Bandarísk rif á grillið

Lamb og naut eru ekki einu kjöttegundirnar sem henta vel á grillið. Í Bandaríkjunum er það nánast talin vera listgrein að grilla svínarif eða "BBQ Ribs", sem skiptast niður í margvíslegar undirtegundir allt eftir því hvernig kjötvinnslan er. Babyback Ribs eru vinsælust en einnig eru til dæmis St. Louis Cut Ribs og Spare Ribs. Rifin njóta gífurlegra vinsælda þar vestra og þá ekki síst í Suðurríkjunum þar sem þau eru jafnrótgróinn hluti af menningu blökkumanna og jazz og blues. Menn deila endalaust um hvernig eigi að grilla þau og hvaða sósa nái eina rétta bragðinu.

Hér á landi hefur á síðustu árum verið hægt að kaupa tilbúin rif sem henda má á grillið. Alvöru grillarar vita hins vegar að slíkt gerir maður ekki. Það er nefnilega hægt að kaupa fersk rif í flestum góðum kjötborðum og það er mun betri kostur.

Ef ætlunin er að gera rifin samkvæmt bókinni kallar það á smá fyrirhöfn því til að ná rifjunum það meyrum að rifin losni léttilega í sundur þarf að elda þau hægt og lengi á vægum hita. Það má til dæmis gera í kolagrilli með því að setja lítinn haug af kolum í eitt hornið og kjötið í hitt og loka grillinu. Þannig gefa þau ekki af sér beinan hita. Sé þessi aðferð notuð er einnig æskilegt að setja lítinn álbakka með vatni í grillið til að halda uppi raka og jafnvel annan tóman bakka undir rifin til að ná fitunni er drýpur niður. Þetta tekur tvo til þrjá klukkutíma ef rétt er farið að og grillsósunni er ekki smurt á fyrr en á allra síðustu mínútunum.

Sé notað gasgrill er slökkt á brennurunum öðrum megin og rifin elduð þeim megin undir loki.

Það er auðvitað hægt að svindla á þessu sem öðru en engu að síður gildir reglan: vægur óbeinn hiti og langur eldunartími gefur besta árangurinn.

Þeir sem ekki nenna því geta vissulega grillað rifin beint, þau verða hins vegar ekki það meyr að það sé hægt að hrista þau í sundur. Það þarf steikarhníf eða þá hreinlega putta og tennur (þetta er ekta fingrafæði) en bragðið er ekki mikið síðra.

Saltið rifin með Maldonsalti og setjið á grillið. Fylgist vel með þeim þannig að þau brenni ekki og snúið reglulega við. Það tekur ekki mjög langan tíma að elda rifin í gegn en þeim mun lengur sem þið hafið þau á grillinu, þeim mun betri verða þau. Varist einungis að fitan sem lekur niður brenni rifin ykkar. Það getur verið gott að hafa álpappír undir. Rétt í lokin smyrjið þið vænum skammti af uppáhalds grillsósunni ykkar yfir rifin báðum megin og grillið létt í lokin.

Berið fram með amerísku Cole Slaw og köldum bjór.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert