Sigrún Ásdís Ragnarsdóttir fæddist á Lokinhömrum í Arnarfirði 16. desember 1934. Hún andaðist á Lögmannshlíð á Akureyri 3. október 2024. Foreldrar hennar voru Guðbjartur Ragnar Guðmundsson, f. 9.9. 1900, d. 27.1. 1963, og Halldóra Júlíana Andrésdóttir, f. 3.7. 1903, d. 26.4. 1990. Uppeldisforeldrar hennar voru Jónas Magnús Sigurðsson, f. 11.1. 1890, d. 10.1. 1957, og Sigríður Jónasína Andrésdóttir, f. 1.11. 1895, d. 10.3. 1992. Sigrún á eina alsystur, Lilju Ragnarsdóttur, f. 22.4. 1946. Hálfsystkin Sigrúnar eru: Sigríður, f. 1924, d. 1998, Gunnar, f. 1926, d. 2019, Ólafur, f. 1927, d. 1948, Guðmundur, f. 1930, d. 1981, Grétar, f. 1933, d. 1952, Anika, f. 1934, Bergþóra, f. 1937, Höskuldur, f. 1942, d. 2021, og Halla, f. 1943, d. 1950. Uppeldissystkin Sigrúnar eru: Þuríður, f. 1922, d. 1967, Ólafía, f. 1923, d. 2014, Sigurjón Guðbjartur, f. 1925, d. 2008, Andrés Gunnar, 1929, d. 2013.
Sigrún giftist eiginmanni sínum Ragnari Valdimarssyni, f. 10.02. 1935, d. 31.3. 2011, frá Akureyri, þann 17. júní 1958. Foreldrar Ragnars voru Valdimar Kristjánsson, f. 28.6. 1910, d. 5.7. 1975, og Þorbjörg Stefanía Jónsdóttir, f. 25.5. 1902, d. 20.7. 1983. Börn Ragnars og Sigrúnar eru: 1) Ragna Dóra Ragnarsdóttir, f. 15.1. 1959, d. 2.8. 2002. Synir Rögnu Dóru eru: Jónas Atli Kristjánsson, f. 3.12. 1983, kvæntur Eydísi Evu Ólafsdóttur, f. 16.9. 1988, og Garðar Darri Gunnarsson, f. 11.11. 1993. Dætur Jónasar Atla og Eydísar Evu eru: Ragna Dóra, f. 11.9. 2012, og Heiðdís Heiða, f. 22.7. 2015. 2) Jónas Magnús Ragnarsson, f. 7.3. 1961, kvæntur Aðalheiði Eiríksdóttur, f. 21.5. 1963. Börn Jónasar og Aðalheiðar eru: Eiríkur Jónasson, f. 2.2. 1987, kvæntur Kristínu Guðrúnardóttur, f. 19.5. 1989, og Sigrún Arna Jónasdóttir, f. 11.1. 1994. Dætur Eiríks og Kristínar eru: Hrafney, f. 18.9. 2014, Iðunn, f. 10.6. 2016, og Urður, f. 19.2. 2018. 3) Sóley Ragnarsdóttir, f. 25.2. 1975, sambýlismaður Bjarki Páll Jónsson, f. 17.2. 1969. Sonur Bjarka Páls er Arnar Páll, f. 24.6. 1999.
Sigrún ólst upp á Lokinhömrum hjá móðursystur sinni Sigríði og manni hennar Jónasi. Skólaganga hennar hófst heima og síðan fór hún að Núpi í Dýrafirði og tók þaðan landspróf, að lokum lá leiðin í Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Áður en Sigrún gekk í hjónaband dvaldi hún í Reykjavík á veturna og tók að sér ýmis störf, var m.a. í vist og á Landakoti en lengst vann hún í Kjötbúðinni Borg. Sumrunum varði hún í dalnum sínum sem var henni svo kær. Sigrún gifti sig og flutti alfarið til Akureyrar 1958 og starfaði þar sem verslunarmaður, lengst af í sérvörudeild Hagkaups.
Útför Sigrúnar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag,  14. október 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það eru engin orð sem geta lýst þeirri gæfu að vera dóttir Sigrúnar Ásdísar Ragnarsdóttur sem ég ætla nú að minnast. Móðir mín fæddist vestur á fjörðum í Lokinhamradal sem í mínum huga er sveipaður töfraljóma sem og fólkið sem þar bjó. Þennan ljóma skapaði móðir mín þegar hún sagði mér frá uppvextinum. Oft hefur verið líf og fjör enda mörg börn í dalnum þegar móðir mín er að alast upp hjá móðursystur sinni Sigríði og manni hennar Jónasi Magnúsi sem hún kallaði alltaf mömmu og pabba. Fyrir áttu þau fjögur börn og varð mamma ein af hópnum. Hálfsystkinin voru sex á næsta bæ sem með tímanum urðu níu. Á heimilinu var einnig Sigurður Guðni faðir Jónasar sem var mömmu afar kær. Hún minntist hans oft og þá sérstaklega hvað það var gott að kúra í skegginu hjá afa. Þar var öryggið og krakkinn vissi það upp á hár því þegar hún var búin að gera eitthvað af sér þá tilkynnti hún öllum: Afi á rassinn fór svo og faldi sig í skegginu.

Dalurinn mótaði mömmu. Hún vissi ekkert fallegra en þetta tilkomumikla, harðgera landslag og tíðrætt varð henni um brimið fyrir vestan. Hún talaði um fjöllin Skjöldinn og Skeggja sem útverði dalsins og þangað sótti hún kraft þegar gaf á bátinn í lífsins ólgusjó. Hún tók þátt í búskapnum frá blautu barnsbeini eins og vera bar. Einnig var hún mikil veiðikló og dró björg í bú með því að veiða silung í ánni, Hundafossinn var henni gjöfulastur. Hún var í góðum samskiptum við föður sinn Ragnar og móðir hennar Halldóra sendi alltaf gjafir til dóttur sinnar. Mamma á eina yngri alsystur, Lilju, sem var henni afar kær. Mamma var stolt af upprunanum og öllu sínu fólkinu. Var mikill Vestfirðingur, allt var talsvert betra þegar það var að vestan. Sauðféð bar af! Dropi eina lýsið sem blífur og Örnuskyrið langbest!

Mamma var góður námsmaður, varð snemma læs og var svo vel undirbúin þegar hún byrjaði í barnaskólanum á Þingeyri að hún var flutt upp um bekk. Leiðin lá síðan í Héraðsskólann á Núpi þar sem hún var samtíða hálfsystrum sínum Aniku og Bergþóru og lauk þaðan landsprófi. Sautján ára liggur leiðin til Reykjavíkur og þar sem hún var á veturna en hún fór alltaf heim í dalinn sinn á sumrin til að leggja hönd á plóg. Alltaf bakaði Kristín eiginkona Ragnars uppáhaldskökuna hennar mömmu þegar von var á henni í sveitina.

Fyrir sunnan tók hún að sér ýmsa vinnu og safnaði sér fyrir Húsmæðraskólanum á Laugavatni, sem hún sótti veturinn 1954-55 ásamt Aniku systur sinni. Lengst vann hún í Kjötbúðinni Borg en einnig á Landakoti og nunnurnar hvöttu hana til náms í hjúkrun. Árið 1956 var mamma á leið til Kaupmannahafnar til náms þegar fréttir bárust af veikindum Jónasar pabba hennar og fór hún því vestur til að hjálpa til. Hún kynnist pabba sumarið eftir 1957 þegar hann var að vinna við Mjólkárvirkjun fyrir vestan. Þeirra fyrstu kynni eru þegar mamma húkkar far yfir fjörðinn. Þ.e. hún fékk tog fyrir bátinn sem hún og hennar fólk kom með yfir fjörðinn á mannamót. Um borð var pabbi ásamt fleiri ungum mönnum og var hann stundum kallaður presturinn af félögum sínum. Einn þeirra segir við pabba í gríni hvort presturinn geti ekki gift hann og mömmu. Pabbi neitaði þessari bón með þeim orðum að hann ætlaði að giftast henni sjálfur sem hann og gerði árið 1958 í Lystigarðinum á Akureyri. Ári síðar fæðist þeim dóttir, Ragna Dóra systir mín sem kvaddi allt of snemma árið 2002. Jónas Magnús bróðir minn kemur svo í heiminn 1961.

Mamma var fertug 1975 þegar hún eignast mig. Baslið við að koma undir sig fótunum að baki og blómið ég fékk að njóta þess. Þegar ég hugsa til baka þá átti hún alltaf allan tímann í heiminum fyrir mig. Við vorum mikið einar heima, eldri systkini mín flogin úr hreiðrinu og pabbi svo vikum skipti í vinnu úti á landi. Ég man eftir morgunkúri, taktföstu suðinu í Pfaff-saumavélinni Pálínu á meðan ég teiknaði ódauðleg listaverk. Við fórum í sund og allskonar ævintýraferðir og alltaf var mamma að benda mér á og kenna. Ég man ekki hvað öll örnefnin eða hvað blómin og fuglarnir heita en hún kenndi mér líka að horfa á náttúruna, litina og sleppa ímyndunaraflinu lausu, það eru álfar, tröll og góðar vættir út um allt þegar vel er að gáð. Ég man eftir notalegum kakóstundum, spjalli með þeyttum rjóma. Það var hægt að tala við mömmu um allt og aldrei kom maður að tómum kofunum, hún var fróð, víðlesin og fylgdist vel með. Segja má að hún hafi verið mannlegur vafri sem ég fletti óspart upp í á námsárum mínum. Auk þess að vera skemmtilegur og hrífandi sögumaður þá elskaði mamma bækur, krossgátur og íslenska tungu sem vafalaust hafði áhrif á mig þegar ég ákvað að nema íslensku við HÍ. Það var ekki bara ég sem mamma hafði áhrif á. Hún aðstoðaði öll barnabörnin við heimanámið á einhverjum tímapunkti. Auk þess veit ég að stúlkurnar, sem sinntu henni af mikilli alúð frá heimaþjónustunni Akureyrar um árabil, fengu sumar orð dagsins í kaupbæti þegar þær kvöddu hana og allar lærðu þær að gadda bæinn, þ.e. að loka og læsa á eftir sér.

Mamma hafði einlægan áhuga á samferðafólki sínu og var vinamörg. Endurspeglast það best fingurbjargasafninu hennar, en það telur þúsundir frá öllum heimshornum. Gjafir frá vinum og vandamönnum sem gripu með sér fingurbjörg handa mömmu á ferðum sínum. Mamma var alltaf að safna einhverju og þegar hún hætti að safna fingurbjörgum byrjaði hún að safna sólargeislum. Þá fann hún út um allt, í fallegum blómum, brosi frá afgreiðsludömu, spjalli við vinkonur, innliti frá starfsfólki í umönnun og samveru með sínum nánustu. Hún fangaði marga sólargeislana, því skein ljós hennar skært í fallega brosinu sem hún var gjöful á. Hún var sjálf sólin og heldur áfram að skína í sumarlandinu, góða ferð elsku mamma, það er búið að gadda bæinn. LH kveðja, blómið þitt besta,


Sóley Ragnarsdóttir.