Hátíð með marokkóskum blæ

Adil Qarasnane.
Adil Qarasnane. Sigurgeir Sigurðsson

Marokkósk matargerð á sér ófáa aðdáendur á Íslandi og því eflaust að margir sperra eyrun þegar Adil Qarasnane segir frá hátíðarmatarvenjunum í heimalandi sínu.

Adil fluttist til Íslands fyrir um 13 árum til að elta ástina, og hefur verið hér alla tíð síðan, dágóða vegalengd frá heitum heimaslóðum í Marokkó.

Fjölskyldukvöld í lok ársins

Þó að hægt sé að finna fjölbreytt samansafn fólks í Marokkó þá er landið múslimaland og því ekki mikið um jólahald. „Sjaldgæft er að haldið sé upp á jóladag en hins vegar er það vaninn hjá langflestum að halda veislu á gamlárskvöld. Fjölskyldan á þá notalega kvöldstund, foreldrarnir og börnin gæða sér saman á góðum mat og skiptast á gjöfum. Unga fólkið getur svo oft átt það til að fara út á lífið um nóttina og heimsækja skemmtistaðina,“ segir Adil.

Marokkó er á suma vegu íhaldssamt land og aðra vegu frjálslynt. Þannig er áfengi selt í landinu þrátt fyrir fyrirmæli ríkistrúarinnar og segir Adil ekki óvenjulegt að finna vín á veisluborðum. „Strangt til tekið kveða lögin á um að áfengið sé aðeins til sölu fyrir útlendinga, en reyndin er önnur og af þeim sem kaupa sér áfengar veigar í verslununum er sennilega yfirgnæfandi meirihluti heimamenn. Hins vegar þykir það góður siður að foreldrar drekki ekki vín þegar börnin sjá til.“

Lambið efst á lista

Réttir úr lambakjöti og kjúklingi eru algengastir á hátíðarborðunum í desember. „Þó að fiskur sé mikið borðaður í landinu er það frekar matur sem snæddur er yfir daginn en á kvöldin. Í huga margra Marokkóbúa er lamba-tajinee með þurrkuðum apríkósum og plómum dæmigerður hátíðarréttur. Þó að couscous sé undirstaða í matargerðinni þykir það helst til þungur matur á hátíðisdögum.“

Í Marokkó má líka finna bakarí sem þykja galdra fram sérlega kræsilegt bakkelsi. Bökunarhefðin þykir vera undir frönskum áhrifum, en meðal smákaka sem njóta töluverða vinsælda eru svokölluð gazelluhorn, sem mætti helst líkja við kransaköku, og eru fylltar með möndludeigi. Þeir sem reynt hafa bakaríin í Casablanca eða Marrakech geta borið vitni um að margar af kökunum þar geta vel átt heima í jólabakstursúrvali íslenskra heimila, við hliðina á hálfmánum og gyðingakökum.

Litlar kókoskökur

frá Marokkó

400 g kókos

300 g sykur (má setja minna)

3 egg

Hýði af einni sítrónu

1 tsk. lyftiduft

Flórsykur

Aðferð Blandið kókos, sykri og lyftidufti saman. Hýðið af sítrónu sett í og síðan eggin. Ef blandan er of blaut þá skal bæta við meiri kókos, en ef blandan er of þurr má bæta við öðru eggi.

Deigið er mótað í litlar kúlur og flórsykri stráð yfir.

Bakað í 10-15 mínútur við 180 gráður.

Á sína uppáhalds íslensku rétti

Smám saman virðist bera meira á jólablæ yfir stærri borgum Marokkó í desember. Í verslunarmiðstöðvum má jafnvel finna lítil jólasvæði og krakkarnir geta komið og látið mynda sig með jólasveininum. „Hugsunin er þá ekki beinlínis að fagna jólum á kristna vísu, heldur er frekar verið að gera þetta fyrir börnin og skapa skemmtilegar desemberminningar.“

Eftir langa búsetu á Íslandi er ekki laust við að komið sé smá jólabarn í Adil líka, og með konu sinni fyrrverandi fékk hann að sjálfsögðu að kynnast íslenskum jólasiðum í ótalmörgum fjölskylduboðum. Hann játar að sér þyki hangikjöt ágætur matur, og raunar allt sem heitir íslenskt lambakjöt. „Ég held ég hafi náð að smakka flest sem heitir íslenskur jólamatur og borða með bestu lyst, nema auðvitað að ég verð að láta svínakjötið vera.“

Í efsta sætið yfir íslenska rétti setur Adil hins vegar ekki rjúpu, hreindýr eða vandlega reykt hangilæri: „Best af öllu er íslenska kjötsúpan. Grafinn íslenskur lax er líka algjört sælgæti fyrir mig.“

Marokkóskt lamb með apríkósum og plómumLambahlutinn

2 laukar

1 tsk. engifer

1 tsk. pipar

Salt eftir smekk

½ tsk. kanill

Kóríander

Olía

1 kíló lambakjöt

3 stk. egg til skreytingar

1 poki af möndlum Ávaxtahlutinn

150 g apríkósur

150 g plómur

1 msk. sesamfræ

1 tsk. kanill

1 msk. sykur

4 msk. safi úr lambaréttinum

Aðferð Laukur steiktur og saltaður í potti.

Kjötið er sett í pottinn og látið steikjast í smástund.

Kanil, pipar og engiferi bætt við ásamt óskornu kóríander.

Tvö glös af heitu vatni fara út í pottinn og svo látið krauma í 30-40 mínútur, eða lengur ef þarf.

Allt innihald pottsins er svo sett í fallega skál og skreytt með soðnum eggjum. Möndlur léttsteiktar í olíu og stráð yfir réttinn.

Apríkósurnar og plómurnar eru settar í skál ásamt kanil, sykri og safanum úr lambapottréttinum.

Látið krauma í 10 mínútur, sett í skál ofan á lambakjötið og sesamfræjum stráð yfir.

Sigurgeir Sigurðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert