Sólveig Svavarsdóttir var fædd í Reykjavík 6. desember 1954. Hún lést á Landspítalanum 11. desember 2024.

Foreldrar Sólveigar voru Guðrún Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 24. mars 1921 á Söndum í Dýrafirði, d. 27. mars 1982, og Svavar Helgason kennari, f. 18. maí 1931 í Haukadal í Dýrafirði, d. 24. október 1975.

Systkini hennar eru Ásgerður Stefanía, f. 11. janúar 1953, gift Paul Michaud, f. 25. október 1947. Þau eiga dæturnar Eriku Jean, f. 20. des. 1971, og Kristinu, f. 11. des. 1974. Bróðir Sólveigar er Jakob Guðmundur, f. 25. okt. 1959, og á hann soninn Svavar Helga.

Eftirlifandi eiginmaður Sólveigar er Baldur Snorri Halldórsson framkvæmdastjóri, f. 1. okt. 1946 í Reykjavík. Sólveig og Baldur gengu í hjónaband 3. júní 1988. Dætur þeirra eru Guðrún Svava, f. 7. jan. 1982, og Ásgerður Stefanía, f. 5. jan. 1987. Eiginmaður Guðrúnar Svövu er Ernir Kárason, f. 19. mars 1974, og eiga þau börnin Emmu Stefaníu, Fálka Stefán, Dögun Bjarnveigu og Fanneyju Eddu. Sambýlismaður Ásgerðar Stefaníu er Almarr Ormarsson, f. 25. feb. 1988, og eiga þau dæturnar Ölbu Rakel og Sóleyju Ýri. Börn Baldurs frá því áður eru Hrefna, börn hennar eru Hafsteinn, Kolfinna og Telma; Jóhannes, börn hans eru Ísak Máni, Sjöfn Sól, Gústaf Berg og Elís Mar; Margrét Íris, börn hennar eru Ágúst, Magnús og Anna Björk, og Rakel, börn hennar eru Alexander Óðinn og Baldur Þór.

Sólveig starfaði um nokkurra ára skeið í Samvinnubankanum. Hún útskrifaðist sem snyrtifræðingur 1974 og sem leikskólakennari árið 1992. Hún var deildarstjóri í leikskólanum Hæðarbóli 1992-1993, deildarstjóri og aðstoðarleikskólastjóri í leikskólanum Stubbaseli 1993-1997 og deildarstjóri í leikskólanum Arnarsmára um nokkurra ára skeið. Sólveig var auk þess mjög virk í foreldrastarfi hjá Breiðabliki, þar sem dætur hennar æfðu knattspyrnu. Þá sinnti hún ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Félag íslenskra leikskólakennara og var um skeið trúnaðarmaður fyrir hönd Samvinnubankans í SÍB.

Útför Sólveigar fer fram frá Digraneskirkju í dag, 18. desember 2024, kl. 15.

Mamma, elsku mamma mín.

Hvernig geturðu verið farin frá okkur bara svona allt í einu! Við áttum eftir að gera svo margt saman elsku mamma mín. Þú sagðir alltaf að ég væri kletturinn þinn en veistu það að þú ert minn klettur alveg jafn mikið. Já og veistu hvað, þú ert líka mín mesta fyrirmynd í lífinu. Þú kenndir mér svo margt og aðallega þegar kemur að því hvernig á að koma fram við börn. Þú kenndir mér að það skiptir ekki máli þótt það hellist smá eða jafnvel fullt niður, maður bara þurrkar upp. Það skiptir heldur ekki máli þótt maður drulli sig allan út. Man svo vel hvað þú sagðir oft við mig: Dúna, það á að hlusta á börn, það skiptir máli. Þetta er svo rétt hjá þér, börn eru miklu klárari en fullorðnir og þau skynja líka miklu meira tilfinningar fólks og hvað er að gerast í umhverfi þeirra. Þú ert svo mikilvægur hlekkur í lífi barnanna okkar Öddu og þú vissir það. Dögun sagði við mig í gær þegar við vorum að fara að sofa: Mamma, ég veit ekki hvernig ég á að lifa án ömmu og veistu, ég sagði henni bara að ég vissi það ekki heldur og svo grétum við saman. Þú sagðir svo oft við mig að þú vorkenndir börnunum svo mikið að missa þig því þú vissir alveg að þú varst þeirra klettur. Þau vissu að þú myndir alltaf standa með þeim og veistu bara hvað, nú ætla ég að vera sú manneskja sem stendur með þeim, fyrir þig, elsku mamma mín. Ég lofa því að nú ætla ég að vera meira eins og amma Solla þeirra. Leyfa þeim bara að sulla og vesenast og brasa.
Þú gafst mér hjartahlýju því hjartahlýrri manneskju var ekki hægt að finna. Vildir alltaf allt fyrir alla gera og passaðir eiginlega upp á að gera allt fyrir aðra áður en þú hugsaðir eitthvað um þig sjálfa. Þú varst að æfa þig í því að vera betri við þig sjálfa því þú áttir það svo skilið. Mig vantar svo að fá facetime-símtal frá þér núna, ég að vesenast heima og þú í facetime að spjalla um allt og nákvæmlega ekki neitt.

Ég veit hvað þú hafðir mikið fyrir því að ég kæmi í heiminn. Hvað þú þráðir að verða mamma því þú vildir verða besta mamma sem hægt var að vera og það tókst þér, þú veist það. Ég er líka svo þakklát fyrir það að þú varst með mér og Erni þegar Emma var að koma í heiminn, þú varst búin að bíða svo eftir þínu blóðskylda barnabarni og þegar ég fór af stað þá varstu svo spennt og óþolinmóð að þú varst mætt upp á spítala þótt við segðumst ætla að hringja. Þá komstu inn og varst svo best og yndislegust og ég sá hvað þú varst þakklát að fá að vera þarna. Ég elska líka hvað þú hafðir mikla þörf fyrir að vera mættust þegar barnabörnin komu og fá þau í fangið til að tengjast þeim strax. Þó svo að þau væru bara nokkurra klukkustunda gömul þá vissir þú betur en við að allt þetta skiptir máli. Enda varstu svo tilfinningalega tengd börnunum okkar Öddu að þú varst með þetta alveg á tæru hvernig það yrði fyrir þau að missa þig. Þau þurfa svo ömmu Sollu sína og það er svo ósanngjarnt að þú hafir þurft að fara svona snemma frá okkur. Við elskum þig svo mikið, þú varst kletturinn okkar allra. Þótt við kannski líkjumst ekki í útliti vil ég meina að ég hafi fengið fullt af persónuleikanum þínum í vöggugjöf. Ég fékk t.d. forvitnina þína, sem ég elska að hafa fengið, því veistu, ef maður er ekki forvitinn þá veit maður aldrei neitt! Svo varstu líka svo spennt yfir alls konar hlutum og ég tengi svo við til dæmis að vera spennt að gefa gjafir. Þú gast mjög sjaldan verið búin að kaupa gjöf eða verið búin að ákveða hvað þú ætlaðir að gefa okkur t.d. í jólagjöf án þess að einhvern veginn vera búin að kjafta því í okkur hvað við áttum að fá.

Þú varst svo stolt af því að tilheyra tröllunum og við töluðum svo oft um hvað tröllin væru fyndin og skemmtileg. Elsku mamma, ég lofa að ég ætla að halda áfram að hafa þig sem fyrirmynd í lífinu. Ég lofa að hlusta á börnin og tala við þau. Tala um þig þannig að þau gleymi þér aldrei. Elska þig að eilífu.

Þín

Dúna Svava Baldursdóttir.

Elsku besta mamma mín. Það er svo sárt að sitja og skrifa minningarorð um þig. Á sama tíma er það fallegt að fá að leiða hugann aftur og hugsa um allt það dýrmæta sem þú gafst mér og okkur öllum og þá sérstaklega öllum barnabörnunum sem þú elskaðir meira en allt í þessum heimi. Húmor þinn var einstakur, hann var svartur oftast en mikið gat ég hlegið að vitleysunni í þér elsku mamma. Þegar ég hugsa um þig þá sé ég umhyggjusömustu mömmu og ömmu sem hægt er að hugsa sér. Þú settir sannarlega ekki björgunarkútinn fyrst á þig heldur alla aðra í kringum þig. Þú varst mamma allra vinkvenna minna sem vissu það að það var alltaf opið í Vogatungu. Þitt heimili var þeirra heimili. Þær sögðu mér það svo oft: Adda, þú átt bestu mömmu í heimi, vissirðu það? Á meðan ég sit og hugsa um þig streyma tár, þau hætta bara ekki að koma. Ég sakna þín svo mikið. Mig langar að hringja i þig og heyra í þér.

