Jón Guðjónsson fæddist í Arnartungu í Staðarsveit 10. júlí 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akranesi 6. október 2024.
Foreldrar hans voru Guðjón Pétursson, f. 6.5. 1894, d. 7.8. 1968, og Una Jóhannesdóttir, f. 12.9. 1908, d. 21.1. 1996. Systkini Jóns eru Þorbjörg, f. 27.5. 1927, d. á unga aldri, Pétur Ingiberg, f. 25.5. 1928, d., Jóhannes Matthías, f. 14.7. 1929, d., Jóhann Kjartan, f. 30.11. 1930, d., Vilhjálmur Maríus, f. 4.3. 1932, d., Sveinn, f. 8.10. 1933, d., Gunnar Hildiberg, f. 11.10, 1934, d., Ólína Anna, f. 8.4. 1937, d., Guðmundur Björn, f. 23.9. 1938, d., Magnús Sigurjón, f. 1.10. 1940, d., Soffía Hulda, f. 18.3. 1942 og Vilborg Inga f. 1.5. 1950, d.
Jón giftist 30. desember 1948 Sigrúnu Níelsdóttur frá Seyðisfirði. Þau eignuðust átta börn, þau eru: 1. Ingunn Jóna, f. 14.1. 1950, gift Ólafi Skagfjörð Gunnarssyni, börn þeirra eru Ólafur Skagfjörð, d., Sigrún Anna, Sigurbjörg Þórey og Jón Ingi. 2. Níels Óskar, f. 4.2. 1952, fv. eiginkona er Halla Guðrún Hallvarðsdóttir. Börn þeirra eru Sigrún, Hallvarður og Heiða Rós. 3. Guðjón Pétur, f. 4.6. 1953, giftur Ástu Halldóru Guðmundsdóttur. Dætur þeirra eru Helga Rún og Una. 4. Jón Magnús, f. 30.11. 1954, giftur Rut Hjartardóttur. Börn þeirra eru Hjörtur, Dagný og Harpa. 5. Guðrún Katrín, f. 20.12. 1956, gift Þorgrími Karlssyni. Sonur þeirra er Þór Breki. 6. Hjálmar Þór, f. 28.12. 1957, giftur Ernu Thienelt Þorkelsdóttur. Dóttir þeirra er Katrín Erika. Fv. eiginkona Jónína Heiðarsdóttir. Dóttir þeirra er Sigrún Björk. 7. Smári Hrafn, f. 23.8. 1959, giftur Guðbjörgu Níelsdóttur Hansen. Dætur þeirra eru Kristbjörg, Ragnheiður og Eygló. Fv. eiginkona Margrét Vífilsdóttir. Dóttir þeirra er Guðrún Dúfa. 8. Inga Ósk, f. 25.10. 1961, gift Gísla Runólfssyni. Börn Gísla eru Halldór Hallgrímur, Gísli Kristinn og Ragnheiður Rún. Fv. eiginmaður Hálfdán Ingólfsson. Börn þeirra eru Sólmundur Ósk og Jóndís.
Jón ólst upp á Gaul í Staðarsveit og hóf þar sína fyrstu skólagöngu. 12 ára réði hann sig í vegavinnu, um tvítugt réði hann sig sem vinnumann að Staðarfelli í Dölum. Þar kynntist hann eiginkonu sinni Sigrúnu Níelsdóttur og hófu þau búskap á Seyðisfirði árið 1949. Þau fluttu síðan á Akranes árið 1951 og bjuggu þar alla tíð síðan. Jón fór í Vélskólann á Akureyri og starfaði sem vélstjóri til sjós þar til hann réði sig sem vélstjóra hjá HB og co. og starfaði þar alla tíð síðan að undaskildum tveim árum þegar hann tók að sér saltfiskverkun fyrir Vilhjálm bróður sinn og Helga Ibsen sem voru þá saman í útgerð. Jón sat í hafnarnefnd fyrir Framsóknarflokkinn og var virkur félagi í Lionsklúbbnum á Akranesi og var gerður að heiðursfélaga klúbbsins. Helstu áhugamál hans voru sauðfjárrækt og hestamennska.
Útför Jóns verður gerð frá Akraneskirkju í dag, 14. október 2024, kl. 11.
Þegar maður hugsar aftur í tímann þá er af svo miklu að taka af dýrmætum minningum að það er erfitt að velja úr í minningargrein.
Pabbi var mín helsta fyrirmynd og besti vinur, skapgóður og glettinn dugnaðarþjarkur sem kom ásamt móður minni átta börnum til manns. Það sem að baki lá var mikill dugnaður og mikil vinna. Þau voru bæði, foreldrar mínir, harðduglegt fólk. Mamma sá um heimilið af miklum myndarskap og pabbi vann myrkranna á milli til að sjá fyrir stóru heimili. Það hefur örugglega ekki alltaf verið einfalt að reyna að hafa stjórn á stórum barnahóp, við erum átta systkinin og það fór stundum talsvert fyrir okkur. Þau reyndu þó að halda uppi aga og að kenna okkur góða siði. Sérstaklega búum við að því að vera alin upp í að vinnusemi væri dyggð og það væri mikilvægt að standa sig vel í því sem maður tæki sér fyrir hendur. Það þýddi nú ekki mikið að bera við lasleika ef maður átti að mæta í vinnu eða skóla. Fram úr rúminu og af stað ef ekki var um verulega alvarleg veikindi að ræða. Tannpína, höfuðverkur, magapína og þess háttar taldist vera smávægilegt og ekki til þess fallið að teljast ástæða til fjarvista. Sjálfur tók hann varla veikindadag alla sína starfsævi.
Frá því að ég man fyrst eftir mér var pabbi vélstjóri í frystihúsi H.B. og co. á Akranesi. Það var vinnan hans en hann var alinn upp í sveit og hafði alltaf mikinn áhuga á skepnum, var það sem hann kallaði hálfur bóndi. Það fól í sér að eiga kindur og um tíma hænur og svo seinna meir hesta. Hann hafði afskaplega gaman af þessu stússi í kringum skepnurnar, heyskap, sauðburði, réttum og svo seinna meir öllu í kringum aðaláhugamálið sem var hestamennskan.
Pabbi hafði verið hestamaður sem ungur maður og tók svo upp þráðinn eftir fimmtugt, enda flest börnin flutt að heiman og rýmri tími til að sinna áhugamálum. Ég fylgdi honum eftir í hestamennskunni og við áttum óteljandi gæðastundir við að sinna hrossunum, ríða út og fara saman í hestaferðir. Hann hafði ekki þolinmæði í að ríða fetið og því voru reiðtúrarnir okkar oft ansi röskir og við höfðum bæði gaman af. Viljugir töltarar voru í uppáhaldi og honum þótti ekki tiltökumál þó einhverjir brestir slæddust með eins og kergja. Það var þá bara skemmtilegt verkefni og tekist á við slíkt af þolinmæði. Hann hafði ekki trú á að hlífa mér neitt sérstaklega þegar ég var að byrja að fara á hestbak svo dóttirin var bara sett á það sem til var og vandist ég því fljótt á hans reiðmennsku. Seinna kom svo önnur hlið á föður mínum í ljós þegar dætur mínar fóru ungar að sýna hestunum áhuga. Afinn var mjög varkár með litlu dömurnar og þá var hægt að fara í rólyndis reiðtúra og valin sérstaklega traust hross undir litlu skotturnar.
Við fórum í okkar síðustu hestaferð saman þegar hann var 86 ára gamall, þriggja daga ferð þar sem við riðum frá Akranesi og upp á Mýrar þar sem þau mamma áttu sumarbústað. Fyrsta daginn var hann dálítið stirður og þurfti að leita uppi þúfur eða góða steina til að ná að stíga á bak en strax á öðrum degi var hann orðinn mun sprækari og ekki að sjá að þarna færi 86 ára gamall maður. Ekki var heldur riðið fetið fremur en fyrri daginn. Hann hafði verið búinn að ákveða að eftir þessa ferð væri hann hættur útreiðum og stóð við það en kindur hélt hann allt þar til hann flutti á dvalarheimili 96 ára gamall.
Það verður að segjast eins og er að undirritaðri þótti alltaf hestarnir mun áhugaverðari heldur en blessaðar kindurnar. Minningarnar í kringum þetta basl eru þó skemmtilegar og þá sérstaklega hvað pabbi hafði gaman af þessu stússi öllu saman. Hann var alltaf gríðarlega stoltur þegar hann gat fært okkur systkinunum lambalæri eða hrygg úr eigin framleiðslu og var þeirrar skoðunar að ekkert kjöt kæmist í hálfkvisti við lambakjötið úr hans eigin ræktun.
Pabbi tók virkan þátt í ýmsu félagsstarfi svo sem í Framsóknarfélagi Akraness, Lionsklúbb Akraness og hestamannafélaginu Dreyra. Hann var alla tíð framsóknarmaður og lagði mikla áherslu á að við systkinin kynntum okkur áherslur stjórnmálaflokka og nýttum okkur atkvæðisrétt okkar þegar kosningar voru. Hann átti þó til að gleyma sér í framsóknarmennskunni og mér er það minnisstætt þegar ég bjó í Finnlandi, nýkomin með kosningaréttinn og pabbi vildi að sjálfssögðu að ég nýtti mér hann. Hann fékk mömmu til að skrifa mér bréf þess efnis og sendi ýmsa kosningabæklinga með. Mér var ákaflega skemmt þegar ég skoðaði bæklingana og sá að þeir voru eingöngu frá Framsóknarflokknum. Skilaboðin voru skýr, settu x við B.
Pabbi gekk til liðs við Lionshreyfinguna árið 1975 og var félagi í Lionsklúbb Akraness. Ég veit að honum fannst þessi félagsskapur góður og fannst gaman að mæta á fundi. Enda var hann mjög samviskusamur Lionsmaður, mætti á alla fundi og tók þátt í öllum fjáröflunum. Lions sýndi þakklæti sitt og virðingu með því að veita honum þann heiður að gera hann að Melvin Jones-félaga og einnig var útnefndur heiðursfélagi í Lionsklúbb Akraness fyrir áratuga óeigingjarnt starf í þágu líknarmála.
Þegar pabbi byrjaði aftur að stunda hestamennsku þá gekk hann í hestamannafélagið Dreyra á Akranesi og starfaði fyrir félagið í stjórn og nefndum á þess vegum í 10-15 ár.
Mamma féll frá fyrir níu árum og þá höfðu þau verið óaðskiljanleg í 67 ár. Það var mikill missir fyrir pabba en hann var mjög ákveðinn í að missa ekki móðinn og vildi alls ekki einangrast. Hann hellti sér þá á fullt í félagsstarf aldraðra hér á Skaganum og tók þátt í flestu sem í boði var, s.s. boccia, pútt og keila. Félagslega einangrunin sem fylgdi kórónuveirufaraldrinum reyndist honum erfið og þá sótti hann um pláss á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi og flutti þangað í mars árið 2022, 96 ára gamall.
Honum leið afskaplega vel inni á Höfða og var mjög þakklátur fyrir þá góðu umönnun sem hann fékk þar. Honum varð tíðrætt um hversu vel væri hugsað um sig og hvað starfsfólkið væri almennilegt og gott.
Við, aðstandendur, erum einnig afskaplega þakklát starfsfólkinu á Höfða fyrir þeirra atlæti og umhyggju og þá sérstaklega á heimilinu Jaðri þar sem pabbi átti sitt herbergi. Eins erum við þakklát starfsfólkinu á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi sem annaðist pabba síðustu dagana og gerði sitt allra besta til að honum liði vel og að við systkinin fengjum að kveðja hann í friðsælu umhverfi.
Inga Ósk Jónsdóttir