Frönsk bistro-steik

Frönsk matargerð þarf alls ekki alltaf að vera flókin. Rétt eins og á Ítalíu eru þeir réttir sem gestum standa til boða á litlu veitingahúsum oftar en ekki einfaldir en engu að síður ljúffengir. Frakkar borða mikið af nautakjöti og það er algengt að hún sé borin fram með engu öðru en frönskum kartöflum og kannski smá Dijon-sinnepi til hliðar. Steak Frites kalla Frakkar þetta. Sósur eru hins vegar aðall franska eldhússin og þessi hér er eins einföld og þær gerast.

Þegar skarlottulauk og rauðvín er blandað saman eins og í þessari uppskrift kalla Frakkar það á la Marchand og því getum við sagt að þessi steik sé með sósu vínkaupmannsins.

Best er að nota góðar Ribey-steikur eða Entrecote, 200-300 gramma steikur á mann, nema menn séu þeim mun svangari.

Því til viðbótar þurfum við:

1 skarlottulauk

2 dl rauðvín

Smjör

Salt og pipar

Ferskt timjan

Saxið timjan (garðablóðberg) fínt og nuddið því inn í steikurnar ásamt Maldon-salti og nýmuldum pipar úr kvörn.

Hitið matskeið af smjöri á pönnu og steikið nautasteikurnar 3-4 mínútur á hvorri hliða eða þar til þær hafa náð þeirri steikingu sem þið viljið. Best er að steikja þær aðeins minna en þið viljið hafa þær því kjötið heldur áfram að hitna í gegn eftir að það er tekið af pönnunni.

Leggið steikurnar til hliðar og haldið heitum. Bætið söxuðum skarlottulauknum út á pönnuna og bætið við öriitlu smjöri ef þarf. Steikið laukinn þar til hann er orðinn mjúkur og hellið þá rauðvíninu út á pönnuna og sjóðið hressiðlega niður þar til um helmingurinn af vökvanum hefur gufað upp. Bætið þá matskeið af smjöri út á pönnuna og hrærið saman við sósuna.

Setjið steikurnar á disk og hellið sósunni yfir. Berið fram með ofnbökuðum kartöflubátum og gufusoðnu grænmeti, t.d. brokkólí.

Eitt lítið ráð: Ef þið gerið ofnbökuðu kartöflurnar er gott að hafa þær tilbúnar þegar maður byrjar á steikunum og slökkva þá á ofninum. Þá er hægt að skella steikunum inn í ofninn til að halda þeim heitum á meðan maður klárar sósuna án þess að þær ofeldist.

Bon Appetit.

Að sjálfsögðu franskt vín með frá einhverju af þekktustu rauðvínshéruðum Frakklands. Með því að smella á héruðin koma tillögur að góðum vínum frá Bordeaux, Búrgund og Rhone.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert