Nautafilé með þriggja kryddjurta pestói

Þetta er skemmtilegt og öðruvísi tilbrigði við góða nautalund en ágætt er að miða við 200-250 grömm af kjöti á mann.

Þriggja kryddjurta pestó

  • 1 pakki basil
  • 1 pakki steinselja
  • 1/2 pakki mynta
  • 2 geiralausir hvítlaukar
  • 1 dl furuhnetur
  • 100 g parmesanostur (1/2 stykki)
  • 3 dl Ítalía ólívuolía.
Maukið hvítlauk, furuhnetur og parmesanost í matvinnsluvél. Maukið basilblöðunum, myntublöðunum og steinseljunni saman við. Bætið ólívuolíunni smám saman út í. Saltið og piprið. Geymið.

Kúrbíts- og rauðbeðujulienne
  • 1 stór kúrbítur
  • 2 rauðbeður
  • 1 poki spínat
  • 1 geiralaus hvítlaukur
  • 1 msk gróft Dijon-sinnep (Maille á l'ancienne)
  • 1/2 dl cider edik (Edmond Fallot Vinaigre de Cidre)
  • 1 dl ólívuolía
  1. Maukið hvítlauk, edik, ólívuolíu og sinnep saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota þannig að úr verði þykk "vinaigrette"-salatsósa. Saltið og piprið. Setjið í skál og geymið.
  2. Skerið kúrbít og rauðbeður niður í "julienne"-stangir, um hálfs sentimetra breiðar og fimm sentimetra langar. Hitið vatn í potti og saltið. Þegar vatnið sýður eru kúrbítsstangirnar settar út í og síðan spínatið. Leyfið að vera í vatninu í rúmlega hálfa mínútu og hellið þá í sigti. Leyfið vatninu að renna af. Setjið volgt grænmetið í skálina með salatsósunni. Bætið rauðbeðustöngunum saman við. Hrærið öllu varlega saman.
  3. Hitið ofn í 200 gráður. Skerið nautafile í fjórar um 250 gramma steikur. Hitið smjör á pönnu og steikið nautasteikurnar í 2 minútur á hvorri hlið. Saltið og piprið. Setjið steikurnar inn í heitan ofninn í fimm mínútur. Takið út og leyfið kjötinu að jafna sig.
  4. Setjið grænmetið fyrst á diskana. Þá nautasteikina og loks væna matskeið af pestói á hverja steik.
  5. Berið strax fram ásamt afganginum af pestóinu og grænmetinu.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert