Íslenskt haustlamb

Nú er uppskeru- og sláturtíð á Íslandi og um að gera að nýta sér það til fulls í eldhúsinu. Og hvað er betra en íslenskt lamb með íslensku grænmeti, ekki síst nú þegar íslenski kúrinn er að komast í tísku?

Einfaldleikinn er oft bestur. Skerið niður nýuppteknar íslenskar kartöflur og grænmeti og setjið í stóra ofnskúffu. Grófsaxið einn lauk og látið fylgja með. Næst kemur vænn skammtur af ferskum kryddjurtum: það sem þið eigið til í garðinum (eða finnið í búðinni). Gott er t.d. að hafa nálar af 2-3 rósmarínstilkum, lúku af óreganó, timjan og smá salvíu. Þá kemur næst góður skammtur af ólívuolíu, salt og pipar. Bætið um 1 dl af vatni í ofnskúffuna.

Þá er komið að lambakjötinu og læri er besti kosturinn. Það þarf yfirleitt ekki heilt læri fyrir venjulega fjölskyldu, bðjið kjötborðið um að skera það í tvennt. Saltið kjötið vel og piprið og veltið upp úr kryddblöndu, t.d. "villijurtum" frá Pottagöldrum.

Setjið lærið ofan á grænmetið og síðan ofnskúffuna inn í 180 gráðu heitan ofn. Snúið kjötinu við eftir 25 mínútur og hrærið um í grænmetinu. Eftir 45 mínútur er hitinn hækkaður í 220 gráður og kjötið eldað í 15-30 mínútur í viðbót, eftir stærð bitans og hvað þið viljið kjötið mikið steikt. Gott er að hræra nokkrum sinnum í grænmetinu.

Með þessu gott rauðvín, t.d. Mo Monastrell.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert