Heimaræktað gerir gæfumuninn

mbl.is

Það er auðveldara og einfaldara en margur hyggur að rækta eigið kryddjurtaúrval. Langflestar þeirra þola auðveldlega útiveru yfir sumartímann, svo fremi sem þær hafa næga mold og þar með rótarraka. Það er því upplagt að rækta jurtirnar í sæmilega stórum pottum og þá þarf engan garð til heldur duga svalir og smærri pallar vel til þess arna. Kryddjurtir eru líka stáss út af fyrir sig og mikil prýði hvar sem þær eru hafðar. Þá er ótalið hversu hollar og heilnæmar ferskar kryddjurtir eru.

Kjörið á kjötið

Margar gerðir ferskra kryddjurta henta einstaklega vel á steikina. Að mauka saman steinselju við saxaðan hvítlauk, ásamt sjávarsalti og nýmöluðum pipar er stórgott „rub“ bæði á lamb og kjúkling. Estragon, öðru nafni fáfnisgras, er ómissandi í bearnaise-sósuna, sem aftur er ómissandi á nautasteikina, á meðan graslaukurinn lyftir kartöflusalatinu á annað plan. Timjan, sem á íslensku kallast garðablóðberg, er ein albesta kryddjurtin sem til er á íslenska lambið. Þegar þurrkuðum apríkósum er svo bætt við er trauðla hægt að toppa lambalærið! Rósmarín fer líka einstaklega vel með ferskum hvítlauk, bæði sem marinering á kjöt og svo sem bragðbætir á grillaða kartöflubáta. Eina plantan sem ekki plumar sig alltaf vel utandyra á Íslandi er basil.

Galdraðu eigin olíur!

Það er ekki gefins að kaupa tilbúna hvítlauksolíu en þess meiri hægðarleikur að laga hana heima fyrir. Sama má segja um hvers konar bragðbættar olíur af öllu tagi. Allur galdurinn er að setja kryddjurtirnar – eða hvítlaukinn – í hreina glerkrukku eða glerflösku, og hella svo hreinni ólífuolíu yfir. Gott er að hrista glerílátið endrum og sinnum til að auka að bragðblöndunina. Þar með er komin fyrirtaks olía á pitsuna, í pönnusteikinguna, salatið eða á grillaða brauðið.

Villt bragð í garðinum

Kúmenjurtin gefur af sér hin bragðmiklu fræ sem löngum hafa bragðbætt íslenskan bakstur, en hún vex villt hér á landi. Hún dreifir sér hins vegar og vissara að hafa hana í potti vilji fólk ekki hafa hana um allan garð. Sama er að segja um myntuna, hún getur sáð sér sjálf og harkar því af sér utandyra og rúmlega það. Það kemur sér vel því hún hentar sérdeilis vel í te sem og rommblönduna vinsælu, mojito. Óreganó, eða bergmynta, gefur ómissandi bragð í flestan ítalskan mat og er eitt helsta pitsukryddið.

Rétt er að minna á að kryddjurtir þurfa um 20-30 sentímetra djúpa mold til að engin hætta sé á að plönturnar þorni, og séu fleiri en ein jurt saman í potti eða beði er rétt að miða við að minnst kosti 15 sentímetra bil á milli jurta. Munið svo að skola vel allt sem haft er í matinn úr garðinum!

Bruschetta með basiliku

Baguette-brauð

3 tómatar

1 msk. balsamik edik

1 msk. ólífuolía

2 hvítlauksgeirar

væn lúka ferskt basilika

salt og pipar

Saxið tómata (hellið af mesta fræsafanum), annan hvítlauksgeirann, basiliku og blandið saman. Bætið við olíu og balsamik-ediki, og saltið og piprið eftir smekk. Blandið öllu vel saman.

Skerið brauðið í sneiðar, glóðið svo brauðsneiðarnar eða ristið. Nuddið svo smurhlið hverrar brauðsneiðar með hinu hvítlauksrifinu, setjið á örlitla olífuolíu, stráið á sjávarsalti og smyrjið svo með maukinu. Borðið strax.

Kryddblanda á lambakjöt með fersku blóðbergi

15 þurrkaðar apríkósur

Væn lúka af fersku garðablóðbergi (timjan)

1 hvítlauksgeiri

5 msk. ólífuolía

Safi úr hálfri sítrónu

Sjávarsalt

Merjið saman blóðbergið og apríkósurnar, t.d. í mortéli, ásamt teskeið af salti. Þegar blandan er vel maukuð bætið við olíu og sítrónusafa. Skerið apríkósurnar mjög smátt niður og bætið þeim svo við í blönduna. Merjið allt vel saman.

Blandan fer einkar vel með lambalæri. Þá skal skera grunnar raufar í kjötið og troða blöndunni vel í. Einnig er gott að stinga svolitlu í hækilinn og nudda svo kjötinu upp úr afganginum. Eldið svo lærið samkvæmt eigin hefð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert