Þetta er uppskrift að sannkölluðum lúxusborgara með ekta ribeye-steik, foie gras og Portobello-sveppi. Þeir gerast ekki mikið magnaðri en það var Jón Axel sem sendi okkur þessa uppskrift.
Þetta þarf fyrir hvern borgara:
1 stk Rib-eye nautasteik
1 hamborgarabrauð
½ - 1 rauðlaukur
½ Portobellosveppur
1 hvítlauksrif
Foie gras (gæsalifur)
Salt (reykt flögusalt hentar mjög vel)
Pipar
Balsamikedik
Sykur
Rucolasalat/klettasalat
Dijon-sinnep
Majones
Skerið sinarnar utan af Rib-eye steikinni og "berjið hana í spað" með saxi. Bætið smá olífuolíu saman við og hnoðið í hamborgara. Ekki skera fituna frá, notið hana í borgarann. Hafið borgarann þynnri í miðjunni því hún lyftist alltaf við steikingu.
Skerið rauðlaukinn í 1/2 sm lengjur og steikið í smöri, sykri og skvettu af Balsamikediki þar til hann er orðinn að hálfgerðu mauki (sultaður rauðlaukur).
Blandið saman Dijon sinnepi og majonesi. Það má alveg vera sæmilega sterkt bragð af sinnepinu.
Skerið Portobellosveppina í langar sneiðar og steikið á pönnu með smjöri og pressuðum hvítlauk. Látið sneiðarnar brúnast vel.
Steikið hamborgarann á grilli, kryddaðan með salti og pipar. Hitið brauðið og látið hamborgarann í brauðið svo það drekki vökvann af borgaranum í sig. Setjið Dijonblönduna í neðra brauðið, rucola-salat, sultaðan rauðlauk, portobello sveppi, hamborgarann, ½ cm lag af Foie gras, meiri Dijonblöndu og loks brauðlokið. Láta standa í smá tíma svo gæsalifurin nái að mýkjast vel (bráðna inn í borgarann).
Með þessu kröftugur bjór á við Móra eða Cabernet úr Nýja heiminum, t.d. Turning Leaf Cabernet Sauvignon.
Uppskrift: vinotek.is