Jón Guðmundsson fæddist í Neskaupstað 20. apríl árið 1942. Hann lést 17. nóvember 2024.
Foreldrar Jóns voru Guðmundur Sigfússon, kaupmaður og útgerðarmaður í Neskaupstað, f. 25.8. 1909, d. 10.5. 1980, og Sigríður Jónsdóttir húsmóðir, f. 30.10. 1910, d. 27.3. 1975. Systkini Jóns eru Sigfús Ólafur, f. 1940, Ólöf Jóhanna, f. 1946, og Friðrik Jóhann, f. 1949.
Jón kvæntist fyrri eiginkonu sinni, Ásdísi Þórðardóttur, flugfreyju og löggiltum fasteignasala, f. 2.1. 1948, d. 7.7. 1991, þann 25. ágúst 1973. Foreldrar Ásdísar voru Þórður S. Þórðarson, hárskeri og útgerðarmaður, f. 19.3. 1925, d. 24.9. 1994, og Theodóra E. Bjarnadóttir, hárgreiðslumeistari, f. 3.1. 1924, d. 13.6. 2011. Börn Jóns og Ásdísar eru: 1) Arnar Þór, lögmaður, f. 2.5. 1971, maki Hrafnhildur Sigurðardóttir. Börn Arnars Þórs og Hrafnhildar eru Kári Þór, f. 1997, Óttar Egill, f. 2001, Ásdís, f. 2004, Theodór Snorri, f. 2007, og Sigrún Linda, f. 2012. 2) Guðmundur Theodór, löggiltur fasteignasali, f. 24.11. 1974, dóttir Guðmundar Theodórs er Klara Rut, f. 2005. 3) Sigríður Ásdís, vöruhönnuður, f. 27.11. 1977. Börn Sigríðar Ásdísar eru Ásdís Theodóra, f. 2001, Tómas Freyr, f. 2004, og Katrín Jóna, f. 2012. Jón eignaðist Thelmu Sif, viðskiptafræðing, f. 17.8. 1999, með Sigrúnu Magnúsdóttur, f. 1958. Eftirlifandi eiginkona Jóns er Jóhanna Hreinsdóttir, myndlistarmaður, f. 16.8. 1958. Foreldrar Jóhönnu eru Sigrún Ingibjörg Halldórsdóttir kennari, f. 23.4. 1939, og Hreinn Hjartarson prestur, f. 31.8. 1933, d. 28.3. 2007. Börn Jóhönnu eru: 1) Gyða Bergs, flugstjóri, f. 6.4. 1983, maki Steingrímur Aðalsteinsson. Börn Gyðu og Steingríms eru Auður, f. 2017, Karen, f. 2018, og Nói, f. 2021. 2) Steinunn Bergs, hjúkrunarfræðingur, f. 25.6. 1985, maki Aron Sigurðsson. Börn Steinunnar og Arons eru Helena, f. 2014, Viktor, f. 2016, og Kári, f. 2018. 3) Hreinn Bergs, viðskiptafræðingur, f. 24.6. 1991, maki Fanney Jóhannesdóttir. Börn Hreins og Fanneyjar eru Jóhanna, f. 2020 og Mikael, f. 2023.
Jón ólst upp í Neskaupstað á athafnaheimili. Hann lauk stúdentsprófi frá MA 1963, hóf nám í lögfræði sama ár og lauk forprófum. Hann lauk prófi til löggildingar í fasteigna- og skipasölu árið 1989 en á námsárum sínum var hann m.a. verkstjóri hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað og framkvæmdastjóri við byggingu nýrrar síldarbræðslu 1965-67. Jón starfaði við fasteignasölu og eignaumsýslu frá árinu 1972. Hann stofnaði og rak eigið fyrirtæki, Fasteignamarkaðinn ehf., frá árinu 1982, var formaður Félags fasteignasala um sex ára skeið og naut virðingar og trausts allan sinn starfsferil. Jón sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í áratugi, var formaður húsnæðisnefndar Garðabæjar um tíma og sat í ýmsum nefndum á vegum bæjarins. Hann gekk í Rótarýklúbbinn Görðum 1983 og var mikill Rótarýmaður. Jón sat í stjórn Viðlagasjóðs 1973-76, í stjórn Íþrótta- og ungmennafélagsins Stjörnunnar í Garðabæ 1984-1990, var formaður byggingarnefndar félagsheimilis Stjörnunnar frá 1989 og var sæmdur lárviðarsveig félagsins.
Útför Jóns fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 10. desember 2024, klukkan 15.
Fyrir langalöngu, þegar grasið var grænna og fuglarnir sungu hærra, bar fundum okkar Jóns Guðmundssonar saman í gleðskap vaskra unglinga á Norðfirði. Þar stóð hann staffírugur upp úr hópnum, hávaxinn sem hann var, og dró að sér athyglina hrókur alls fagnaðar. Jón var borinn og barnfæddur í Neskaupstað í skjóli tignarlegra fjalla. Hann ólst upp í því athafnasama umhverfi, mat það mikils alla tíð og hugsaði afar hlýtt til æskustöðvanna allt til æviloka. Það fór aldrei á milli mála í öllum samtölum, því Norðfjörð bar ávallt á góma og jafnan fylgdu margar sögur hverju sinni um staðhætti, menn og málefni. Samtölin gátu því á stundum orðið býsna löng og oft mátti hafa sig allan við að koma ætluðu umræðuefni að.
Jón bjó í Neskaupstað þar til hann hóf nám við Menntaskólann á Akureyri
haustið 1959. Frá unga aldri tók hann virkan þátt í atvinnulífi í
heimabyggð, sinnti þar ábyrgðarstörfum á menntaskólaárum og stóð þar með
félögum sínum fyrir byggingu síldarbræðslu á árunum 1965-1967. Áhugi hans á
þjóðmálum, meðfæddir hæfileikar og einbeittur vilji til þess að láta gott
af sér leiða leiddi hann jafnframt snemma til þátttöku í stjórnmálum. Ungur
var hann varabæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Neskaupstað og í
tvennum alþingiskosningum var hann í framboði fyrir flokkinn í
Austurlandskjördæmi.
Lengst af var Jón í stafni samferðamanna. Hann var atkvæðamikill strax frá
unga aldri, hugmyndasmiður góður og mikill framkvæmdamaður. Það gustaði af
honum. Hvar sem hann var og hvert sem hann fór þá gekk hann í verkin,
leiddi þau til lykta og gekk jafnan betur frá málum en hægt var að ætlast
til. Hann var hamhleypa til allra verka, bónfús með afbrigðum og færðist
aldrei undan því að taka að sér erfið og oft snúin verkefni til fjáröflunar
í félagsstarfi, hvort heldur sem var fyrir gömlu heimabyggðina,
Rótarýklúbbinn Görðum, Umf. Stjörnuna eða Flokkinn. Jafnan skilaði hann
drýgstu verki, enda óvenjuvel tengdur og fylginn sér í öllu því sem hann
tók sér fyrir hendur.
Jón var hugsjónamaður í stjórnmálum og þau voru ofarlega í huga hans hverja
stund. Hann var Sjálfstæðismaður af lífi og sál og honum leiddist ekki
pólitískt vafstur; skarpur í hugsun, minnugur og mælskur og fundvís á
kjarna hvers máls. Hann var pólitískur fram í fingurgóma og naut
Sjálfstæðisflokkurinn ávallt góðs af. Hann var í forystusveit
sjálfstæðismanna í Garðabæ um langt árabil og var formaður fulltrúaráðs
sjálfstæðisfélaganna í bænum í hálfan annan áratug. Auk þess var hann
traustur félagi í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Reykjanes- og síðar
Suðvesturkjördæmi og var iðulega fremstur í flokki við að hnýta saman
fjármögnun kosningabaráttunnar. Honum verða seint fullþökkuð þau mikilvægu
störf, sem hann vann með pólitískum samherjum, tillögugóður og fylginn sér
mjög í öllum störfum sínum á þeim vettvangi.
Jón var stæðilegur á velli, þéttur í lund og handtakið traust, fasið
ábúðarfullt og tilbúið til stórra verka. Hann gat verið seintekinn, en
góður vinur vina sinna. Jón byggði fjölskyldu sinni traust og gott atlæti í
Garðabæ og hollan heimanbúnað. Mikill gestagangur var á heimilinu, enda
margir sem áttu erindi við forystumann sjálfstæðisfélaganna í bænum. Hann
var sérkennileg blanda af harðsoðnum athafnamanni og hrifnæmum listunnanda.
Þeir sem þekktu hann minna sáu baráttumanninn, fastan fyrir og ákveðinn.
Hinir sem þekktu hann frá æskuárum skynjuðu hrifnæman fagurkerann með
einlægan áhuga á góðum listum. Um það vitna óvenjufalleg heimili hans, þar
sem hluti af fölbreyttu og fágætu listaverkasafni hans fékk notið sín. Við
frekari kynni fundu menn að hinir innri þræðir hans voru ofnir úr öðru og
mýkra efni en ytra byrðið.
Nú við leiðarlok beinist hugurinn til þeirra sem standa Jóni Guðmundssyni
næst og sakna mest þegar spölurinn með honum er á enda genginn. Við
Hallveig þökkum samfylgdina og færum Jóhönnu og fjölskyldu hans allri
hugheilar samúðarkveðjur.
Ingimundur Sigurpálsson.