Hjalti Jónsson Guðmundsson fæddist á Hringbraut 99 í Reykjavík 29. febrúar 1948. Hann lést 6. október 2024 á spítala í Hattiesburg.
Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Jón Hjaltason, skipstjóri í Reykjavík, f. 21. september 1923, d. 27. maí 1989, og kona hans Sigríður Jóhanna Sveinsdóttir frá Norður-Fossi í Mýrdal. f. 26. júní 1921, d. 25. janúar 2000.
Systir Hjalta er Jóhanna Margrét, f. 6. júní 1946, hún lifir bróður sinn og býr nú í Þýskalandi.
Hjalti nam í Melaskólanum og frá 10 ára aldri var hann í Austurbæjarskólanum.
Fjölskyldan bjó fyrst á Hringbraut 99 og flutti svo árið 1958 í Hamrahlíð 11 í Reykjavík. Á æskuárum sínum var hann í sveit á Norður-Fossi hjá frændfólki sínu og á unglingsárunum vann Hjalti við ýmis störf og þar á meðal hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Kornungur fór hann að æfa og spila knattspyrnu hjá Val og varð meðal annars Íslandsmeistari árin 1960 og 1962 í sínum aldursflokki. Einnig var hann valinn til æfinga í unglingalandsliðinu en varð frá að hverfa þegar hann fór í flugvirkjanám í Tulsa í Bandaríkjunum þegar hann var 19 ára. Síðan hóf hann störf í olíuiðnaði í Bandaríkjunum og var borstjóri á olíuborpöllum víða um heim þar til hann lét af störfum um 2018 sökum aldurs.
Hann kvæntist Paulu Holcomb Gudmundsson hinn 8. júní 1985 og eftir það bjuggu þau alltaf í Hattiesburg. Hún andaðist 16. maí 2023.
Minningarathöfn fer fram í Valsheimilinu í dag, 26. október 2024, klukkan 13 og einnig í Hattiesburg. Jarðsetning verður við hlið Paulu í borginni þeirra.
Hann Hjalti frændi minn var mér sem barni og unglingi tákn um
mótsögn.
Hann var lifandi dæmi í minni fjölskyldu um klofning sem kærleikurinn einn
gat brúað.
Hlýr og elskulegur, frændrækinn og skemmtilegur með svona gamaldags
karlahúmor, sem er mögulega aftur orðinn fyndinn af því að hann er svo
óviðeigandi.
Hann var hávær og fyrirferðarmikill og nærvera hans var stór og hláturmild.
Það var kannski ekki óvenjulegt í minni fjölskyldu en Hjalti var samt af
annarri tegund.
Því þrátt fyrir alla sína góðu kosti var Hjalti amerískur í versta
skilningi þess orðs.
Ameríka var ekki hátt skrifuð á mínu æskuheimili en samt var Hjalti
aufúsugestur þótt hann væri amerískari en allt sem ég hafði nokkurn tíma
kynnst. Hann var í uppáhaldi hjá mömmu sem ung hafði fóstrað hann og
Jóhönnu systur hans og milli þeirra var alltaf óslítandi strengur.
En Hjalti varð mér samt snemma ráðgáta.
Hann notaði orð eins og sósíalisti í neikvæðri merkingu eins og það væri
skammaryrði sem mér fannst þá mjög óvenjulegt. Hann gat sagt orðið
sósíalisti með jafn mikilli fyrirlitningu og pabbi gat sagt orðið
heimdellingur.
Þeir voru samt hinir mestu mátar og faðir minn bauð Hjalta í lönsa með
sínum vinstrisinnuðu vinum og Hjalti sagði mér löngu seinna að hann hefði
hlegið svo mikið að hann kláraði ekki matinn sinn.
Hjalti fór ungur til Ameríku í flugvirkjanám og var í framhaldinu
sjanghæjaður á olíuborpall og vann síðan alla starfsævi sína við borun og
uppdælingu jarðefnaeldsneytis.
Hann varð verðmætur starfskraftur fyrir Texaco.
Þetta voru ekki beint meðmæli í mínu húsi.
Hann sagði okkur í miðju matarboði að á tímabili hefði hann gengið með
svipu og byssubelti eins og kúreki um vinnustað sinn. Þá var hann nefnilega
verkstjóri og allsráðandi á olíuborpalli undan strönd Afríku. Og okkur við
matarborðið varð ljóst að hann var ekki að grínast. Dr. Reed kölluðu þeir
hann.
Þarna byrjuðu stælar mínir við Hjalta frænda. Það var nefnilega verið að
sýna þættina Rætur í sjónvarpinu, sögu um frelsisbaráttu Kunta Kinte,
afríska drengsins sem var látinn þræla á ökrum kúgara sinna á bökkum
Mississippi.
Ég tók upp hanskann fyrir Kunta og alla hans frændur og setti Hjalta í
ákveðið hlutverk.
Ég man að í miðju samtals okkar voru allir orðnir hljóðir við borðið nema
við frændurnir.
Og þegar honum þótti ég aðeins of fullyrðingaglaður spurði hann mig hlýlega
hvort ég hefði nokkurn tíma unnið á olíuborpalli fyrir strönd Afríku?
Nei það hafði ég unglingurinn ekki gert.
Kannski væri ég bara illa upplýstur?
Hjalti var samt meira en þetta hlutverk, því hann átti til umburðarlyndi og
hlýju sem þoldi vel allan þennan skæting frá ungum frænda sínum. Hann
brosti alltaf eins og sá sem veit betur og hló sínum dillandi hlátri.
Seinna fann ég fyrir þessu sama brosi í gegnum símann þegar hann sagði mér
hvað ég væri illa upplýstur. Ég ætti að horfa á Fox news, þá myndi ég sjá
ljósið.
Það hafði myndaðist þráður á milli okkar sem hélst alla tíð.
Og á bak við þetta hlutverk var manneskja með innsæi og hjarta sem litli
drengurinn ég fann alltaf fyrir. Þetta stóra umvefjandi hjarta sem hann
erfði líklega frá mömmu sinni henni Siggu frænku sem var ein sú hlýjasta og
allt-um-lykjandi manneskja sem ég man eftir.
Ætli það hafi ekki líka verið þess vegna sem ég eitt sinn í örvæntingu
minni leitaði til hans.
Ég hóf samtalið á gamalkunnum nótum okkar í millum og skoraði á hann að
gera eitthvað gott og gagnlegt við sína svörtu olíupeninga. Hætta að
fjárfesta í mýrlendinu við Mississippi og setja þá heldur í íslenska
kvikmyndagerð.
Þetta fannst honum skemmtilegt. Ég þurfti ekki að segja honum mikið meira
um hvernig mynd þetta ætti að vera. Hjalti var on og varð þar með einn af
framleiðendum Hross í oss.
Hann varð einn af liðsmönnum mínum, partur af hópi fólks sem gerði mér
kleift að gera mína fyrstu kvikmynd.
En svo auðvitað varð hann Trumpisti.
Það fannst mér erfitt að skilja.
Ég meina, Hjalti var vel greindur maður en samt vildi hann styðja þetta
tröll til valda.
Hjalti var haldinn því sem Karl Marx kallaði falsvitund og það blindaði
hann. Hann sá ekki veruleikann eins og hann blasti við mér og okkur
sófa-sósíalistum.
Ég sendi Hjalta alls konar róttækan áróður af netinu árum saman í þeirri
von að honum batnaði. En fékk frá honum innsýn inn í hans algóritma sem
fyrir mér var grautur falsfrétta og samsæriskenninga.
Það kom svo í ljós að hann var ekki einn með þennan vírus. Hálf ameríska
þjóðin og annar ritstjóri þessa blaðs sem þessi grein birtist í er enn illa
haldin. Hjalti var því vissulega einn af þessum Nashyrningum á meðal
vor.
En mér þótti vænt um hann. Hann var Nashyrningurinn minn. Honum var vel til
mín og mér til hans. Og það brúaði þetta ginnungagap á milli okkar.
Kannski þarna, í þessari mótsögn, liggur von mannkyns.
Það er allt undir því komið að við getum sýnt hvert öðru umburðarlyndi,
frændsemi, vináttu í verki og verið hvert öðru betri en enginn. Hvort sem
við erum frá Súdan eða Suðurnesjum, Trumpistar, sósíalistar eða
heimdellingar. Valsmenn eða KR-ingar.
Hvíl þú í friði elskulegi frændi minn.
Benedikt Erlingsson.