Hilmar B. Jónsson fæddist 25. október 1942. Hann lést 11. september 2024. Bálför fór fram 16. september 2024.

Svo langt aftur sem ég man æskuárin var árviss sumardvöl í Ljárskógum sjálfsagður hluti tilverunnar. Sú skipan var vinsæl hjá okkur bræðrunum og tilhlökkunin einlæg. Í Ljárskógum beið hlýr faðmur ömmu og móðursystkina, Munda, Veigu og Rögnu og svo var spennandi og skemmtilegt að hitta Hilmar Braga, eða Dengsa frænda sem við nefndum jafnan svo. Hann var í hugum okkar æðstaráð í sveitinni og engin minning er til um Ljárskóga án hans. Sumrin þar voru yndisleg, barmafull af söng og ævintýrum og jafnan sótti þangað sægur barna sem öll voru frændsystkin okkar. Heimilið gestkvæmt og fullt af hlýrri gleði. Líf okkar barnanna var vissulega leikur en líka alvara, agi og vinnusemi. Dengsi var á heimavelli í Ljárskógum frá ungum aldri til unglingsára. Hann þekkti allt, kunni til verka og leiðsögn hans hlýddum við í einu og öllu. Kúasmalar þurftu snemma á fætur. Það þurfti að moka flórinn og þrífa bása. Vatn var borið í íbúðarhúsið úr uppsprettulind, tvær fötur settar undir tréramma sem við stigum inn í og auðveldaði burðinn. Við sem yngst vorum þurftum ekki að fylla föturnar. Kýrnar voru handmjólkaðar og í eldhúsi var handsnúin skilvinda og strokkur. Kaffibaunir voru bakaðar í kokseldavélinni og kaffið malað í kaffikvörninni. Öll þessi verk voru líka hluti af starfsskyldum barnanna. Það þurfti að gefa hænunum og tína eggin undan þeim. Dengsi þekkti öll dýrin með nafni og hafði einstakt lag á að láta þau hlýða sér með lipurð og gæsku. Hann þekkti líka landið, álagablettina, hoftóftina í túninu, gamla kirkjugarðinn, kirkjuklettana og hólana í túninu þar sem huldufólkið býr. Hann þekkti silunginn í Ljá, laxinn í Fáskrúð og selina í fjörunni. Hann vissi hvar fjallagrösin vaxa og hvar bestu berjalautirnar eru. Allt heimilisfólkið átti sína hrífu og þegar slætti lauk röðuðum við okkur í flekkinn og snerum töðunni á meðan hún var að þorna, svo var rakað í múga með gömlu rakstrarvélinni sem hestur var spenntur fyrir, saxað í föng og hlaðið í galta. Þannig er æskumyndin af Dengsa mynd af rauðhærðum og freknóttum stórum og sterkum strák sem alltaf var glaður og brosandi. Okkur frændsystkinum hans þótti mikið til um hann og öllum þótti okkur afar vænt um hann.

Jón frá Ljárskógum Þorsteinsson, Sigríður Anna Þórðardóttir.