Þó nokkur atriði er nauðsynlegt að hafa í huga þegar pítsa er grilluð. Mikilvægt er að hafa undirlagið gott enda ekki hægt að setja pítsuna beint á grillið. Það er auðvitað hægt en við mælum ekki með því. Pítsusteinn er góð fjárfesting enda ná þeir góðum hita. Eins er snjallt að nota steypujárnspönnu – sérstaklega fyrir þá sem elska góðar pönnupítsur.
Það er jafn mikilvægt að hitinn sé í lagi. Er þá átti við að grillið sé orðið nógu heitt. Það er algjörlega tilgangslaust að setja pítsuna á kalt grillið og láta hana hægeldast meðan grillið og steinninn eru að hitna. Til að ná fram bestu elduninni skal grillið vera á hámarkshita og steinninn einnig. Þannig eldast pítsan hratt og rétt.
Meðlæti er svo annað mál. Hér er viðkomandi kokki í sjálfsvald sett hvað hann notar en við mælum að sjálfsögðu með því að þið veljið það sem ykkur þykir best. Þó má hafa nokkrar góðar reglur bak við eyrað – eins og regluna um hið fullkomna jafnvægi sem kveður á um að nauðsynlegt sé að hafa sætt á móti söltu og svo framvegis. Gott dæmi um sætt meðlæti er sultaður laukur, bananar og ananas. Prófaðu þetta næst þegar þú ætlar að grilla pítsu.
Parmaskinka er vinsælt álegg og það sem er skemmtilegt við hana er að hún er sett eftir á þannig að pítsan bakast fyrst alveg í gegn og síðan er álegginu bætt á. Pepperóní trónir þó á toppnum sem vinsælasta meðlætið hér á landi og skyldi engan undra. Saltur og reyktur matur er vinsæll hér en þess þá heldur ættuð þið að prófa að setja eitthvað sætt með.
Burrataosturinn hefur svo komið sterkur inn sem meðlæti sem og mozzarellaperlurnar. Einstaklega ítalskt og bragðgott.
Grundvallarreglan er þó að passa upp á að botninn sé eldaður í gegn. Fátt er nefnilega verra en hrá pítsa og þess vegna skiptir svo miklu máli að ná góðum hita bæði á grillið og steininn/pönnuna.