977, maki hennar er Ómar Davíðsson, börn þeirra eru Sveinbjörn Orri, f. 2006, Friðrik Pétur og Davíð Óli, f. 2011. 2) Gunnhildur, f. 12. júní 1979, maki hennar er Helgi Gíslason, börn þeirra eru Sigurbjörg, f. 2007, Þórhildur, f. 2010, og Júlíus, f. 2018. 3) Haukur Þór, f. 21. september 1993, sambýliskona hans er Hildur Arnbjargardóttir.

Sveinbjörn útskrifaðist sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1972.

Hann vann við ýmis stærri verkefni hjá verktakafyrirtækinu Miðfelli, þ. á m. við Kröfluvirkjun. Hann var sjálfstæður verktaki og bifreiðarstjóri hjá Þrótti þar til hann hóf störf hjá Eimskip 1994 þar sem hann starfaði þar til hann fór á eftirlaun árið 2020, 67 ára. Sér til ánægju seinni árin fór hann að vinna hjá Malbikunarstöðinni þar sem hann hitti aftur sína gömlu góðu vinnufélaga frá árunum hjá Miðfelli.

Sveinbjörn var mikill útivistarmaður. Þau hjónin stunduðu hestamennsku frá unglingsaldri af kappi alla sína tíð. Eins var hann mikill veiðimaður, hvort sem var á fugl, hreindýr eða að renna fyrir fyrir silung. Þau hjónin ferðuðust líka mikið um hálendi Íslands, ýmist á hestum með trúss eða á Fjalla-Raminum sínum.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 16. september 2024, kl. 15.



Maður ekki margra orða
maður sem aldrei barmaði sér
maður sem hægt er var að stóla á
maður sem var góður faðir
maður sem var vinur í raun
maður sem var þrautseigur.

Það er margt að minnast um hann föður okkar. Tárin renna, renna yfir óréttlætinu, sorginni, missinum. Pappi þurfti að ganga í gegnum mikla erfiðleika í sínum veikindum. Það er óendanlega sárt að horfa uppá sterka góða pabba sinn þurfa að þjást svona mikið og að lokum sjá líkama hans gefast hægt og rólega upp. En hugur hans gafst aldrei upp. En á endanum komu vonbrigðin og sorgin yfir því að ekki var hægt að gera meira og aldrei kvartaði pabbi.

Foreldrar okkar kynntust á unglingsárunum í gegnum hestana. Svo það má segja að við systur höfum fæðst inní hestamennskuna. Og varð þeirra áhugamál að okkar. Óteljandi reiðtúrar og ómældur tími í hesthúsinu með foreldrum okkar eru dýrmætar minningar sem hægt er að ylja sér við. Aldrei fórum við á 17 júní niður í bæ, það var frekar farið í hestaferðir. Á þingvöll, Hengil o.fl. fallega staði. Pabbi var kletturinn í lífi okkar, var þarna á sínum stað og alltaf hægt að leita til hans með allt og ekkert. Hann var ekki maður margra orða en gaman var að hlusta á hann segja sögur, af fyrri tíð. Eins vissi pabbi allt. Minnisstæðar eru draugasögurnar frá Bæ í Lóni og skemmtilegar minningar frá hans æskuárum og ævintýrum í t.d við að temja hesta. Þau áttu rauðskjóttan hest sem var mikill villingur. Og margar sögur af þeim hesti. Einn veturinn þurfti að koma klárnum ofan af Kjalarnesi í bæinn. Þegar hestaflutningabílstjórinn sá hvaða hestur þetta var, harðneitaði bílstjórinn að taka hann á bílinn, Því nokkru áður hafði klárinn brotið allt og bramlað í hestabílnum hans. Svo úr varð að pabbi þurfti að ganga með Skjóna í bæinn ofan af Kjalarnesi útí Kópavog. Það eru margar sögurnar af pabba okkar úr hestamennskunni.

Pabbi var menntaður búfræðingur frá Hvanneyri. En heyofnæmi kom í veg fyrir að hann gæti sinnt alvöru bústörfum, sem var hans draumur. Hann vann sem flutningabílstjóri, lengst af hjá Eimskip. Hann keyrði mikið útá land og lenti í ýmsum ævintýrum og lífsháska á sínum ferðum.
Pabbi var mikill veiðimaður, fór á rjúpu og gæs og stundum hreindýr. Eins hafið hann mikið dálæti á að grípa í veiðistöngina, fara á Þingvöll og renna fyrir silung, eða útá sjó á Svartfugl. Við systur gáfumst oft upp á að elta hann á rjúpu, ótrúlegt en satt þá var bara alls ekki hægt að halda í við hann. Hann stikaði ótrauður áfram á sama hraða, hvort sem það var upp eða niður brekkur og hann gat gengið klukkustundum saman. Og svo má segja að hann hafi farið þannig í gegnum lífið, ótrúlega ósérhlífinn. Haukur bróðir var ekki hár í loftinu þegar hann fór að sýna veiðinni hjá pappa mikinn áhuga. Fóru þeir feðgar í margar minnisstæðar veiðiferðir sem hafa mótað Hauk af þeim mikla veiðimanni sem hann er í dag. Pabbi var líka einstaklega góður afi. Þegar hann var að keyra trailerana sendi Kristín einn og einn afastrák til hans í vinnuna. Þeim fannst það mikið sport. Tvíburarnir töluðum stundum um að afi væri að keyra með kubba í vinnunni og að þar sem hann væri að vinna væru allir að kubba í vinnunni á gámasvæði Eimskips. Pabbi hjólaði mikið í og úr vinnu og stundum í seinni tíð sótti hann yngsta afastrákinn á leikskólann, honum fannst mikið gaman að þegar afi hjólaði með hann heim.

Það veður skrýtið að heyra ekki röddina hans, fá ekki faðmið og hlýjuna og ráðin frá honum. Fá ekki að sjá hann aftur. Svo minnistætt að heyra frá honum hæ elskan, gaman að fá þig .
Mamma hefur misst mikið, sinn lífsförunaut og besta vin til nærri 55 ára. Við systkinin stöndum þétt saman og pössum upp á hana. En, elsku pabbi, við trúum því að þú sért kominn í sumarlandið góða, þar sem bíða þín margir góðir bæði hestar og menn. Þar til næst elsku pabbi og takk fyrir allt.

Þínar dætur

Kristín Halla og Gunnhildur.