ÞAÐ var notalegt að detta aftur inn í grískt loft um stund og koma á gamla og þekkilega staði og skoða nýja. En eins og Grikkir eru nú yfirleitt ljúfir er skrítið hvað flugfreyjur Olympic flugfélagsins eru hornóttar. Ekki beinlínis að þær rífist og skammist við farþegana en viðmótsþýðar eru þær ekki. Sem betur fer er flugið ekki langt milli Kairó og Aþenu.
Franskar kartöflur með öllu og yfir-

lýsingaglaður utanríkisráðherra

Dagbók frá Vougliagmeni Franskar kartöflur með grísku salati er ekki beinlínis óskarétturinn, segir Jóhanna Kristjónsdóttir sem tyllti sér niður í Grikklandi um stund á leiðinni heim.

ÞAÐ var notalegt að detta aftur inn í grískt loft um stund og koma á gamla og þekkilega staði og skoða nýja. En eins og Grikkir eru nú yfirleitt ljúfir er skrítið hvað flugfreyjur Olympic flugfélagsins eru hornóttar. Ekki beinlínis að þær rífist og skammist við farþegana en viðmótsþýðar eru þær ekki. Sem betur fer er flugið ekki langt milli Kairó og Aþenu.

Annars er engin ástæða til að fjölyrða um það enda margt líflegt til að velta fyrir sér. Eins og til dæmis pólitíkin sem er alltaf dálítið sniðug. Fyrstu dagana mína hér var mikið býsnast yfir utanríkisráðherranum, hann þykir yfirlýsingaglaður og ekki alltaf velja orð sín af mikilli yfirvegun.

Nú gerði hann að umtalsefni vanmátt og dugleysi hersins í sambandi við Tyrki út af eyjadeilunni í janúar sl. Honum fannst upp til hópa að haldið hefði verið á málum af dæmalausum kjánaskap og yfirmenn hefðu ekki sýnt þann dug sem þeim hefði borið. Þar með fór allt í bál og brand. Flokksmenn ráðherrans reyndu í lengstu lög að bera blak af honum og varnarmálaráðherrann sem er auðvitað yfirmaðurinn sem spjótunum var beint að, hélt stillingu sinni. Aftur á móti kröfðust forsvarsmenn Nýdemókrataflokksins að þessi utanríkisráðherra yrði látinn víkja tafarlaust enda væri hann aðhlátursefni í allri Evrópu, ekki bara út af þessu heldur aðskiljanlegum öðrum atvikum.

Nú er sagt að forsætisráðherrann sé búinn að settla þetta í bili og þá verður forvitnilegt að sjá hvað kemur næst uppá.

Eftir Kairóloft er Aþena hreinasta paradís þó alltaf sé verið að fjargviðrast yfir mengun í henni. Mér finnst athyglisvert hvað menn eru sér meðvitandi um vandann og slást gegn honum. Hið sama verður ekki sagt um Egyptana mína.

Síðan ég kom hef ég haft gaman af því að snæða grískan mat sem mér þykir gómsætur. Ég hef ekki farið á flókna staði eða fína, enda eru litlu matstaðirnir úti um allt. Það kemur mér á óvart hvað þeir halda í frönsku kartöflurnar og bera þær fram með öllum mat hvort sem þær eiga við eða ekki.

En þá er einfalt að fá sér grískt salat og brauð sem er heil máltíð ef út í það er farið. Sem betur fer er ekki komið með franskar með því, og þó. Í gærkvöldi sá ég tvær grískar stúlkur panta sér franskar með salatinu og fengu með sósu sem ég hélt eiginlega að væri séríslenskt fyrirbrigði: kokkteilsósu.