Þessi réttur er léttur og fljótlegur en engu að síður er þarna að finna mjög skemmtilegt samspil af mismunandi brögðum sem mynda ljúffenga heild.
500 g linguini eða spaghetti
1 dl furuhnetur, þurrristaðar á pönnu
1/2 dl hágæða ólívuolía, t.d. "Ítalía"
safi úr og fínrifinn börkur af einni sítrónu
2 dl fetaostur
1-2 dl rifinn parmesanostur
1 væn lúka basillauf, grófsöxuð
Pipar
Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum og ristið furuhnetarnar á pönnu. Þær eru fljótar að ristast og mikilvægt að brenna þær ekki. Um leið og þær fara að taka á sig dekkri lit er pannan tekin af hitanum.
Þegar pastað er tilbúið hellið þið vatninu frá en skiljið eftir um hálfan til einn desilíter með pastanum. Setjið það aftur í pottinn og hærið sítrónuberki, sítrónusafa, parmesanosti, fetaosti, furuhnetum og loks basillaufum saman við.
Setjið strax á diska og berið fram. Gott er að hafa piparkvörn fyrir þá sem vilja og auka parmesanost.
Létt suður-evrópskt hvítvín smellpassar með t.d. Púglíavínið A Mano Fiano-Greco eða hið katalónska Blanc de Pacs.
Uppskrift: vinotek.is