Besta hrós sem ég fæ, mamma, er þegar fólk segir við mig: Þú ert alveg eins og mamma þín. Þannig vil ég vera, svona guðdómlega falleg, með hjarta úr gulli. Þú lýstir upp heiminn með nærveru þinni og húmor. Það er enginn fyndnari en þú. Algjört tröll, hversu oft þú helltir niður nær enginn að halda utan um. Manstu þegar ég var nýbúin að kaupa mér rándýrt teppi heima fyrir jólin, þú sast með kaffibolla í sófanum, varst svo spennt að hjálpa Ölbu þinni að opna jólagjöfina frá ykkur pabba, sem var barbie-bíll, að allt kaffið helltist yfir nýju fínu mottuna mína! Það skipti engu máli því gleðin i andlitinu þínu og Ölbu yfir pakkanum trompaði allt.

Ó elsku mamma, ég var svo heppin að fá að hafa þig sem mömmu, að fá uppeldi þar sem ástin er svo sterk. Þú bjóst mig til með öllum þínum styrk og ráðum. Þú gerðir mig ekki bara sterkari heldur alla í kringum mig, stelpurnar mínar eru sterkar og auðmjúkar að fá að eiga þig sem ömmu. Þú varst besta amma í öllum heiminum. Öll barnabörnin litu á þig sem sinn besta vin. Manstu hvað Alba sagði fyrir stuttu: Mamma, þú ert svo heppin að eiga svona klára mömmu, amma Solla veit allt!

Takk fyrir að leiða mig í gegnum lífið, ekki hætta því. Sendu mér nærveru, ráð og styrk áfram. Ég finn fyrir þér alltaf. Þú varst svo stolt af mér í öllu sem ég gerði. Horfðir á allt aftur í sjónvarpinu þar sem ég kom við sögu, hlustaðir á fótbolta-hlaðvörp þar sem ég var að tala því þú varst svo stolt af litlu stelpunni þinni sem þú bjóst til og mótaðir. Ég lofa að halda áfram að gera þig stolta, kenni stelpunum mínum allt sem þú kenndir mér og vef þær þeim kærleik og ást sem þú vafðir mig. Þú ert mesti nagli sem ég þekki, samt mjúkur nagli því þú varst svo mikil kærleiksvera, svo næm á hlutina í kringum þig. Ég lofa að ala upp stelpurnar mínar með þínum gildum, því það eru mín gildi líka. Orð sem ég heyrði stöðugt: Adda, hlustaðu á börnin, þau eru börn, leyfðu þeim að tjá sig og sýna tilfinningar, þau eru svo tilfinningagreind. Ég elska þig til tunglsins og aftur heim. Söknuðurinn er óbærilegur. Ég fékk að lúlla í þinni holu í nótt. Mikið var það dásamlegt, ég finn fyrir þér. En ég ætla að halda áfram því ég veit að það er það sem þú vilt. Verð sterk fyrir þig núna, þú varst alltaf sterk fyrir mig. Ég er litla stelpan þín sem þú varst fram á seinasta dag að passa, vildir hlífa mér við öllu og settir allt á elsku Dúnu þína, framkvæmdastjórann eins og þú kallaðir hana alltaf, sem var kletturinn í lífi þínu. Ég lofa passa upp á alla, öll þín barnabörn, Dúnsu þína og pabba. Og já, ég ætla að halda áfram að hrekkja pabba með því að vera að breyta af og til í Vogatungunni okkar. Ég lofa að halda hátíðleg jól þótt það verði erfitt. Desember er þinn mánuður, fallega mamma. Þú lifðir þig svo inn í gleðilegar upplifanir barnanna á aðventunni Ég elska þig.

Þín litla stelpa,

Adda Baldursdóttir

Í Vogatungunni voru sögð mörg skrítin orð sem ég hafði aldrei heyrt áður og var ég orðin fullorðin þegar ég áttaði mig á að þau voru svona almennt ekki annars staðar þekkt. Þetta var sollenska eða kannski tröllamál. Solla mamms var svo skemmtileg og fyndin, ein fyndnasta manneskja sem ég hef þekkt. Solla mamms er mamma systra minna, Dúnu og Öddu, og hafa þær erft gildi mömmu sinnar og marga eiginleika hennar, eins og umhyggju, forvitni, metnað, réttsýni, ástríki og fegurð, fagmennsku, gleði og glæsileika. Solla var óendanlega stolt af stelpunum sínum og áttu þær einstakt og fallegt samband.

Solla mamms hafði einlægan áhuga á mannverunni í öllu sínu veldi og fylgdi virðing með þótt henni hafi alls ekki þótt þær mannverurnar allar skemmtilegar og gerðu sumar hana illa í skapinu. Og þá sérstaklega þær sem ekki kunnu að sýna öðrum virðingu og skilning. Þeim bara nennti hún ekki. En flestum hafði hún gaman af og ánægju í samvistum eða það varð gaman að þeim í nærveru hennar. En góð var hún við alla og svo umhyggjusöm, mátti eiginlega ekkert aumt sjá og vorkenndi stundum fólkinu.

Mestur var þó áhuginn á litlu mannverunum, hversu sniðugar og fyndnar þær gátu verið. Klárar, duglegar og gáfu okkur svo mikinn lærdóm. Miklu máli skipti að veita þeim athygli, skilning, hlustun og rými til aukins þroska, og er alls kyns tilraunastarfsemi mikilvæg fyrir litlu mannverurnar sagði hún. Barnabörnin voru hennar gull og voru mínir drengir engin undantekning þar og eiga þeir ánægjulegar og skemmtilegar minningar um ömmu að brasa eitthvað og/eða ræða málin, hún spurði spurninga sem fullorðið fólk almennt spyr ekki börn og talaði alltaf við þá á jafningjagrundvelli. Amma Solla kunni nefnilega að hlusta og hún hlustaði á börnin og brýndi fyrir okkur foreldrunum mikilvægi þess að hlusta.

Þessi heilræði voru í miklu uppáhaldi hjá Sollu og héngu uppi í Vogatungunni:

Það læra börn sem þau búa við.
Það barn sem býr við hnjóð lærir að fordæma.
Það barn sem býr við hörku lærir fólsku.
Það barn sem býr við aðhlátur lærir einurðarleysi.
Það barn sem býr við ásakanir lærir sektarkennd.
Það barn sem býr við mildi lærir þolgæði.
Það barn sem býr við örvun lærir sjálfstraust.
Það barn sem býr við hrós lærir að viðurkenna.
Það barn sem býr við réttlæti lærir sanngirni.
Það barn sem býr við öryggi lærir kjark.
Það barn sem býr við skilning lærir að una sínu.
Það barn sem býr við alúð og vináttu lærir að elska.

(Þýð. Helgi Hálfdánarson)


Að gera gott ástand var mikilvægt í Vogatungunni, svona sem flestir kalla að hafa huggulegt. Kveikja á kertum, mörgum kertum, og gera fallegt í kring. Það var líka mikilvægt að breyta og snúa öllu við reglulega. Svo reglulega að stundum voru húsgögn og skrautmunir búnir að skipta um stað þrisvar sinnum þá vikuna. Og þetta gerði hún yfirleitt ein, jafnvel þótt líkamlegir burðir hafi ekki verið í besta standi. Veit ekki hvernig hún fór að þessu en líklega er það tröllagenið. Svona var hún óþekk.

Sumir dagar voru erfiðir og þá var mæða. En hún var meistari í að láta ekki aðra sjá vanlíðanina og vildi ekki valda öðrum áhyggjum. Veikindi hennar síðustu ár voru henni erfið og þung en styrkur hennar og þrautseigja var með ólíkindum.

Solla mamms var heimspekingur og áttum við oft djúpar samræður um ýmislegt milli himins og jarðar, hún pældi mikið í hlutunum, orsökum og afleiðingum og af hverju þetta væri svona og hitt hinsegin. Og það var svo gaman að eiga við hana spjall, ég á eftir að sakna þess alveg óskaplega mikið. Hún var mér alla tíð svo mikil stoð og stytta og alltaf til staðar þegar á þurfti að halda. Hún gerði mig að betri manneskju.

Það hafa verið alger forréttindi að fá að vera partur að lífi þínu, elsku mamms, fá að njóta uppeldis þíns og góðra ráða fyrir mig sem móður og manneskju og ekki síst þinnar einstöku og traustu vináttu og ég á eftir að sakna þín svo óendanlega. Takk fyrir allt og sjáumst síðar.

Rakel Baldursdóttir.