Beikonilmurinn mun svífa yfir Skólavörðustígnum

Beikon Festival hátíðin verður haldin á laugardaginn kemur.
Beikon Festival hátíðin verður haldin á laugardaginn kemur.

Það verður ósvikin beikonstemning á Skólavörðustígnum næstkomandi laugardag, 25. ágúst, kl. 14 þegar beikonhátíðin Reykjavík Beikon Festival verður haldin. Allir landsmenn eru hjartanlega velkomnir og þeir sem þykir gott að gæða sér á beikoni eru sérstaklega hvattir til að koma því boðið verður upp á beikon í kílóavís sem verður grillað ofan í mannskapinn.

Beikonhátíðin í Reykjavík er árlegur viðburður en fyrsta hátíðin var haldin í fyrra og vakti mikla lukku. Gestum og gangandi gefst kostur á að gæða sér á íslensku og amerísku úrvalsbeikoni, smakka framandi beikon-innblásna rétti frá nærliggjandi veitingastöðum, dilla sér við lifandi tónlist og blanda geði við aðra beikonunnendur.

Saga hátíðarinnar hér á landi hófst þegar aðstandendur the Blue Ribbon Bacon Festival Tour í Bandaríkjunum sýndu því áhuga að halda hátíð hér á landi. The Blue Ribbon Bacon Tour var ýtt úr vör af beikonunnendum í Bandaríkjunum árið 2001. Það sem byrjaði sem lítið festival meðal lítis hóps beikonunnenda er nú orðið að stærstu beikonhátið veraldar. The Blue Ribbon Bacon Festival er nú haldið víðsvegar um Bandaríkin og Evrópu ár hvert og hafa stjórnarmeðlimir hátíðarinnar allir sem einn mikla þekkingu í beikonfræðum. Þeir voru afar ánægðir með hátíðina og þær viðtökur sem þeir fengu hjá landsmönnum í fyrra og vonast eftir að sjá enn fleiri koma á hátíðina í ár.

„Hið íslenska beikonbræðralag hefur aðstoðað okkur við alla uppsetningu á hátíðinni hér á landi og erum við þakklátir fyrir það. Við sáum í fyrra að Íslendingar eru beikonelskandi þjóð og vildum halda hátíðina aftur hér á landi. Við hlökkum til að leyfa Íslendingum að smakka bandarískt beikon og munum við veita vegfarendum innsýn í hina huldu heima beikonsins. Börnin munu einnig hafa gaman af því að kíkja á okkur því lukkudýrið, svínið Blue, verður einnig á staðnum,“ segir Marshall Porter, Chief Bacon Officer hjá The Blue Ribbon Bacon Festival.

Þeir félagar úr Blue Ribbon Bacon Board eru væntanlegir til landsins á morgun og munu setja hátíðina formlega í Höfða þar sem leiðtogar Blue Ribbon og leiðtogar hins íslenska bræðralags munu funda um viðkvæm málefni er varða beikon eins og viðskiptahindranir á beikoni, næringargildi beikons, réttindi beikonætna og hina umdeildu keppni „ungfrú beikon“ ásamt öðrum beikonmálefnum. Töldu meðlimir rökrétt að halda þennan mikilvæga fund í Höfða þar sem Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev ræddu ekki síður mikilvæg mál í október 1986.

Tilgangur hátíðarinnar er að stuðla að samræmdri sýn á allt sem snýr að beikoni og huga að réttindum beikonunnenda. Ræða um listgreinar sem sækja innblástur í beikon og nýjungar í matreiðslu á beikoni.

Allir eru velkomnir milli kl. 14 og 17 laugardaginn 25. ágúst á Skólavörðustíg, á milli Ostabúðarinnar og Ófeigs gullsmiðju.

Um kvöldið heldur gleðin áfram á Kex kl. 19 þar sem Klaufarnir spila og beikon verður aldrei langt undan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka