Osso Bucco

Osso Bucco er einn þekktasti réttur Norður-ítalíu. Ítalir nota alla jafnan kálfaskanka en í íslenskum kjötborðum eru Osso Bucco-sneiðaranr yfirleitt úr nautakjöti og þær eru alveg hreint afbragð í þennan rétt.

Þetta er svolítið tímafrekur réttur en meira en vel þess virði.

1 sneið af Osso Bucco á mann

2 skalottulaukar, saxaðir

2 stönglar sellerí, saxaðir í teninga

2 gulrætur, saxaðar í teninga

5 hvítlauksgeirar, saxaðir

2 greinar timjan, 2 greinar rósmarín, 2 lárviðarlaus bundin saman í kryddvönd.

1 dós heilir tómatar

5 dl kjúklingasoð

1 dl hvítvín

Osso Bucco er best að elda í stórum og traustum potti, helst úr pottjárni. Hitið 1-2 matskeiðar af ólívuolíu í pottinum og steikið kjötsneiðarnar 3 mínútur á hvorri hlið. Saltið og piprið. Takið kjötið uppúr og geymið. Steikið skalottulauk, sellerí, gulrætur og hvítlauk í um 5 mínútur í pottinum. Bætið þá við tómötunum og sjóðið í 3 mínútur. Hrærið reglulega. Bætið nú við hvítvíni, 3 dl af kjúklingasoðinu og kryddvendinum og loks kjötsneiðunum. Látið malla í 10 mínútur.

Setjið lokið á pottinn og setjið inn í 200 gráðu heitan ofn. Eldið þar í um 2 klukkustundir. Snúið kjötbitunum við í pottinum einu sinni til tvisvar á þeim tíma og bætið við kjúklingasoði eftir þörfum. Soðið á að þekja kjötið að um þremur fjórðu allan tímann.

Að tveimur klukkutímum liðnum er kjötið orðið meyrt og fínt og liggur í mögnuðu, bragðmiklu soði. Takið kryddvöndinn upp úr. Setjið kjötbitana á disk og hellið soðinu og grænmetinu yfir. Besta meðlætið með Osso Bucco er Risotto Milanese og Gremolata.

Uppskriftin að risotto-inu er hér en Gremolata gerum við með því að blanda saman 4 msk af fínt saxaðri flatlaufa steinselju, rifnum berki af einni sítrónu og 2 rifnum hvítlauksgeirum. Blandið saman í skál, saltið og piprið.

Osso Bucco þarf kröftugt rauðvín með og þau norður-ítölsku eru góður valkostur. Flottust væru vín á borð við Amarone en suður-ítölsk vín t.d. úr þrúgunum Primitivo eða Negroamaro eru sömuleiðis fín með Osso Bucco.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka