Sigfús Eiríksson fædd­ist á Meist­ara­völl­um í Reykja­vík 7. maí 1947. Hann lést á Land­spít­al­an­um í Foss­vogi 21. desember 2024.

For­eldr­ar Sigfúsar voru hjónin Una Eyj­ólfs­dótt­ir, f. 4. fe­brú­ar 1925, d. 6. maí 1988, og Ei­rík­ur Sig­fús­son, f. 21. janú­ar 1923, d. 29. maí 2008. Systkini Sigfúsar eru: Sammæðra er Jens Ingi Magnússon, f. 22. júlí 1943, d. 25. júní 2019, eftirlifandi maki er Anna Hannesdóttir, f. 1945; Krist­björn Mar­geir, f. 25. mars 1946, maki Al­dís Óskarsdóttir, f. 1954; Finn­ur Eyj­ólf­ur, f. 7. fe­brú­ar 1949, maki Gunn­hild­ur Hrólfsdóttir, f. 1947; Guðbrand­ur Búi, f. 18. des­em­ber 1953, d. 21. maí 1986; Halla Matt­hild­ur, f. 25. des­em­ber 1955, maki Fróði I. Jónsson, f. 1955; 6) Sig­ríður Una, f. 14. janú­ar 1957, maki Guðmund­ur Guðmundsson, f. 1952.

Fyrri eiginkona Sigfúsar er Jóhanna Stefánsdóttir, f. 1948. Börn þeirra eru: 1) Eiríkur Svanur, f. 12. janúar 1967, fyrrverandi maki Sandra Jónasdóttir, f. 1968. Börn þeirra eru: a) Aron Freyr, f. 1991, maki Kolbrún Rut Evudóttir, f. 1996, börn þeirra eru Alexandra Líf, f. 2018, Elvar Darri, f. 2020, og Sunneva Líf, f. 2024. b) Arnór Daði, f. 1996. 2) Guðrún Erla, f. 8. september 1973, maki Vilmundur Theódórsson, f. 23. júlí 1973. Börn þeirra eru Óskar Fannar, f. 1997, Hlynur Ísak, f. 2002, og Steinar Ingi, f. 2009. 3) Þröstur Freyr, f. 25. maí 1976, fyrrverandi maki Maríanna Másdóttir, f. 1977. Börn þeirra eru Eva María, f. 2004, Aron Logi, f. 2012, og Mikael Már, f. 2018.

Eftirlifandi eiginkona Sigfúsar er Hanna Garðarsdóttir, f. 31. ágúst 1951. Þau eiga dótturina Eygló Sif, f. 20. maí 1989, maki Anton Birkir Sigfússon, f. 28. desember 1990. Börn þeirra eru Andreas Atli, f. 2019, og Kara Dröfn, f. 2022. Hanna á þrjár dætur, Írisi Fjólu, f. 1971, Olgu Lind, f. 1975, og Elfu Maríu, f. 1978.

Sigfús fluttist fimm ára að Stóru-Hvalsá í Hrútafirði og gekk í Barnaskólann á Borðeyri. Fimmtán ára fluttist hann suður og stundaði ýmis störf þar til hann hóf nám við Iðnskólann í Hafnarfirði og lærði múraraiðn. Hann tók þátt í mörgum stórum múraraverkum víða um land. Hann bjó um hríð á Blönduósi þar sem hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni. Þau hjónin byggðu sér síðar hús í Mosfellsbæ þar sem þau hafa búið síðan. Sigfús starfaði jafnframt sem vaktmaður á Landspítalanum í nokkur ár. Einnig átti hann sendibíl og keyrði um tíma á Nýju sendibílastöðinni.

Áhugamálin voru margvísleg. Um þrítugt fór hann að læra á harmonikku. Sigfús var virkur félagi í Oddfellowreglunni. Honum þótti gaman að vera á ferðinni og hafði unun af því að ferðast og seinni árin fór hann vítt og breitt bæði akandi og fljúgandi. Hann dvaldi oft hjá dóttur sinni í Noregi í lengri tíma. Hann tók að sér ýmis múrverk víðsvegar og vílaði ekki fyrir sér að aðstoða fólk þótt um lengri veg væri að fara. Eftir hann liggja múrverk í Færeyjum, Danmörku, Noregi og Lúxemborg.

Útför Sigfúsar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 15. janúar 2025, klukkan 13.

Kæri tengdapabbi. Það kom að því, svo allt of snemma og þú varst svo engan veginn tilbúinn að fara frá afrekunum þínum eins og þú kallaðir börnin þín og afkomendur þeirra þegar þú varst að segja hjúkkunum á A6 frá þeim. Við vorum búnir að þekkjast í yfir 33 ár og eiginlega held ég næstum að ég hafi kynnst þér áður en ég kynntist Guðrúnu Erlu eða allavega var það á sama tíma. Ég leigði herbergi í Breiðholtinu hjá hjónum sem voru að breyta húsi í gistiheimili og þar var múrari líka að vinna sem sá um allar flísalagnir. Ég greiddi fyrir leiguna með því að aðstoða múrarann. Þegar Guðrún Erla fór svo að segja þér frá sveitastráknum sem hún væri byrjuð að hitta og hann byggi í Reykjavík og leigði hjá hjónum í Breiðholti, þá allt í einu fórst þú að spyrjast fyrir um þennan strák sem var að hjálpa þér, hverra manna hann væri og hvernig strákur þetta væri. Þá kom í ljós að þú varst pabbi hennar Guðrúnar (og það fékk sko ekki hver sem er samþykki til að slá sér upp með henni.) Þegar þú afhentir mér svo afsalið um að nú væri hún mín og ég gæti ekki skilað henni á brúðkaupsdaginn okkar þann 6. maí 2006 þá varð ég stoltur og skal heita þér því að passa eitt af afrekunum þínum og afastrákana þína. Í þessi 33 ár sem við höfum þekkst höfum við gert mikið saman. Þú settir handbragð þitt á allar okkar eignir. Drápuhlíðina, Furuhlíðina og Fjellstien þegar við bjuggum í Noregi. Svo Furuásinn þegar við fluttum aftur heim til Íslands. Alltaf varst þú mættur til að hjálpa, þoldir ekki leti en gafst þér alltaf tíma til að spjalla og miðla þekkingu auk þess sem þú tókst strákana okkar Guðrúnar með þér í múrverk hingað og þangað, nú eða bara í bíltúr. Þú elskaðir að keyra og við erum löngu búin að missa töluna á fjölda bíla sem þú áttir í gegnum tíðina en ég giska á 100 plús. Þegar við fluttum til Noregs 2010-2020 þá fannst þér það stórsniðugt. Þú bara skelltir þér á norskunámskeið, keyptir bækur og geisladiska til að læra norsku. Hikaðir svo ekki við að tala við norðmennina á þinni góðu íslensku og þetta skildist allt einhvern veginn alltaf. Nema kannski þegar þú pantaðir hráa hakkið á veitingastaðnum í Osló, en þú lést þig hafa það, þú hafðir víst pantað þetta. Við vorum líka svo heppin að þú komst eins oft og þú gast í heimsókn til Noregs og dvaldir yfirleitt í góðan tíma, elskaðir veðrið og vera með fólkinu þínu og alltaf var taskan í yfirvigt með allrahanda góðgæti og mat, sælgæti, bækur og bara allskonar. Allavega var nóg af öllu og yfirvigtina borgaðir þú með bros á vör.


Mér eru minnisstæðar margar sögur. Ein var sú þegar þú komst og heimsóttir mig til Noregs þegar ég var nýfluttur út. Ég var í vinnunni og þú ætlaðir að kaupa í matinn og elda. Sagðir mér að þú hefðir keypt fisk og flot, ég var hissa þar sem ég hafði aldrei séð flot í búðunum þarna í kring og svo þegar þú ætlaðir að setja flotið í pott þá tókstu upp pela af rjóma. Rjómi er nefnilega fløte á norsku. Mikið sem við hlógum að þessu.

Músíkin og harmonikkan voru sérstaklega í uppáhaldi hjá þér og til að þurfa ekki að burðast með þetta á milli landa þá keyptir þú bara nikku í Noregi og áttir hjá okkur. Kórinn á norsku nikkunum var reyndar ekki sá sami og á þeim íslensku en þær sænsku voru með réttum kór. Ekki var það nú verra því þá þurftum við að keyra yfir til Svíþjóðar til að skoða nikkur og kaupa. Ein slík ferð var farin þegar þú hafðir fundið búð á netinu sem var örstutt inn í Svíþjóð, að þú hélst. Eða alveg þangað til við spurðum kortagúggul hversu langt væri að keyra þangað. Það reyndust ekki nema um 500 km hvor leið. Okkur fannst það nú ekki langt. Lögðum af stað eldsnemma morguns og keyrðum lengst inn í Svíþjóð, prófuðum tvær til þrjár nikkur og keyptum eina og keyrðum svo til baka aftur. Þetta var mjög langur og skemmtilegur dagur. Eins náðum við í þig til Danmerkur, fórum til Þýskalands og svo til Noregs aftur og svo bara hingað og þangað.

Ég er ánægður að við skyldum ákveða að flytja heim aftur 2020 þar sem þú varst líka hættur að treysta þér til að fljúga út til okkar. Þú varst samt með okkur í að standsetja húsið sem við keyptum í Furuásnum. Þó þú gætir ekki aðstoðað mikið líkamlega, verkstýrðir þú listavel og fékkst meðal annars vin þinn hann Hansa til að laga húsið að utan fyrir okkur.

Þínar síðustu vikur varstu á A6 á Borgarspítalanum hjá yndislegu starfsfólki og við gátum líka verið hjá þér síðustu dagana og sólarhringana. Það gaf okkur öllum svo mikið að fylgja þér síðasta spölinn. Þegar svo kallið kom var mikill friður yfir þér þó svo að þú hefðir ekki verið tilbúinn að fara frá okkur.

Hvíl í friði elsku Sigfús, minningin lifir um góðan vin og einstakan tengdapabba.

Þinn tengdasonur,

Vilmundur (Villi)