Lifrarpylsa Möggu

Hráefni

  • 2 lifrar
  • 4 nýru
  • 2 msk gróft salt
  • 6 dl mjólk
  • 1 ½ dl heitt vatn og
  • ½ súputeningur
  • 300 gr haframjöl
  • 400 gr rúgmjöl
  • 300-400 gr smátt skorinn mör

Fyrir 8–10

Slátur er selt annað hvort sem „þrjú slátur“ eða „fimm slátur“. Sumar verslanir selja slátrið í stykkjatali. Þrjú slátur eiga að duga í um níu máltíðir fyrir fjögurra manna fjölskyldu ef allt hráefnið er notað og bæði gerð lifrapylsa og blóðmör.

Aðferð

Byrjum á mörnum
Hvort sem gerð er lifrarpylsa eða blóðmör þarf að byrja á því að skera niður mörinn í hæfilega bita. Mælt er með því að skera hann ekki of smátt því þá geta þeir sem ekki vilja mikla fitu tekið bitana frá þegar slátrið er tilbúið. Ef kirtlar fylgja í mörnum eru þeir skornir frá og fleygt. Mörinn er síðan geymdur á köldum stað þar til hann er notaður.

Saumaskapur
Þar næst eru vambir og keppir teknir úr sláturkassanum og allt skolað. Sníða má 4 til 5 keppi úr hverri vömb en keppirnir eru síðan saumaðir saman með sláturgarni og skilið eftir vænt op. Geymið keppina á köldum stað á meðan lifrar- eða blóðmörshræran er löguð.

Himnuhreinsið lifur og nýru með því að klæða þau úr himnunni.

Maukið í matarvinnsluvél. Setjið lifrarhræruna í rúmgott fat, blandið vökva, salti og haframjöli saman við.

Látið standa í um 5 mínútur á meðan saltið leysist upp og haframjölið blotnar.

Hrærið rúgmjöli og mör saman við og passið að hafa hræruna ekki of þykka.

Lifrarhræran er höfð þykkari en blóðmörshræran. Gott er að setja örlítinn sykur út í hræruna, 1-2 tsk.

Hálffyllið keppina og saumið fyrir með bómullargarni. Ágætt er að nota gamaldags rjómasprautu við að koma hrærunni fyrir. Pikkið með nál og setjið út í sjóðandi vatn, sjóðið í 2 ½ klukkutíma. Athugið að salta vatnið.

Ef frysta á keppina eru þeir settir í plastpoka. Þegar slátur er tekið úr kistunni til suðu eru frosnu keppirnir settir út í heitt vatn með salti og soðnir í 3 klukkutíma. Ekki láta slátrið þiðna fyrir suðu.

Þegar slátrið er fryst eru göt pikkuð á keppina þegar suðan kemur upp.

Útfærsla Guðmundar - tilbrigði við lifrarpylsu:

Fíntsaxað beikon, sveppir, timijan og graslaukur er sett í sláturhræruna.

Uppskrift: Eldum íslenskt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert