Grillað lambakonfekt með engifer og salthnetum

Ljósmynd/Íslenskt lambakjöt

Hér erum við með útgáfu af lambakonfekti sem erfitt er að standast. Marineringin er einstaklega góð og passar vel með lambinu. Við mælum með að þið leyfið kjötinu að liggja í henni í 20-30 mínútur eins og kveðið er á um í uppskriftinni. Útkoman kemur ykkur skemmtilega á óvart. 

Grillað lambakonfekt með engifer og salthnetum

  • 800 g lambakonfekt
  • 4 msk. sojasósa
  • 4 msk. ólífuolía
  • 1 ½ msk. púðursykur
  • 2 msk. engifer, afhýtt og rifið niður
  • 1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
  • 1 ½ msk. steinselja, söxuð smátt
  • olía, til steikingar
  • 2-3 msk. salthnetur, skornar smátt

Aðferð:

  1. Setjið sojasósu, ólífuolíu, púðursykur, engifer og hvítlauk í litla skál og hrærið saman. Setjið kjötið í djúpt fat og hellið kryddleginum yfir, látið standa í 20-30 mín.
  2. Hitið grill og hafið á háum hita. Penslið grillið með olíu og grillið kjötið í 2-3 mín. á hvorri hlið. Takið af hitanum, setjið á disk og sáldrið steinselju og salthnetum yfir. Berið fram með meðlæti að eigin vali.
mbl.is
Loka