Lambahryggur með kartöflugratíni og sætum tómötum

Lambahryggur er klassísk sunnudagssteik og hér er hann borinn fram með kartöflugratíni og tómötum með hlynsírópi. Kartöflurnar eru forsoðnar í rjóma ásamt lauk, hvítlauk og kryddum en þannig blandast brögðin betur saman og gratínið þarf ekki eins langan tíma í ofni.

Skerið í puruna á hryggnum og kryddið hann með grófu salti, nýmuldum pipar, rósmarín og timjan. Eldið í 180-200 gráðu heitum ofni þar til hann hefur náð þeirri eldun sem þið viljið.

Kartöflugratín

  • 1 kg kartöflur
  • 2 laukar
  • 3-4 hvítlauksgeirar
  • 5 dl matreiðslurjómi
  • rifinn ostur
  • salt og pipar

Flysjið kartöflurnar og skerið í skífur. Skerið laukinn í skífur. Setjið matreiðslurjómann í stóran pott ásamt kartöflunum, lauknum, pressuðum hvítlauksgeirunum og klípu af salti og pipar. Það er einnig gott að bæta smáklípu af múskat saman við.

Leyfið suðunni að koma upp og látið síðan malla í 5-7 mínútur.

Setjið í ofnfast form. Stráið rifnum osti yfir. Setjið inn í 200 gráðu heitan ofn og bakið í 25-30 mínútur.

Sætir tómatar

  • 3 þroskaðir tómatar
  • 1 lítil dós tómatapúrra
  • 1 msk hlynsíróp
  • salt og pipar

Skerið tómatana í litla teninga. Setjið í skál og blandið tómatapúrru og hlynsírópi saman við. Saltið og piprið.

Hér á kröftugt rauðvín vel við. Reynið t.d. Beso de Vino Seleccion eða Trivento Golden Reserve Malbec.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert