Fjögur skotheld grilltrix Bjarka

Bjarki Þór Valdimarsson er mikill matgæðingur og snillingur á grillinu.
Bjarki Þór Valdimarsson er mikill matgæðingur og snillingur á grillinu. Samsett mynd

Bjarki Þór Valdimarsson hefur verið heillaður af mat og matargerð frá unga aldri. Hann heldur úti samfélagsmiðlinum Matarmenn þar sem ástríða hans skín í gegn í skemmtilegum uppskriftarmyndböndum, en hann er samhliða því einn af eigendum heilsölunnar og vefverslunarinnar Korriró, áður Verma, sem selur lífstílsmiðaðar vörur. 

Bjarki hefur sérlega gaman að því að töfra fram gómsæta rétti af grillinu, en í byrjun sumarsins deildi hann uppskrift að sannkallaðri lúxusgrillmáltíð með lesendum matarvefs mbl.is. Hér gefur hann lesendum fjögur skotheld grilltrix sem ættu að nýtast vel um helgina!

1. Lykilatriði að kjötið nái stofuhita

„Mikilvægt er að kjöt nái stofuhita áður en það fer á heitt grillið. Þetta tryggir jafnari eldun og spornar við því að kjötið ofeldist ekki að utan og haldist hrátt í miðjunni.“

2. Kjarnhitamælirinn besti vinurinn

„Besti vinur þinn á grillinu er kjarnhitamælirinn sem gefur þér hraða útkomu. Ég segi oft við mitt fólk að það er betra að splæsa í einn slíkan frekar en að skemma steik fyrir andvirði mælis.“

3. Ekki víkja frá grillinu

„EKKI fara frá grillinu ef þú ert með kjöt í beinum hita. Það getur verið freistandi en þá er betra að klæða sig í flíspeysuna og taka besta grillfélagann, rauðvínsglasið, með sér því maður getur misst fallega steik í bál á núll einni. Það er þó í lagi að bregða sér frá þegar maður er kominn með kjötið á efri grind og búið að lækka í grillinu.“

4. Hugaðu að botninum á grillinu

„Passaðu að leyfa ekki fitu að byggjast upp í botninum á grillinu þínu. Undirritaður hefur lent í því að kveikja í grilli vegna fitusöfnunar og það er ekki skemmtileg upplifun að lenda í get ég sagt þér.“

mbl.is