Maturinn sem unga fólkið kann ekki að elda

Bókin er einstaklega smekkleg og skemmtileg.
Bókin er einstaklega smekkleg og skemmtileg. Árni Sæberg

Þetta eru uppskriftir að mat sem mín kynslóð þekkir og þykir góður en kann samt ekki að elda,“ segir Guðrún Lárusdóttir, 24 ára nemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Ömmumatur nefnist uppskriftabók sem hún gerði sem hluta af lokaverkefni sínu við skólann og eins og nafnið gefur til kynna er þar að finna uppskrift að mat sem ömmur elda gjarnan.

„Tilgangurinn með verkefninu var að safna saman þessum algenga ömmumat, sunnudagsmatnum, plokkfisknum, kjötsúpunni og öðru. Nú eru ömmurnar að falla frá og þá hverfur þekkingin.

Ég fór og talaði við sautján konur og fékk uppskriftir hjá þeim sem þær nota hversdags og til hátíðabrigða. Þær eru allar ömmur og allar ömmur minnar kynslóðar,“ segir Guðrún. Hún segir að ömmurnar hafi fúsar gefið uppskriftirnar sínar og haft gaman af verkefninu.

„Ég var með staðlaðan spurningalista. Spurði þær hver væri uppáhaldsmaturinn þeirra og hvað var vinsælasti maturinn þegar börnin þeirra voru ung og hvað þær elduðu fyrir barnabörnin og svona.

Kjötsúpan og lambið voru vinsælustu réttirnar og svo komu bollurnar, fiskibollur og kjötbollur. Þetta er mikið sami maturinn sem þær gáfu mér uppskriftir að en uppskriftirnar eru jafn mismunandi og þær eru margar. Ég bað t.d. alltaf um uppskrift að kjötsúpu og plokkfiski til að sjá mismuninn á matargerðinni. Ég eldaði alla réttina heima og það voru mjög mismunandi skoðanir á því hvaða uppskriftir væru bestar.“

Amma gaf neistann

Bókin er 128 blaðsíður að lengd og hefur að geyma nánast jafn margar uppskriftir. Guðrún segir bókina vera kaflaskipta eftir ömmum; ein amma, einn kafli og í þeim kafla séu allar uppskriftirnar sem sú kona gaf henni.

Spurð hvort amma hennar eigi kafla í bókinni neitar Guðrún því. „Amma mín er ekki í bókinni þótt hún sé neistinn að hugmyndinni. En þarna eru afasystir mín, mamma konu sem ég vann einu sinni hjá, amma kærasta frænku minnar og konur héðan og þaðan, eins langt og tengslin ná. Amma á reyndar uppskrift í formálanum, að uppáhaldsmatnum mínum sem hún eldar. Það er fiskirönd, sérréttur sem amma kokkaði upp fyrir mörgum árum. Hún gufusýður fiskfars í staðinn fyrir að steikja fiskibollur úr því. Þetta hefur alltaf verið uppáhaldsmaturinn minn hjá ömmu en það kannast enginn annar við hann. Þá fór ég að pæla í því af hverju enginn þekkir þetta, en þetta er matur sem ég hef borðað síðan ég var smábarn.“

Guðrún eldaði allar uppskriftirnar sem hún fékk, ljósmyndaði þær og vann úr textanum. Hún naut dyggrar aðstoðar fjölskyldu sinnar. „Ég og pabbi tókum myndirnar og ég og mamma elduðum matinn saman. Systir mín er að klára MA-nám í hagnýtri ritstjórn og útgáfustörfum og ritstýrði bókinni fyrir mig. Við hjálpumst mjög mikið að, þetta er samheldin og góð fjölskylda svo ég er mjög hamingjusöm með það,“ segir Guðrún glettin.

Vinahópurinn áhugasamur

Bókin Ömmumatur er ekki komin út en gæti gert það að sögn Guðrúnar. „Ég var með lítið upplag til sölu á útskriftasýningunni og það er uppselt. Það á eftir að koma í ljós hvernig málin þróast. Ég þarf að velta fyrir mér hvort ég finn útgefanda, gef bókina út sjálf eða geri ekki neitt.“

Aðspurð segist Guðrún finna fyrir miklum áhuga á „ömmu“-uppskriftum. „Vinahópurinn minn hefur áhuga á að læra að elda þennan mat og allir mjög spenntir fyrir þessu verkefni mínu. Vinkonur mínar eru búnar að vera að hringja í mig og spyrja hvernig plokkfiskur sé gerður og svona.

Mér finnst vera vakning í að elda gamaldags heimilismat. Í kreppunni finnst mér fólk vera að leita aftur í gamlar hefðir og hvað er Ísland og hvað er íslenskt.

Þessi matargerð týndist svolítið af því að mömmur okkar fóru út á vinnumarkaðinn og höfðu ekki tíma til að vera í eldhúsinu. Þá komu þær heim og elduðu eitthvað mjög fljótlegt. Einnig bárust ýmsar nýjungar í matargerð til landsins, t.d. hamborgarar og pitsur. Við fórum í skólann eða út að leika og þegar við komum heim var bara matur á borðum og við sáum aldrei hvernig hann var útbúinn. Maður vissi einu sinni ekki hvað var í því sem maður át, annaðhvort var það gott eða ekki.“

Guðrún segist hafa mikinn áhuga á mat og matargerð og henni líður vel í eldhúsinu. En eldar hún mikið upp úr uppskriftabókinni sinni? „Ég hef eldað allar uppskriftirnar í henni en við tókum smá pásu núna. Við fjölskyldan borðuðum þennan mat í tvo mánuði þegar við unnum að bókinni. En við erum samt búin að vera að gera hveitikökur og fiskibollur og kjötbollur.

Ég var að uppgötva hveitikökurnar og þær eru alveg hrikalegar góðar með allskonar áleggi,“ segir Guðrún og gefur lesendum hér uppskrift að hveitikökum sem hún fékk hjá Erlu Gísladóttur.

UPPSKRIFT

Hveitikökur

8 bollar hveiti

Örlítill sykur

6 tsk. lyftiduft

½ tsk. matarsódi

½ hjartarsalt

1 glas matarolía

½ lítri súrmjólk eða skyr og mjólk

1 egg

Allt hráefnið hnoðað saman, betra er að hnoða eins lítið og hægt er að komast af með, deigið slitið sundur í litlar bollur sem flattar eru út með fingrunum, settar á borð og flattar aðeins með kökukefli, eins lítið og hægt er. Bakaðar á pönnukökupönnu við vægan hita. Staflað á disk og gjarnan lagður diskur ofan á. Smurðar að vild.

Guðrún Lárusdóttir með kokkabókina Ömmumatur sem hún skrifaði.
Guðrún Lárusdóttir með kokkabókina Ömmumatur sem hún skrifaði. Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert