Nautasteik Fiorentina

Bistecca alla Fiorentina eða nautasteik að hætti Flórensbúa er einn af þekktustu réttum Toskana. Hér skiptir öllu að nota hágæða steik, T-Bone eða Porterhouse. Í Toskana kemur ekkert annað til greina en steik af Chianina-nautgripum.

Það er auðvitað hægt að nota hefðbundnar steikur, eins og þær eru seldar í kjötborðinu. Best er hins vegar að biðja kjötborðið um að fá sérsagaða steik, svona fimm sentimetra þykka, og elda hana í einu lagi. Á Ítalíu er gjarnan miðað við að hún sé "þriggja putta" há og ætti þá að vega 1-1,5 kíló.

1 stór T-bone steik

1 lúka rósmarín, fínt saxað

1 lúka salvía, fínt saxað

6-7 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir

1 poki spínat

Sítrónur

ólívuolía

salt og pipar

Saxið kryddjurtirnar og blandið þeim saman við Maldon-salt og nýmulinn pipar. Veltið steikinni upp úr kryddjurtablöndunni og penslið með ólívuolíu.

Setjið steikina á heitt grillið og grillið hana í um 8-10 mínútur á fyrri hliðinni. Snúið henni við og grillið í  6-8 mínútur á seinni hliðinni. Þessi tími miðast við að þið séuð að nota stóra og þykka steik. Annars getið þið fylgt þessum leiðbeiningum hér. Takið steikina af grillinu og leyfið henni að standa við stofuhita í 8-10 mínútur.

Á meðan steikin er að jafna sig er gott að undirbúa meðlæti, t.d. steikt spínat. Hitið ólívuolíu á pönnu. Hitið hvítlaukinn þar til hann fer að taka á sig brúnan lit. Bætið þá spínatinu við og veltið því um þar til það er orðið mjúkt og fínt. Slökkvið á hitanum, kreistið safann úr hálfri sítrónu yfir. Saltið og piprið.

Skerið steikina af beininum, sneiðið niður og berið hana fram með spínatinu, fersku grænu salati og bökuðum kartöfluskífum. Hafið sítrónubáta með til hliðar.

Hér á hágæða Toskana-vín vel við, Chianti Classico eða jafnvel Brunello. Mjög góður kostur er Isole e Olena Chianti Classico.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert